Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar

$
0
0

Heiðveig María Einarsdóttir skrifar:

Ég veit ekki með aðra, en ég upplifi einhverskonar óreiðu í þessari nýju ríkisstjórn okkar! Án þess að vera staðsett á einhverjum ákveðnum stað í pólitík þá finnst mér ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar vera á einhverskonar hundasundi – að minnsta kosti eftir að hafa fylgst með fréttum það sem af er þessu ári og í sumum tilvikum eingöngu yfirborðskennt. Er þetta eðlilegt?

Auglýsing

Þorgerður Katrín sjávarútvegsráðherra: Sýndi gagnrýnivert og fordæmalaust ábyrgðarleysi í nýafstaðinni kjaradeilu sjómanna með yfirlýsingum um enga lagasetningu sem þó endaði með hótun um lagasetningu. Auk þess var hún gagnrýnd (réttilega) fyrir að vera ekki með yfirlit yfir þjóðhagsleg áhrif verkfallsins.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra: Er að væflast með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og virðist ekki getað tekið afgerandi afstöðu né beint málinu í réttan farveg – auk þess virðist hann ekki vilja gefa út afstöðu sína gagnvart áfengisfrumvarpinu.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra: Ráðherrann fer með rangt mál í svari til þingsins og virðist sem svarið sé í þversögn við eigin stefnu ríkisstjórnarinnar – ógleymdur vandræðagangur ráðuneytisins vegna mengunar í Helguvík.

Sigríður Á. Anderssen, dómsmálaráðherra: Hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir ábyrgðarlaust blaður (Kári Stefánsson) í tengslum við DNA rannsóknir hér á landi – auk þess kom hún sér í vandræði með því að efast um kynbundin launamun, þrátt fyrir allar rannsóknir þar um.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra: Margumtöluð skýrslan sem stungið var undir stól í aðdraganda kosninga hefur valdið Bjarna þó nokkrum vandræðum, sérstaklega þegar hann neitar að ræða um hana og reiðist allsvakalega þegar hann er inntur skýringa. Til þess að toppa klúðrið vegna skýrslunnar neitar hann að veita viðtal vegna frétta um rúmlega 80 milljarða afskriftir félaga honum tengdum.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra: Skaut sig illilega í fótinn þegar hann ætlaði að taka upp hanskann fyrir Bjarna frænda sinn með því að segja svörtum greiðslum stríð á hendur með því að útrýma seðlum í umferð og neyða fólk til þess að nota rekjanlegri greiðslur eins og færsluhirða, sem þá myndu hagnast enn meira – þá frændur hans væntanlega! Hann taldi ekki ástæðu til þess að segja aflandsfélögum stríð á hendur í þessu samhengi. Jafnframt er hann alsáttur með 45% launahækkun en styður SALEK samkomulagið og biður (lág)launafólk að vera hófsamt í kröfum sínum.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra: Fer einn og að því er virðist án allra heimilda innan stjórnsýslunnar að forgangsraða nýrri samgönguáætlun. Þvert á þá áætlun sem síðasta þing samþykkti. Þrátt fyrir gríðarlegt álag og áralangt fjársvelti samgöngumannvirkja þá telur hann þetta í raun eðlilegt og sjálfsagt að klippa einhverja 10 milljarða niður af áður samþykktri áætlun – og það með sinni eigin forgangsröðun!

Auglýsing

Eftir þessa upptalningu þá eru ekki margir ráðherrar eftir sem nú þegar hafa ekki skitið í skóinn sinn. Ég hef reyndar trú á að þau sem eftir eru séu starfi sínu vaxin og taki þær ábyrgðir sem þeim eru faldar með sóma. Guðlaugur Þór, Þórdís Kolbrún, Kristján Þór og Þorsteinn – ég hef fulla trú á að þau standi sig með sóma sem ráðherrar, að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós.

Ég get ekki gert að því en ég hef ekki góða tilfinningu fyrir þessari ríkisstjórn miðað við vandræðaganginn í risastórum og veigamiklum málum á hveitibrauðsdögum hennar!

En hvað veit maður, rúllar þetta bara ekki sinn vanagang og gullfiskaminnið sýnir sig að vanda, þó eigum við mögulega von með beittum minnihluta sem veitir þessum vandræða meirihluta það aðhald sem hann þarf, sem er mikið að mínu mati!

Over & out og gleðilegan þriðjudag


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283