Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir á blaðamannafundi með rússneskum blaðamönnum í síðasta mánuði að Pétursborg væri höfuðborg Evrópu í norðri og að engin önnur borg álfunnar gæti gert tilkall til þess titils. Þetta kemur fram í grein Olgu Kalashnikovu í dagblaðinu St. Petersburg Times sem birt var 9. april, 2014.
Vitnað er í Ólaf þar sem hann lýsir mikilvægu sambandi Íslendinga og Rússa sem nái allt aftur á miðaldir og samkomulagi þjóðanna sem gert var á kaldastríðstímanum þegar Bretar hættu að kaupa af okkur fisk, en þá hafi Rússar samþykkt að kaupa fisk af Íslendingum og að sá samningur hafi verið grunnurinn að hagsæld þjóðarinnar.
„Sovétríkin seldu okkur olíu og timbur sem við notuðum til að nútímavæða Ísland. Í sögulegu samhengi skiptu þessi samskipti þjóðanna sköpum. Við seldum fisk til Rússlands og fluttum inn sovéska bíla. Margar íslenskar fjölskyldur óku um á sovéskum bílum á þessum tíma. Sem dæmi má taka að ég ók Volgu og konan mín ók á rússneskum bíl. Þið munuð fyrirhitta margar íslenskar fjölskyldur um allt land sem á einhverjum tímapunkti áttu rússneskan bíl.“
Olga segir frá því í grein sinni að mikilvægi norðurskautsins á síðasta áratug hafi stuðlað að auknu samstarfi og viðræðum á milli Rússlands og Íslands. Olga segir að fyrir 10 árum hafi Pútín ekki þótt ástæða til að ræða við Ólaf augliti til auglitis og að Ólafur Ragnar hafi af þeim sökum neyðst til að ræða við lægra setta embættismenn um málefni norðurslóða.
„Á síðasta áratug hef ég orðið var við viðhorfsbreytingu hjá forseta Rússlands. Og þó ég eigi enn samræður við embættismenn í Rússlandi höfum við hafið viðræður við forseta Rússlands, ásamt forsætisráðherra og utanríkisráðherra.“
Viðræður milli þjóðanna standa yfir um hafsvæðið við Íslandsstrendur, samkvæmt grein Olgu, um samninga um björgunarstörf á hafi, um að þjóðirnar meti sameiginlega þá áhættu sem fylgir því að borað sé eftir olíu í Norður-Íshafinu og um lögn sæstrengja, hvernig tryggja megi öryggi skipa sem sigla um norðurslóðir sem og flugleiða á norðurslóðum svo eitthvað sé nefnt. Vitnað er í Ólaf:
Rússland hefur alltaf verið mikilvægt markaðssvæði fyrir Íslendinga. Við höfum enn áhuga á að flytja fiskiafurðir til Rússlands. Það er líka aukinn áhugi í Rússlandi á íslensku kjöti og afurðum gróðurhúsa.
Olga vitnar í Andrei Tsyganov fyrrum sendiherra Rússa sem segir að enn sé samkomulag ekki í höfn og enn sé þráttað um ákveðin atriði en verið sé að leita leiða með friðsamlegum viðræðum í stað hernaðar. Meðal þess sem rætt sé nú séu leyfisveitingar til rússneskra skipa um að vinna fisk um borð skipanna í íslenskri lögsögu. Væri leyfi veitt til þess myndi það laða að fleiri rússnesk fyrirtæki.
Tsyganov talar um að mikilvægt sé að hafa í huga að Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu en orsökin sé fyrst og fremst höft sem Evrópusambandið myndi setja á veiðar Íslendinga og séu Íslendingum ekki að skapi.
Haft er eftir Ólafi:
„Í efnahagshruninu árið 2008, var það útbreidd skoðun að hefði Ísland verið aðili að Evrópusambandinu, þá hefði hrunið ekki verið jafn harkalegt og raun ber vitni. Í nokkur ár virtist þetta vera rétt en nú sjáum við hvernig efnahagshrunið lék þjóðir eins Spán, Grikkland, Írland, Eystrasaltsríkin og Frakkland. Nú hafa Íslendingar rétt úr kútnum og Evrópusambandsaðild er ekki Íslendingum í hag. Meirihluti Íslendinga er andvígur Evrópusambandsaðild.
Miðað við hvernig Ísland stendur fjárhagslega og vegna stöðu landsins í Norður- Atlantshafi er betra fyrir okkur að semja sjálf beint við aðrar þjóðir.“
Í greininni er jafnframt skrifað að Ísland sé stolt af því að hafa engan her þrátt fyrir nálægðina við Evrópu sem sé hervæddasta svæði heimsins. Ólafur segir að Ísland sé að þessu leyti gott fordæmi stríðandi þjóðum í heiminum.
„Um leið og þú ferð að álíta að allir séu óvinir þínir þar til annað kemur í ljós beinirðu ekki aðeins samfélaginu heldur einnig hinum siðmenntaða heimi á hættulegar brautir. Rök fyrir hernaði eru pólitískt hættuástand og hryðjuverkastarfsemi. Auðvitað eiga þau rök rétt á sér en flest sem við gerum er hættulegt. Árlega deyja 20–40 manns í umferðarslysum á Íslandi en enginn fer fram á að við hættum af þeim sökum að aka bílum.“
Greinin endar á íslenska hestinum og tilvitnun í Ólaf og samskipti hans við Pútín sem greinilega eru nú á vingjarnlegum nótum og fjölluðu um hæfni íslenska hestsins að feta grýttar og ótroðnar slóðir:
„Ég sagði einu sinni við Pútín að það að sitja íslenskan hest væri ærin ástæða til að hann heimsækti Ísland.“
Greinina má lesa í heild sinni hér.
Myndskreyting Kristján Frímann Kristjánsson