Það er ekki hægt að tala um söguþráð eða atburðarás í eiginlegum skilningi í verki Guðmundar Steinssonar, Húsinu. Þar gerist vissulega ýmislegt og flest má tengja við þann raunveruleika sem við búum við; en það er hins vegar hvergi að finna plott eða byggingu verks í ætt við hina klassísku skilgreiningu Aristótelesar á leikverki, þar sem saga er sögð útfrá röklegu samhengi upphafs, miðju og endis. Hús Guðmundar Steinssonar hefst í ákveðnum aðstæðum, vissulega, og að endinum leiðir röð atburða, en það er áhorfandinn sem þarf að leiða þessa atburðarás til lykta og taka afstöðu til hennar útfrá eigin viðhorfum og gildum og síðan ákveða hvernig bregðast beri við. Þetta er hluti af snilld Guðmundar Steinssonar sem leikskáld – að brjóta upp hefðbunda byggingu dramans og færa áhorfendum hina ýmsu hluta myndarinnar að því er virðist í næsta tilviljanakenndri röð og láta þá um að raða þeim saman í eina heild. Þetta kallar á einfaldleika sem má segja að sé aðals- og einkennismerki Guðmundar sem leikskálds.
Málið er þó ekki alveg svo einfalt. Guðmundur Steinsson skrifar öðrum leikskáldum fremur það sem kalla má partítúr að leiksýningu; að því koma síðan listamenn leikhússins – leikstjóri, hönnuðir, leikarar – og breyta partítúrinu í leikrænt þrívíddarlistaverk þar sem hver hreyfing skiptir máli af því hún má ekki vera gerð af handahófi. Guðmundur er nefnilega svo sparsamur þegar kemur að því að setja niður orð persóna sögunnar, að listamenn leikhússins neyðast til að grúska í þeim, taka afstöðu til þeirra og setja þau í samhengi. Ekkert er gefins í þeirri vinnu. Eðli málsins samkvæmt má finna margs konar samhengi hlutanna og þar skilur á milli feigs og ófeigs – velji menn afstöðu sem verður til þess að áhorfendur ekki eingöngu skilja leiksýninguna og boðskap hennar heldur einnig sitt eigið samfélag, sjálfa sig og sinn samtíma og sjá í nýju ljósi, ja, þá er björninn unninn.
Atburðarás Hússins er fremur einföld í sniðum – að því er virðist: hún getur gerst á ýmsum stöðum, en verkið er samið um 1970, þegar Reykjavík er að vaxa og fólk nýtir óðaverðbólguna til að byggja sér hús, glæsivillur spruttu upp hér og þar og miðað við hús Páls og Ingu – mektarhjónanna í leiknum – gæti húsið þeirra vel verið í einhverju af ríkari hverfum borgarinnar, það er stórt, auðvelt að villast í því og það ber vott um velmegun og ríkidæmi.
Leikritið er í fjórum atriðum, sem sýningin fylgir og í hinu fyrsta búa þau hjónin með þremur sonum á sínu gamla heimili, það er þröngt og fremur óvistlegt og auk þess býr móðir Páls hjá þeim. Það er ekki meiningin að hún flytji með þeim í nýja, stóra húsið, henni er ætlað að fara á elliheimili. Elsti sonurinn er á unglingsaldri og virðist uppreisnargjarn; hann virðist ekki ginnkeyptur fyrir tali foreldra sinna um nauðsyn þess að koma sér áfram, verða eitthvað og halda í heiðri klassísk gildi kristilegs kærleiks og hlýðni við þá sem eldri eru. Þessi samskipti kynslóðanna skipta grundvallarmáli í Húsinu.
Í síðari atriðunum þremur eru þau flutt í glæsihöllina, móðirin komin á elliheimili og nú fara að gerast einkennilegir atburðir. Fyrsta atriðið á sér stað á aðfangadagskvöld og þegar kyrrð er komin á birtist framandi gestur sem veldur usla í tilveru þeirra hjóna, hann neitar að segja til sín en dregur tilvist þeirra í efa og skapar óöryggi. Í næsta atriði halda þau hjónin veislu fyrir vini sýna til að sýna þeim nýja húsið; í partíinu verðum við vitni að upplausn hinna klassísku gilda, sem áður þóttu svo mikilvæg, léttúð og lausung ræður ríkjum, borgaraleg úrkynjun og hrun siðgæðis.
Þegar partíinu lýkur er aftur sett upp gríma hins slétta og fellda yfirborðs og hver fer til síns heima. Skyndilega birtist aftur ókunnur maður og tekur út húsið, mælir það og virðist finna það fremur léttvægt. Í lok þess atriðis birtist móðir Páls og reynist það vera kveðjustund, hún er dáin.
Í lokaatriðinu sýnist komin á kyrrð, eldur logar í arninum og Páll reifar hugmynd um að stofna sjóð til minningar um móður sína; kyrrðin er hastarlega rofin, húsið fyllist af fólki hvaðanæva að og verður ekki betur séð en unglingssonurinn standi á bak við innrásina. Þessi innrás veldur fullkominni upplausn hjá hinum óviðbúnu sæmdarhjónum; þegar þeim tekst loks að reka innrásarfólkið út, leysist húsið upp og þá er stóra spurningin: Hvað verður um þau Pál og Ingu, hvað verður um tvo yngri syni þeirra, já, hvað verður um mannkyn allt og hvað verður um okkur sem sitjum í salnum og horfum á ósköpin og finnum allt í einu, nánast á eigin skinni, að okkur kemur þetta við – þetta er okkar veruleiki!
Þessi innrás í húsið í lokaatriðinu fylgir frumtexta Guðmundar Steinssonar, en er engu að síður glæsileg breyting á upphaflegu verki hans; á þeim tíma sem hann skrifar verkið er unga kynslóðin, hipparnir, að ryðja sér til rúms í stöðnuðu karlasamfélagi. Sú innrás leiddi til vissulega til nokkurra samfélagsbreytinga til batnaðar en spurning hvort hún hafi valdið þeim grundvallarbreytingum á samfélagslegum viðhorfum og gildum sem að var stefnt – a.m.k. sýnist þeim sem hér skrifar að fyrri hluti verksins, óbreyttur eins og hann er, standi fyllilega undir sínu, meðan hin rökrétta breyting á endinum vísar beint í samfélag okkar tíma. Sú hefði tæplega orðið niðurstaðan ef uppreisn 68-kynslóðarinnar hefði breytt einhverju í grundvallaratriðum. Sýning Þjóðleikhússins á Húsinu nú er að vísu óbeint, en þó ótvírætt komment þess efnis, að sú uppreisn varð að byltingunni sem étur börnin sín.
Benedikt Erlingssyni leikstjóra og teymi hans tekst ákaflega vel til í öllum atriðum, smáum sem stórum, að skapa áhrifaríka sýningu sem hefur hnitmiðaðar og skýrar skírskotanir til okkar tíma og veruleika; á köflum er eins og verkið sé algerlega nýtt af nálinni og er þó litlu breytt nema sem fyrr segir endinum, eða svo virðist að minnsta kosti eftir snögga athugun í heildarútgáfu Jóns Viðars Jónssonar og Ormstungu á verkum Guðmundar.
Í sýningunni er síst verið að draga úr því að verkið á sér nokkurn aldur, enda ber textinn það að sumu leyti með sér. Það er leyst með nokkuð upphöfnum leikstíl, skýrum og á köflum hægum framburði sem virkar ákaflega vel til að gefa upplifun af ákveðnu tímaleysi og brúa þannig bilið milli þess sem hefði annars getað virkað gamaldags en verður ekki fyrir vikið og þess sem breytt er til nútíma þegar kemur að endalokum og upplausn. Þetta er áhrifamikið stílbragð og er ýtt undir það í leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar, búningum Filippíu I. Elísdóttur, lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar og gervum þeirra Guðrúnar Erlu Sigurbjarnadóttur og Ingibjargar G. Huldarsdóttur, sem allt er snilldarlega unnið, hæfilega retró og ákaflega stílhreint. Maður hreinlega sogast inn í atburðarásina og er áður en langt um líður algerlega á valdi sýningarinnar.
Leikmyndin er dýnamísk, hreyfanleg og styður í öllu við lögn leikstjóra og verður til að lyfta leik leikaranna á viðeigandi hátt og gefa stíl sýningarinnar fallegan heildarbrag. Þá er hljóðmynd og tónlist þeirra Davíðs Þórs Jónssonar og Kristjáns Sigmundar Einarssonar ekki síður til þess fallin að skapa það andrúmsloft sem hæfir rás atburða, allt frá heimilislegum sjónvarpskvöldum gamaldags gilda til upplausnar, óreiðu, óöryggis og óhugnaðar. Í hverju atriði var sleginn nýr tónn í mynd, hreyfingum og hljóði, sem undirstrikaði enn frekar hversu dýnamískur texti Guðmundar er þrátt fyrir hið einfalda yfirbragð og einnig hversu næmlega leikstjóri og teymi hans nálgast verkið – og okkur áhorfendur!
Þau Guðjón Davíð Karlsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir leika hin velstæðu hjón Pál og Ingu og gera það betur en vel. Þau leika bæði af fallegu öryggi, samleikur þeirra er undranæmur, og nægir að nefna hvernig þau byggja upp spennuna í þriðja atriði, þar sem stefnan er markvisst sett á það sem verður hinn harmræni endir; upplausn hússins er líka upplausn hjónabands þeirra, sem þau hafa barist við að halda saman frá upphafi – ekki af ást heldur afþví að þannig á það að vera! – en svo bregðast krosstré sem önnur og þau eru óhjákvæmilega fangar þeirra örlaga sem þau hafa sjálf búið sér.
Arnmundur Ernst Backman leikur elsta son þeirra Páls og Ingu, Bjarna, og vex með hverju hlutverki sem hann tekst á við; hann tekur á hlutverkinu af næmni og skilningi og tekst að brúa bil bernsku yfir í uppreisn og þaðan í byltingu markvisst og örugglega. Kristbjörg Kjeld leikur móður Páls og það er í hennar persónu sem birtist tilfærsla gilda frá gömlum tíma til nýs; Kristbjörg gerir það svo undurfallega, að við sjáum ekki þessa umbreytingu heldur skynjum hana og vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið fyrr en hún deyr og við finnum sama harm og Páll þegar hann skilur of seint að ekki verður aftur snúið.
Þröstur Leó Gunnarsson leikur tvö hlutverk, hliðstæð – hann er gesturinn sem birtist fyrstur sem fulltrúi hins ókunna, óvænt, ísmeygilega og ógnandi og síðar manninn sem tekur út heimilið. Gesturinn hans vekur tilfinningu óöryggis og ótta; það gerði hann svo meistaralega, að kona á sama bekk og sá sem hér skrifar lifði sig svo inn í atburðarásina að hún svaraði gestinum: “Heyrið þið sönginn?” spyr gesturinn þau Pál og Ingu, og konan á sama bekk og undirritaður svarar stundarhátt: “Nei!” og tók þátt í leiknum rétt eins og hún væri í liði með þeim Páli og Ingu. Það furðulega var, að þetta var ekki óviðeigandi innrás í leiksýninguna, heldur varð þetta fremur eins og til að sýna okkur að leiksýningin var að minna á að hún fjallar um okkur öll, við erum öll þátttakendur í því sem gerist á sviðinu þótt við njótum þess öryggis að vera áhorfendur í vernduðu umhverfi. En stundum leysist það líka upp, þetta verndaða umhverfi, rétt eins og hús þeirra Páls og Ingu – og kannski hús okkar allra, áður en yfir lýkur. Í hlutverki Mannsins sýndi Þröstur Leó á sér kómíska hlið sem varð einnig til að glæða sýninguna krafti sem fleytti henni skemmtilega áfram.
Húsið er mannmörg sýning og hér látið nægja að segja að sjaldan hefur einn leikhópur verið samstilltari og skilað jafn vandaðri vinnu og raunin er. En það má þó ekki ljúka þessum leikdómi án þess að nefna þann stóra hóp innrásarfólks, sem óboðið ryðst inn í hús þeirra Páls og Ingu: eins og hann var óvænt sjón á sviði Þjóðleikhússins þá er það einlæg von þess sem hér leikur á lyklaborði að þessi fjölbreytti, fallegi og fjörlegi hópur sé kominn til að vera – ekki aðeins á sviði Þjóðleikhússins heldur einnig í okkar íslenska húsi!
Húsinu óska ég langlífis – það leikur um það frísklegur vindur í loftslagi íslensks leikhúss!
Þjóðleikhúsið: Húsið
Höfundur: Guðmundur Steinsson
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Dramatúrg: Símon Birgisson
Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlistarumsjón: Davíð Þór Jónsson
Hljóðmynd: Davíð Þór Jónsson og Kristján Sigmundur Einarsson
Leikgervi: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir og Ingibjörg G. Huldarsdóttir
Leikendur: Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Arnmundur Ernst Backman, Þröstur Leó Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Aldís Amah Hamilton, Baldur Trausti Hreinsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Emil Adrian Devaney/Kolbeinn Daði Stefánsson, Emil Björn Kárason/Þorsteinn Stefánsson, Jón Stefán Sigurðsson, Juan Camilo Roman Estrada, Muhammad Alzurqan, Luis Lucas, Juan Carlos Peregrina Guarneros, Sheba Wanjiku, Marwa Abuzaid, Charlie Jose Falagan Gibbon, Olivia Andrea Barrios Schrader, Maya Moubarak, Javier Fernandez Valiño, Monika Kiburyte, Jozef Pali, Maria Beatriz Garcia, Cheick Ahmed Tidiane Bangoura.