Kauphöll Íslands, Nasdaq Iceland, tekur þátt í sameiginlegum viðburði á heimsvísu um að hringja kauphallarbjöllunni fyrir jafnrétti kynjanna á Alþjóðadegi kvenna 2017, þann 8. mars. Þema dagsins í ár er #BeBoldForChange. Viðburðirnir eru samstarfsverkefni Sustainable Stock Exchanges Initiative, UN Global Compact, UN Women, IFC, Women in ETFs og World Federation of Exchanges. 43 kauphallir um allan heim, þ.á.m. Nasdaq Iceland, munu láta bjölluna klingja til að vekja athygli á því að jafnrétti kynjanna er nauðsynlegt til að drífa áfram alþjóðlegt efnahagslíf og að einkageirinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri þróun.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra og Rakel Sveinsdóttir, stjórnarkona í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA, munu hringja bjöllunni að morgni 8. mars í Kauphöllinni að viðstöddum gestum. Ráðherra mun ávarpa gesti og Rakel mun kynna nýtt verkefni á vegum FKA.
Samkvæmt nýlegum könnunum sem gerðar hafa verið á Íslandi kemur fram að þrátt fyrir að jafnvægi ríki á meðal karla og kvenna í stjórnum skráðra fyrirtækja þá fer fjarri að það endurspegli stöðu kvenna innan íslenskra fyrirtækja. Hlutdeild kvenna í stjórnum meðalstórra og stórra fyrirtækja er innan við fjórðungur. Þá eru konur innan við 10% framkvæmdastjóra á meðal stærstu fyrirtækja og fjárfesta og engin kona stýrir skráðu fyrirtæki á markaði.
„Alþjóðadagur kvenna snýst m.a. um að kalla til aðgerða fyrir jafnrétti kynjanna”, segir Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Þetta er ekki bara um mál kvenna; þetta snýst ekki um sérstök réttindi eins og stundum er látið í veðri vaka, heldur er þetta sameiginlegt átak okkar í því að berjast fyrir jöfnum réttindum og tækifærum. Með því að bjóða framkvæmdastjórnum og stjórnum skráðra fyrirtækja og öðrum hagsmunaaðilum að koma og vera viðstödd þegar bjöllunni verður hringt fyrir jöfnum réttindum kynjanna erum við að hvetja einkageirann til þess að huga alvarlega að þessum málum. Það er ekki bara sjálfsagt, heldur líka samfélagslega og efnahagslega ábyrgt.”
UN Sustainable Stock Exchanges Initiative gáfu nýverið út skýrslu sem sýnir hvernig kauphallir geta og eru að vinna að fimmta markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lýtur að jafnrétti kynjanna. Þar kemur eftirfarandi fram:
- Á heimsvísu njóta konur 1/10 af peningalegri afkomu en skila 2/3 af vinnuframlaginu
- Stúlkur og konur njóta jafnræðis í aðgengi að menntun í aðeins 25 löndum
- Þriðjungur kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni
- Samkvæmt könnun Bloomberg LP frá 2016 sem gerð var á meðal 1000 skráðra fyrirtækja, er hlutfall kvenna 23% á meðal æðstu stjórnenda, 21% innan stjórna; í 4% fyrirtækjanna er kona stjórnarformaður og í 3% þeirra er kona forstjóri
Miklir viðskiptalegir hagsmunir eru að veði:
- Sýnt hefur verið fram á að mælikvarðar eins og arðsemi eigna (ROA), arðsemi eigin fjár (ROE) og hagnaður á hlut (EPS) færast til betri vegar og flökt þeirra minnkar ef konur eru á meðal stjórnenda
- Fjölskylduvænt umhverfi getur bætt starfsanda á vinnustað, minnkað starfsmannaveltu og haldið í gott starfsfólk
- Ef þær fengju betri þjónustu, gætu konur sem eiga lítil fyrirtæki bætt um 285 milljörðum dollara við efnahagslíf heimsins
- Efnahagur heimsins gæti verið 28 billjón dollurum stærri árið 2025 ef ójafnrétti kynjanna væri eytt