Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Um töfrahúsið, bænahúsið og venjulega húsið: „Það er ekki bara Trump sem byggir múra“

$
0
0

Elísabet Kristín Jökulsdóttir skrifar og ljósmyndir eftir Veru Pálsdóttur:

Húsið sem um ræðir hefur verið heimili mitt og sona minna síðan 1989 og reyndar mitt eingöngu síðan þeir fluttu að heiman fyrir rúmum tíu árum. Svo komu tengdadætur á háhælaskóm eða með smásjá í rannsóknarskyni. Þá skipar þetta heimili stóran sess í lífi barnabarnanna átta. Og þetta er líka vinnustaður, hér hef ég skrifað tæpar þrjátíu bækur, (þar af tvær sem gerast í húsinu og eina sem gerist í hverfinu) leikrit, ritgerðir, og gert dans og myndlistarverk. Á þessum árum hef ég reynt að púsla saman sögu hússins sem vekur strax athygli fyrir tröppurnar, þær eru vængjaðar og liggja í tvær áttir.

IMG_3178

En hugum að framkvæmdum á Bykoreit.

Ég er á móti þessum framkvæmdum, fyrst og fremst vegna þess að ég sé enga fegurð í þeim, ekkert notagildi en bara eitt, græðgi. Get þó sagt að göngustígurinn, sambýlið og garðurinn eru í lagi og reyndar gott mál. Og ber vott um manneskjulega hugsun.

Ef eitthvað ætti að byggja á Bykóreitnum – sem er ekki sjálfgefið – því einhverstaðar verður tómið að vera en í tóminu er uppspretta sköpunar samkvæmt flestum sköpunarsögum. En það liggur nærri að þetta sé altari Ufsakletts og ætti þá að byggja út frá honum. Ufsaklettur er miðpunktur á þessu svæði og á sér merka sögu sem gamir menn hafa passað uppá og er vinsæll félagi barna og allra sem kynnast honum.

En þá, í fyrsta lagi ætti að vera þarna lóð fyrir Vesturbæjarskóla, kennarastofur, leikfimihús eða önnur hýbýli fyrir skóla. Nú, eða þá skólalóð. Núna eru börnin í einskonar fangelsi úti á götu, fallega lóðin með frumlegu skúlptúrunum og leikföngunum er horfin með öllu. Það er ekki einu sinni fótboltavöllur þarna, en á þessum velli var upphaf íslenskrar knattspyrnu, margar sögur eru til af vellinum og margir tengdir honum. Það er ekki einu sinni skúlptúr af fótbolta á lóðinni með nafni Þórólfs Beck. Ekkert!!

Þarna steig sonur minn, Íslandsmeistari í fótbolta sín fyrstu skref og þegar ég horfði útá völlinn sá hann fyrir mér með boltann og ekki síður drauminn. Nú sé ég bara endalausa skúra og viðbyggingar. En það var lenska í gamla daga í íslenskum arkitektúr að byggja skúr við skúr við skúr. Sem er allt í lagi en á lóð Vesturbæjarskóla vantar allan húmor í skúrana.

Ef það verður ekki skólalóð eða skólabygging á Bykoreitnum eða Steindórsplaninu ætti að hafa Tilfinningatorg fyrir tjáningu og tilfinningar okkar sem eru á algerum vergangi, jafnvel hægt að hafa tilfinningarannsóknir á staðnum, og / eða markaðstorg, hákarlaskúr, bátasmíði, eitthvað tengt sjónum, netagerð tildæmis, og gosbrunna. Þetta yrði skrítið og skemmtilegt torg. Mannlíf. En það veitir ekki af þessháttar torgi, líka þegar fjörurnar eru horfnar í borginni, og í staðinn eru stórhættulegir grjótgarðar. Synir mínir skriðu inní grjótið og hefði ekki þurft nema smá titring frá jörðinni að þeir væru ekki lengur til frásagnar. Nú er hinsvegar talað um að grjótgarðarnir séu fullir af rottum. Allavega komu hingað tvær nýlega úr næsta klóaki og meindýraeyðir borgarinnar var himinlifandi.

DSC_0060 copy

Ég hef talað við tvo fulltrúa frá borginni á mismunandi sviðum og mér skilst að ef Reykjavíkurborg þyrfti að hætta við af einhverjum ástæðum, mótmælum eða öðru sem uppá kæmi, þá segja þessir fulltrúar að borgin (Aumingja borgin) þurfti að borga skaðabætur uppá milljónir króna.

Þetta er altalað og Borgin verður aðhlátursefni fyrir að tönglast stöðugt á þessu: Við erum þá skaðabótaskyld. Hrein og klár meðvirkni. Ég leyfi mér líka að fullyrða að borgarstjórn hafi villst af leið, þetta er engin vinstri stjórn, heldur nýfrjálshyggja og kapítalismi.

Hvað segir þetta um þessa endalausu skaðabótaskyldu? Jú, Reykjavíkurborg er fórnarlamb. Eins og sá meðvirki. Og til hvers er verið að biðja mig og fleiri um álit, þegar svarið er þetta: Við getum ekki orðið við kröfum ykkar, því þá þurfum við að borga svo mikið.

Afhverju er gengið frá samningum ÁÐUR en deiliskipulag er kynnt fyrir íbúum. Þú mátt segja eitthvað en við ætlum ekki að taka mark á því.

Þetta heitir tvöföld skilaboð og er einn alvarlegasti siðferðisbresturinn hvort sem er í uppeldi barna, eða samskiptum fullorðinna. Tvöföld skilaboð er einkenni númer eitt á alkóhólisma sem er landlægur hér á landi. Tvöföld skilaboð bjóða heim siðleysi!

Hversvegna í ósköpunum var Borgin ekki löngu búin að kaupa þennan reit handa skólanum?
Það blasir við að húsin á milli, þessi fimm eða sex litlu hús sem í gamla daga voru slömm sem náði langt uppá Seljaveg og Framnesveg, að þau verða látin hverfa, til að skólinn fái lóð.
Þetta er offors og ofríki af hálfu borgarinnar.

Ég er ekki örugg.

Og fólk er að flytja burt, það vill ekki búa við það sem koma skal. Það er talað um sprengingar í tvö ár. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ofríki gerir vart við sig, einhverju sinni kom hingað borgarfulltrúi í garðinn hjá Gula húsinu og sagði þegar hún sá örlítinn garðblett: Hér er hægt að byggja hús!! Mér leið einsog Palestínumanni á landnemabyggðum. Þétting byggðar, eru þetta trúarbrögð, má hvergi vera pláss, rof í þéttingunni, – afhverju er ekki frekar lögð áhersla á að hægt sé að koma fólki út úr þessari borg ef hætta steðjaði að!?

Og afhverju er verið að byggja háhýsi við sjóinn, sem stoppa bæði veður og vind. Og búa til rok!
Fyrir utan sólarlagið sem venjulega dansar í eldhúsinu mínu á vorin.

01

Ég fékk ekki link að skipulagstillögum fyrren í síðustu viku en þá hafði fulltrúinn stungið uppá því himinlifandi glaður eða glöð afhverju ég seldi honum Hilmari ekki húsið mitt. Það fauk í mig og ég sagði að þetta sýndi sem ég óttaðist að þau hugsuðu ekki um fólk í þessari borg, heldur steinsteypu enn og aftur, og forréttindastéttina.

Já, Hilmar er vinur borgarinnar, mér skilst hann sé eigandi lóðarinnar, en á mig hefur ekki verið yrt, hef ég þó búið þarna i tæp þrjátíu ár, en þó fannst fulltrúanum upplagt að bregða sér í hlutverk fasteignasala!
Á mig hefur ekki verið yrt en það er þakkarvert að fulltrúinn benti mér á að ég ætti byggingarrétt við húsið mitt, skv. Gamla deiliskipulaginu – og nú verð nú að útvega mér lögfræðing til að athuga þau mál. Lögfræðingurinn er í útlöndum en mun skila áliti þegar hún kemur í næstu viku.

Þegar ég bankaði uppá hjá nágrönnum í götunni komu allir af fjöllum, svo vel hefur kynningin tekist til, það höfðu ekki allir fengið bréf og ég gerði mitt besta tilað hvetja fólk til þess, því allir vildu vera með, allir eru á móti þessum framkvæmdum.

DSC_0068

Húsið mitt var keypt fyrir ljóðabækur tilað strákarnir mínir eignuðust sitt hverfi, og sinn Vesturbæjarskóla, þar voru þeir þangað til þeir fóru í Hagaskóla. Þarna hef ég alið upp drengina mína sem báru medalíur og bikara heim frá Knattspyrnufélaginu í hverfinu, eða bara komið inn til að fá vatn eða plástur á skrámur. Og hver dagur snerist um að gefa þeim snúðana, súkkulaðisnúðana. Það hefur aldrei verið drukkið í húsinu, einhverju sinni spurði ég afhverju þeir byðu ekki félögunum í partý en þeir sögðu að það væri algjör skylda að hafa áfengi í partýum.

Ég sé þá koma gangandi heim stíginn að húsinu, húrra sér niður stigann, fúlsa við bjúgunum og kartölfunum, heimta pizzu, horfa á Friends sem var meiriháttar frelsun, raða skónum, raða skónum ekki, þvo ekki upp eftir matinn, setja ekki í þvottavélina, takast stöðugt á enda eru þeir afskaplega vel félagslega aðlaðaðir einsog tvíburar eru gjarnan.

Já allt þetta sem daglegt líf krefst, –
Hið daglega eru verðmæti, hin einu sönnu verðmæti,
Verðlaunapallar og háhýsakranar eru það ekki,
Hljóðið í hnifapörunum, rennslið í krananum…. það eru verðmæti.

Þegar tvíburarnir fóru að heiman lagðist ég í rúmið til að íhuga þessi ár, og ég bjóst við einhverjum stórkostlegum minningum, þær voru enn stórkostlegri en mig grunaði því eina sem ég heyrði var að útidyrahurðin (en húnninn er einsog á gömlu kirkjunni í Trékyllisvík) opnaðist og lokaðist á víxl með orðinu mamma. Þá skildi ég að þetta var kjarni málsins.
Hurðin og mamma. Hurð sem sagði mamma. Mamma aftur og aftur.

Í húsinu hef ég semsagt skrifað þessar bækur, jafnmörg leikrit, dansverk, gert Reynitréð að vini mínum í garðinum en sérstaklega hefur hafið verið hluti af húsinu, enda ástæða númer tvö að ég keypti það. Útsýnið er altaristafla hússins.

Þarna hef ég orðið edrú, farið á geðlyf, tekið á móti barnabörnunum átta, og það eru jafnvel draugar í húsinu, amk. tveir.

Þarna fæddust fimmtíu kettlingar, læðan liggur grafin í garðinum.
Allir nefna góðan anda og gott vatn í krananum.
Og það hefur aldrei neitt bilað í húsinu þessi þrjátíu ár.
En nú gæti allt farið til andskotans, sprungur og klóök farið.

Kannski er það bara í lagi því hverfið er ekki í lagi, sennilega óíbúðarhæft. Húsið við hliðina á er svart á sóti, ég hef ekki opnað glugga í tíu fimmtán ár, og úti á sjónum, rétt við grjótfarganið er örugglega opið klóak, því þar safnast mávarnir fyrir einsog þar væri stórkostleg veisla, nema það sé öskuhaugar Péturs Hoffmanns að kristallast.

Capture d’écran 2017-03-07 à 00.07.24

Eina leiðin til að hægt sé að búa hér er að það er opið móti hafi, víðáttan, hafið, litirnir, skýin, sólin, birtan, á hverjum morgni byrja ég á því að gá til hafs og fylgjast með skipaferðum. Og hér bjó einu sinni sjómannsekkja með fimm börn, hún hlýtur að hafa gáð til hafs.

Nú á að múra fyrir þetta allt, reyndar kominn múr héðan og útá Eiðisgranda, það er ekki bara Trump sem byggir múra.

En vindurinn hefur feykt menguninni á brott, eitt kvöldið fylltist svefnherbergið mitt af bensínlykt frá strákunum sem spóla á kvöldin. Ef ekki væri opið mot hafi væri mengunin verri, húsið hér við hliðina er kolsvart að þeirri hlið sem snýr að Hringbrautinni og líka sem snýr að mínum garði.

En þrátt fyrir mengun, og hávaða, – nota bene – Borgin hefur ekki einu sinni sett grindur við ljósin hér á Hringbrautinni, pollarnir ganga yfir lítil börn sem eru að bíða eftir græna karlinum, skvettur frá bílum sem geta ekki hægt á sér á ljósum. Sjá ekki þessu litlu börn, jepparnir eru svo háir. Og umferðin eykst. En þrátt fyrir þetta hefur þetta litla hús verið skjól í lífinu og innblásinn vinnustaður. Friðarhús.
Aldrei neitt bjátað á í húsinu, allar lagnir í tæp þrjátíu ár í lagi. Aldrei fokið þakplata þrátt fyrir ofsaveður mót opnu hafi.

Aldrei verið hrædd fyrr en Reykjavíkurborg boðar þessar breytingar, þá hef ég ekki þorað að sofa í rúminu mínu, heldur í sófanum og samt með símann á 112. Það var einsog ég missti fótanna, einsog ég missti mátt í fótunum, þetta er heimili mitt, öryggi mitt, og ég bað til guðs að jarðtengja mig og gefa mér mátt í fæturnar.

Ég er ekki segja að Reykjavíkurborg eigi að veita mér öryggi en hún á að nálgast húsið mitt og heimili mitt af virðingu. Þetta hefur allt gerst snöggt, ég sótti um frest og hef ekki einu sinni fengið svar við því!!
Öll þessi ár sem ég hef búið hér hef ég reynt að gæta að börnum og umhverfi mínu, húsið er kallað Töfrahús en líka Bænahús, enda var ég heppin þegar við eignuðumst það, höfðum verið á vergangi vegna alkóholisma og hans fylgikvilla í mörg ár.

Mér hefur stundum dottið í hug að flytja og að húsið yrði þá svona „Creative writing“fyrir skólakrakkana…. hér bjó kona sem skrifaði sögur og hún gaf strákunum sínum popkorn í matinn og þeir urðu afreksmenn í íþróttum.

Eg er auðvitað upptekin af sögunni, sagan er tenging, skemmtun, sjálfsmynd, atburðarás, rannsókn, uppruni.

Stundum var ekkert til að borða nema pönnukökur eða popp.
Þá snerist allt um að selja eina bók.

IMG_3064

Að lokum, ég get lofað ykkur því að hvert einasta augnablik í húsinu eru mótrök fyrir þessum ofurbyggingum borgarinnar, og ekki bara augnablikin í okkar sögu, heldur allra sem hafa búið í húsinu síðan að hann Páll byggði þetta 1926, já hér í húsinu dó lítil stúlka, það dó róni í risinu en þá var húsið mosavaxið að utan, ung kona keypti hér fyrstu íbúðina sína, sjómaður bjó hér milli kvenna, og sjálfur Halldór Laxness kom hér og sat við eldhúsborðið hjá sjómannsekkjunni sem sauð kaffi á olíueldavél og reykurinn liðaðist uppúr strompinum.
Og sagan er svo undarleg að tveir glókollar koma hlaupandi heim stíginn og vona að mamma þeirra sé ekki mjög geðveik núna.
Ég meina hvort hún sé að smíða skip í eldhúsinu.

*
Það er ekki auðvelt að festa hendur á verðmætum dagslegs lífs, það er auðveldara að mæla fermetra og telja peninga, þetta er þó ekki flókið eftir að hafa búið á Framnesvegi 56a en þá felast verðmæti dagleg lífs í að ganga niður stigann, að ganga upp stigann, drekka úr glasinu, leggja glasið frá sér, sofna í rúminu, rumska, snúa sér á hina hliðina og hugsa ofurlítið um lífið áðuren augun lokast.

Með bestu kveðju og von um sjávarseltu og sólarlag, frið í húsinu….
Elísabet Kristín Jökusdóttir
Framnesveg 56a
101 Reykjavík
s. 849 2443


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283