Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Elín Laxdal – Una Margrét skrifar 3. pistil um kventónskáld

$
0
0

Haustið 2013 gerði Una Margrét Jónsdóttir 6 útvarpsþætti sem fluttir voru á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu undir heitinu „Tónlist í straujárni“. Þeir fjölluðu um fyrstu íslensku kventónskáldin. Í Kvennablaðinu verða birtar greinar um nokkur af þessum tónskáldum, allt konur fæddar fyrir aldamótin 1900, en greinarnar eru byggðar á útvarpsþáttunum.

Tónskáldin sem fjallað var um í 1. pistli Unu Margrétar eru Kirstín Guðjohnsen og Valgerður L. Briem.

Í 2. pistli skrifaði Una um Elísabetu Jónsdóttur á Grenjaðarstað.

Nú er röðin komin að dóttur Matthíasar Jochumssonar, Elínu Matthíasdóttur.

Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, þriðja kona hans, ásamt vinnukonu og sjö börnum af ellefu sem þau áttu.

Matthías og Guðrún Runólfsdóttir,
þriðja kona hans, ásamt vinnukonu
og sjö börnum af ellefu sem þau áttu.

 

Elín Matthíasdóttir var dóttir Matthíasar Jochumssonar skálds og Guðrúnar Runólfsdóttur konu hans, fædd 1883 og fimmta í röðinni af 9 börnum sem upp komust. „Þau syngja öll og eru músíkölsk,“ skrifar Matthías í bréfi árið 1887. Tvær dætur höfðu þó mesta tónlistarhæfileika, önnur var Elín, en hin Herdís, fædd 1886. Elín hafði líka ágæta leiklistarhæfileika. Um aldamótin 1900-1901 lék hún stórt hlutverk í leikriti föður síns, „Aldamótin“. Í blaðaumfjöllun segir:

Frk. Elín Matthíasdóttir leikur nýju öldina og gerir það prýðilega; hún sýnir glöggvar skapbreytingar í svip og málrómi, svo slíkt er sjaldgæft að sjá á leiksviði.

Elín og Herdís menntuðust báðar í tónlist, Elín fór til Kaupmannahafnar árið 1903 og stundaði nám við Konunglega tónlistarskólann þar með styrk frá konungi. Tveimur árum seinna mátti lesa í Þjóðólfi eftirfarandi dóm um frammistöðu Elínar á söngskemmtun í Reykjavík:

Meðal annars var gerður mjög mikill rómur að söng frk. Elínar Matthíasdóttur, enda á hann það fyllilega skilið, fer þar saman mjög lagleg rödd og snilldarleg meðferð á efninu.

Í ágúst 1906 skrifaði sr. Matthías í bréfi:

Þær Ella gáfu konsert hér í gærkvöld og fyrri með fullu húsi.
Og árið 1907 söng Elín einsöngshlutverk í Kantötu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar í tilefni af Íslandsheimsókn konungs.
1912 giftist Elín Jóni Laxdal kaupmanni og Herdís giftist Vigfúsi Einarssyni 1914. Það var svo á árunum 1917-18 sem Elín og Jón söfnuðu saman barnasöngvum til að gefa út í bók og sömdu sum lögin sjálf. En Elín lifði það ekki að sjá þá bók útgefna. Árið 1918 barst til Íslands hættuleg inflúensa sem kennst var við Spán og kölluð spænska veikin. Fjölmargir dóu úr veikinni og þeirra á meðal voru systurnar listfengu, Elín og Herdís. Matthías lýsti harmi sínum í bréfi til Ásthildar Thorsteinsson árið eftir:

En hvað mig snertir læt ég enga óviðkomandi sjá á mér neina örvinglan eftir missi dætra minna sem báðar (einkum Elín)voru ljós minna augna. Elín unni mér mest allra minna barna. En suður hef ég ekki skap til að fara í sumar. Að öðru leyti máttu vita að ég óttast ekki aumingja dauðann, eins og versið sýnir sem hér er sungið yfir látnum:
Hvað er Hel?
Öllum líkn sem lifa vel,
engill sem til lífsins leiðir,
ljósmóðir sem hvílu breiðir,
sólarbros er birta él -
heitir Hel.

Barnasöngvar Jóns og Elínar komu út 1921 og urðu mjög vinsælir. Söngvarnir voru úr ýmsum áttum, en þrjú lög voru eftir Elínu og þrjú eftir Jón. Lög Jóns og Elínar voru merkt með fangamörkum þeirra: J.L. og E.L. Af lögum Jóns varð vinsælust vögguvísan „Sofa urtubörn á útskerjum“, en lög Elínar „Nú er ég klæddur og kominn á ról“ og „Hvað kanntu að vinna, baggalútur minn“ voru líka mikið sungin. Og árið 1978 söng Megas lagið „Nú er ég klæddur og kominn á ról“ inn á samnefnda hljómplötu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283