Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Formaður slugsaflokks í jafnréttismálum kominn til New York vegna HeForShe

$
0
0

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er komin til Bandaríkjanna þar sem hann mun næstu daga taka þátt í viðburðum á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York og Alþjóðabankans í Washington tengt HeForShe leiðtogahlutverki hans og eiga fundi með helstu ráðamönnum stofnananna tveggja, forseta allsherjarþingsins og yfirmönnum undirstofnana SÞ.

Forsætisráðherra er einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari fyrir átaki UN Women sem miðar að því að fá karlmenn um allan heim til þess að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti „HeforShe 10x10x10 Impact Champions“. Um er að ræða 10 þjóðarleiðtoga, 10 forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja og 10 háskólarektora.

Auglýsing

Átakið á að vekja menn og drengi til vitneskju um sinn þátt í baráttunni fyrir jafnrétti. Áður voru fyrir Íslands hönd þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherrar, í forsvari fyrir átakið.

Þetta hlutverk tekur Bjarni að sér þrátt fyrir að vera formaður flokks sem ítrekað er eftirbátur annarra þegar kemur að hlutfalli kvenna í forystusætum til Alþingis, leiða ríkisstjórn þar sem konur eru í minnihluta og hafa ekki tekist að tryggja stuðning við jafnlaunavottun, stærsta jafnréttismál ríkisstjórnarinnar, í eigin röðum.

Auglýsing

Það er leikkonan Emma Watson sem er primos motor að baki átakinu en HeForShe. Átakið hófst með ræðu og sérstökum viðburði hennar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna árið 2014. Forsætisráðuneytið lét það ógert að minnast á þátt Emmu Watson sem upphafskonu átaksins í fyrstu fréttatilkynningu þótt taldir séu upp karlkynsforsætisráðherrar sem lagt hafa því lið. „Bjarni mun þá kannski segja frá því að ef ekki væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá væru konur í meirihluta á Alþingi í fyrsta skipti,“ skrifaði Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi VG, þá á Facebook vegna málsins. „Að Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, hafi ekki gripið til neinna aðgerða til að leiðrétta stöðu kvenna.“

Fáar konur í þingliði meirihlutans

Í stjórnarmeirihlutanum eru 19 þingmenn en 13 þingkonur. Hlutfall kvenna er því 40%. Að því gefnu að karlmenn allra flokka sameinist ekki um þingmeirihluta karlmanna, þvert á flokkslínur, til þess að tryggja að konur komist ekki til valda var ómögulegt að mynda þingmeirihluta um ríkisstjórn með lægra hlutfalli kvenna en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þá er ekki átt við þá pólitísku ákvörðun formanna flokkanna þriggja að skipa aðeins fjórar konur ráðherra á móti sjö karlmönnum. Sú ákvörðun er tekin þrátt fyrir að vel sé hægt að skipa jafnt í stólana. Ákvörðun segir þó ansi margt um menninguna innan stjórnmálaflokkanna og nálgun á aðgerðir í þágu jafnréttis umfram yfirlýsingar.

Lágt hlutfall kvenna í þingliði stjórnarmeirihlutans skrifast eingöngu á Sjálfstæðisflokkinn en af þeim 21 fulltrúum sem flokkurinn fékk kjörna á þing eru aðeins sjö konur. Það gerir þriðjung. Í fjögurra manna þingflokki Bjartrar framtíðar eru þrjár þingkonur og í átta manna þingflokki Viðreisnar eru konurnar sjö.

Í þingmeirihluta VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar eru 18 konur af 34 þingmönnum en 16 karlar. Hlutfallið er því um 53%. Í þingmeirihluta VG, Pírata, Framsóknar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar hefðu konur verið 20 af 35 manna meirihluta. Það eru 57%.  Sá meirihluti kom raunar aldrei til greina enda ákváðu Björt framtíð og Viðreisn að geirnegla flokkana saman og búa þannig til þá pattstöðu. Hefði Samfylkingunni verið sleppt og samið um 32 manna meirihluta hinna flokkanna hefði sú stjórn haft 19 konur en 13 karla. Sé svo þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar skoðaður sést að konur skipa þar 18 af 39 þingsætum sem eru um 46%. Að lokum má benda á að þingstyrkur Sjálfstæðisflokks, VG og Pírata hefði verið 41 þingmaður með 18 konur eða 44%. Sá meirihluti kom aldrei til greina en bæði Píratar og Sjálfstæðisflokkur höfðu útilokað samstarf hvor með öðrum.

Auglýsing

Í málefnasamning ríkisstjórnarinnar segir að jafnrétti „í víðtækri merkingu“ sé „órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“ Sérstaklega er tekið fram að jafnrétti á vinnumarkaði „vegi þungt“ og því verði sérstök áhersla lögð á að skylda fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri að taka upp árlega jafnlaunavottun. Breytingin frá núverandi stöðu er að fyrirtækjum verður skylt að fara eftir reglugerð nr. 929/2014 sem þegar er í gildi. Í dag er hún valfrjáls. Þá bætist við að jafnlaunavottun verður birt með ársreikningum fyrirtækja.

rikisstjorn-bb-11-1-17

Strákarnir í meirihluta

Jafnlaunavottun

Í frumvarpsdrögum sem Viðreisn birti á vefsíðu sinni fyrir kosningar kemur fram að heimilt verði að sekta fyrirtæki sem ekki skila inn jafnlaunavottorði til ársreikningaskrá. Þann 16. október birtu Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, frambjóðandi Viðreisnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, grein um jafnlaunavottun þar sem talað er til vinnuveitanda og þeir fullvissaðir um að reglurnar verði ekki mjög íþyngjandi. „Ekki stendur til að stofna nýja eftirlitsstofnun eða ríkisbatterí, heldur munu fyrirtæki láta þriðja aðila framkvæma jafnlaunavottun samhliða árlegri úttekt á öðrum þáttum reksturs. Þessar upplýsingar verða síðan aðgengilegar starfsmönnum,“ segir í greininni. Þá kemur fram að málefnalegar ástæður geti verið fyrir hærri launum. „Fyrirtæki munu ekki þurfa að greiða starfsmönnum sömu laun óháð vinnuframlagi og hæfni. Málefnalegar ástæður kunna að vera fyrir hærri launum. Hins vegar verður fyrirtækjum og opinberum stofnunum gert að upplýsa hver launamunur er á milli kynjanna að teknu tilliti til allra málefnalegra sjónarmiða. Þeim verður gert að upplýsa ef konur fá minna greitt fyrir það eitt að vera konur.“ Það vekur athygli að frumvarpið lögfesti raunar eftirlit sem unnið verði af einkaaðilum. Slíkt tíðkast þó að sjálfsögðu enda ársreikningavinna lögbundin og framkvæmd af einkaaðilum nú þegar.

Auglýsing

Þá er ekki skýrt kveðið á um það hvort og þá hvernig ríkið mun grípa inn og refsa fyrir kynbundinn launamun komi það upp úr krafsinu að laun innan fyrirtækisins séu ekki í samræmi við hugmyndir okkar um jafnrétti kynjanna. Þó er gert ráð fyrir heimild til að sekta fyrirtæki sem ekki skila vottun.

Andstaða við jafnlaunavottun í ríkisstjórnarmeirihlutanum

Talsverð andstaða er við áform ríkisstjórnarinnar um lögfestingu jafnlaunavottunar meðal stjórnarþingmanna. Ríkisstjórnin er aðeins með eins þingmanna meirihluta en þeir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst sig andvígan áformunum. Þá hefur Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagt málið vitleysu. Þetta er bara ein­hver vit­leysa. Ég vona að menn end­ur­skoði þetta,“ sagði hann við Morgunblaðið um málið. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði svo að fyrirliggjandi gögn gefi ekki tilefni til þess að fullyrða að kynbundinn launamun sé að finna á vinnumarkaði. Sjálf hefur dómsmálaráðherra ritstýrt vefriti sem hæddist að flóttafólki og mannréttindaumræðu.

Jafnlaunavottun er viðbragð við því að þrátt fyrir að árið 1961 hafi Alþingi lögfest launajafnrétti kynjanna, hefur kynbundinn launamunur tíðkast hér á landi og gerir enn. „Frummælendur lagafrumvarpsins voru bjartsýnir um að baráttan yrði snögg. Laun kvenna skyldu hækkuð í þrepum næstu sex árin, og 1967 átti fullu launajafnrétti kynjanna að vera náð. Erfiðara reyndist að útrýma launamuninum en þessir frumkvöðlar töldu, enda voru lögin meingölluð. Tekið var fram að frumvarpið grundvallaðist á reglunni um sömu laun fyrir sams konar störf, en allt of flókið var talið að fara í verðmætamat starfsgreina og að greiða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf,“ segir á vef staðlaráðs um málið. Árið 1976 voru svo sett lög sem kváðu á um sömu laun og sömu kjör kvenna fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Það er svo árið 2008 sem sett eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er að finna bráðabirgðarákvæði um jafnlaunavottun og vinna hófst í kjölfarið við samninga staðals um hvernig slíkt yrði unnið. „Vinnan við gerð staðalsins tók fjögur ár. Skipuð var sérstök tækninefnd til að vinna að gerð þessa staðals og hafði Staðlaráð Íslands umsjón með verkefninu, en í nefndinni sátu fulltrúar velferðarráðuneytis, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Jafnréttisstofu, fjármálaráðuneytis, BSRB, BHM, Félags kvenna í atvinnurekstri, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Orkuveitu Reykjavíkur og ParX/Norcon. Tækninefndin skipaði síðan sérstakan vinnuhóp sem samdi drög að texta staðalsins og naut til þess aðstoðar ýmissa sérfræðinga,“ segir á vef Staðlaráðs.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283