Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ó­sátt við hvatningu um að greiða ekki hunda­leyfis­gjald

$
0
0

„Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur harmar að Félag ábyrgra hundaeigenda hvetji fólk til að brjóta ákvæði hundasamþykktarinnar með því að greiða ekki hundaleyfisgjaldið,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna skrifa Freyju Kristinsdóttur, stjórnarformanns Félags ábyrgra hundaeigenda, fyrr í vikunni þar sem Freyja fjallar um kostnað við hundaeftirlit Reykjavíkur. „Ég er hundaeigandi, dýralæknir og hundaþjálfari, og fyrir nokkrum árum var ég ein af þeim sem borgaði hundaleyfisgjöldin samviskusamlega og hvatti aðra hundaeigendur til að gera slíkt hið sama,“ skrifaði Freyja í pistli á vef félagsins fyrr í vikunni.

Auglýsing

Reykjavíkurborg virðist líta svo á að þessi skrif séu til þess gerð að hvetja hundaeigendur til að greiða ekki gjöld sín. Það segir Freyja af og frá í svarpistli á vef Ábyrgra hundaeigenda. „Þetta er einfaldlega ekki rétt. FÁH hefur aldrei hvatt fólk til að greiða ekki hundaleyfisgjaldið. Þvert á móti hefur FÁH í gegnum tíðina hvatt fólk til að skrá hunda sína og greiða hundaleyfisgjald, og sett inn leiðbeiningar þess efnis á heimasíðu sinni,“ segir í svarpistli Freyju.

Reykjavíkurborg segir framsetningu á vef félagsins líklega til að valda sundrung um málefni sem hundaeftirlitið í Reykjavík ásamt öðrum vinnur að til að skapa til betri hundamenningu í borginni. Starf þess birtist t.d. í fækkun alvarlegra kvartana vegna brota á hundasamþykkt á síðustu árum. „Af þessu tilefni er nauðsynlegt að taka það skýrt fram að samþykkt Reykjavíkurborgar um hundahald er ekki sett fyrir hundeigendur sérstaklega heldur alla borgarbúa hvort sem þeir eru hundeigendur eða ekki. Hundsamþykktin á sér stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem meginmarkmið laganna er að tryggja landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.  Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar,“ segir í tilkynningu Reykjavíkur.

Auglýsing

Í svari stjórnarformanns Félags ábyrgra hundaeigenda er á móti spurt hvort meginmarkmið hundasamþykktarinnar sé þá að „vernda borgarbúa gagnvart þessum óheilnæmu og skítugu hundum sem skerða lífsskilyrði fólks. Hundaeigendur eiga sem sagt að greiða fyrir þá heimtufrekju að vilja halda hund í borginni, öllum öðrum til ama. Einskonar fyrirfram skaðabótagreiðsla.“ Freyja segir þessa framsetningu fordóma gagnvart hundaeigendum. „Þetta er auðvitað ekkert annað en fordómar í garð hundaeigenda og brýtur í bága við jafnræðisregluna. Þetta eru greinilega leyfar frá þeim tíma þegar hundahald í borginni var bannað og fyrirlitið. Samkvæmt svörum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur má þetta gjald sem sagt ekki fara í nokkra þjónustu við hundaeigendur, ekki í bætta aðstöðu til lausagöngu eða neitt þess háttar.“

„Í skrifum á vef FÁH er eingöngu fjallað um að starfsfólk í hundaeftirliti framfylgi þeim þáttum hundasamþykktar er lýtur að lausagöngu og gert ráð fyrir að starfsfólk eftirlitsins geri lítið annað. Þetta er alrangt. Önnur verkefni hundaeftirlits eru m.a. það að sinna innkomnum erindum sem eru af ýmsum toga og málum sem sum enda sem kvartanir með tilheyrandi úrvinnslu og rannsóknum. Fjöldi símtala varðandi hundamál í gegnum þjónustuver voru 1689 árið 2014, 1694 árið 2015 og 1685 árið 2016, þá eru ekki talin með bein símtöl í farsíma hundaeftirlitsmanna. Skráðar kvartanir sem þurftu rannsókna og eftirlits með, voru 273 árið 2014, 262 árið 2015 og 200 árið 2016. Lausaganga hunda sem kom til kasta eftirlitsins voru 104 árið 2014, 105 árið 2015 og 62 árið 2016. Málin eru mis alvarleg og umfangsmikil og sum eru þess eðlis að það getur tekið mörg ár að leysa úr þeim,“ segir í svari borgarinnar. „Ýjað er að því, á vef FÁH, að gjöld sem innheimt eru af hundeigendum í Reykjavík fari í eitthvað annað en rekstur hundaeftirlitsins og að óeðlilegt sé að meirihluti tekna fari í laun. Það er einnig alrangt. Allir sem vilja skoða rekstrarbókhald hundaeftirlitsins og hafa þekkingu á rekstri miðað við þau verkefni sem eftirlitinu er falið og m.t.t. fjölda erinda og mála, sjá að starfsmenn eru síst of margir. Rekstur hundaeftirlits er alveg óháður öðrum rekstri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þó öðru sé haldið fram af FÁH . Hundaeftirlitið er með eigin fjárhag og gjaldskrá.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283