Í dag eru 35 dagar síðan Amir, samkynhneigður hælisleitandi frá Íran, var handtekinn fyrir utan geðdeild og settur í fangaklefa þar sem hann var látinn dúsa yfir nótt þar til honum var brottvísað til Ítalíu morguninn eftir. Í dag eru 14 dagar síðan Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi og Samtökin ’78 óskuðu fyrst eftir fundi með Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, til þess að ræða mál Amirs og afhenda ráðherra undirskriftarlista þar sem skorað er á að þeirri ákvörðun að brottvísa honum verði snúið við. Einnig viljum við afhenda ráðherra áskorun Solaris þess efnis sem og áskorun Solaris og Samtakanna ´78 um að tillit sé tekið til sérstakrar stöðu hinsegin hælisleitenda og flóttafólks við úrvinnslu umsókna um alþjóðlega vernd. Þrátt fyrir ítrekun fyrir viku síðan hefur hvorki ráðherra né aðstoðarmaður hennar, sem fékk beiðnina einnig senda, orðið við henni. Þær hafa ekki einu sinni haft fyrir því að svara henni.
Ákvörðunin um að neita Amir um um skjól og vernd og meðferðin á honum er á ábyrgð íslenskra yfirvalda. Þau bera ábyrgð á því að hann var rifinn úr höndum unnusta síns, vina og þess samfélags sem hann var farinn að byggja sér framtíð í. Þau létu hann bíða í skugga ótta, óöryggi og óvissu í næstum tvö ár en þrátt fyrir það tókst honum að halda áfram með líf sitt. Þau fangelsuðu hann síðan, tóku harkalega á honum og sendu hann allslausan til landsins þar sem hann hafði áður verið beittur líkamlegu og andlegu ofbeldi og m.a. hópnauðgað í flóttamannabúðum. Þau létu ekki mannúð, mannréttindi eða réttlæti stöðva sig og sendu mann í gríðarlega viðkvæmri stöðu á götuna í Mílanó.
Það er með ólíkindum að ráðherra sem ber ábyrgð á málefnum hælisleitenda og flóttafólks svari ekki beiðni frá frjálsum félagasamtökum sem bæði berjast fyrir mannréttindum, mannúð og réttlæti. Það er óásættanlegt að ráðherra geti ekki einu sinni svarað beiðninni og gefið skýringar til samtaka sem berjast fyrir bættum kjörum minnihlutahópa. Þannig gefur hún til kynna að hún taki ekki undir slík gildi. Það stangast á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveður á um meiri mannúð í málefnum hælisleitenda og hún eins og aðrir í ríkisstjórn Íslands hafa skuldbundið sig til þess að vinna eftir.
Hver einasti dagur er barátta fyrir Amir, en sem betur fer er til fullt af góðu fólki sem hefur séð til þess að hann er ekki einn, ekki peningalaus, ekki án fæðu og ekki á götunni. Í bili. Það þýðir samt ekki að við séum búin að gleyma þeirri meðferð sem hann fékk hjá íslenskum yfirvöldum og við krefjumst þess að hann fái að koma heim. Það þýðir ekki að við munum hætta að berjast fyrir réttlæti fyrir Amir, fyrir hans framtíð, fyrir hans lífi, því það skiptir máli.
Við skorum á ráðherra að sýna samkennd, að sýna að henni er ekki sama, og verða við beiðni okkar um fund þar sem við getum rætt mál Amirs og afhent henni áskorun þess efnis að leyfa Amir að koma heim! Hverju hefur hún að tapa?