Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Einelti á vinnustað – reynslusaga úr Reykjanesbæ

$
0
0

Kvennablaðið bað mig að skrifa grein um reynslu mína af ofbeldi í formi eineltis í Reykjanesbæ en þar starfaði ég og bjó í 4 ár 2005-2009.

Það byrjaði vel

Ég var píanókennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og meðleikari aðallega með strengjum auk þess að sinna tónmenntakennslu í Akurskóla. Þar að auki stofnaði ég og setti á fót Gospelkór Suðurnesja sem ég stýrði í 3 ár þangað til aðrir tóku við kórnum. Ég hafði búið í Þýskalandi í 3 ár þar sem ég var í hringiðu gospel-kóra hefðarinnar sem tröllreið þýskum kirkjum og stýrði kórnum Spirit of Joy og kvenna-sönghópnum Femmes Fatales í Regensburg og var þekkt í bænum fyrir störf mín. Ég kom því til starfa í Reykjanesbæ uppfull af reynslu og hugmyndum frá Þýskalandi og full af eldmóði.

Ég stofnaði barnakóra í tveimur grunnskólum og fyrsta árið sem ég starfrækti Gospelkórinn söng hann við nánast alla viðburði sem haldnir voru í bænum. 1. maí, í kirkjum, veislum o.s.frv.

Breytt viðmót

Annað árið sem kórinn var starfræktur virtust flestar dyr lokaðar því kórarnir sem fyrir voru á svæðinu stóðu vörð um ýmis verkefni og ég byrjaði að finna fyrir vissum ótta eða fálæti í minn garð. Ég sagði eins og var að tilgangur minn með því að stofna gospelkór sem legði áherslu á létt efni og barnakóra, væri aðeins sá að auðga tónlistarlífið á svæðinu og það hefði aldrei verið tilgangur minn að taka nokkuð frá öðrum kórum. Það kom mér á óvart hve vinsæll hann var.

Þriðja árið byrjaði ég að finna fyrir miklum leiðindum í minn garð t.d. frá deildarstjóra mínum í forskóladeild. Ég vann náið með henni þar sem hún var líka undirleikari kvennakórsins, og sat fundi með henni og öðrum forskólakennara sem var stjórnandi kvennakórsins. Það vakti líka athygli mína að þetta árið var tekið fyrir mikið af léttu efni í verkefnavali kóranna á svæðinu, Karlakórinn sem hingað til hafði verið frekar hallur á klassískt repertoir hélt stórtónleika með Bitlalögum og kvennakórinn hélt tónleika með léttsveit og flutti jazz og dægurlaga prógramm. Það var greinilegt að tilurð Gospelkórsins hafði komið af stað léttri sveiflu í sönglífi Suðurnesja.

 

Auglýsing

 

Niðurrif og ósamrýmanlegar kröfur

Forskólafundirnir urðu mér sífellt erfiðari og fann deildarstjórinn þar, sem jafnframt var eiginkona skólastjóra skólans, endalaust eitthvað að mér. Sem dæmi má nefna að ég tók tvö síðustu árin sem ég kenndi við TR kennslufræði listgreina til BA prófs í LHÍ meðfram starfi við tónlistarskólann, kórastarfi nú og móðurhlutverkinu einsömul með mín 2 ungu börn. Deildarstýran fann endalaust að þessu fyrirkomulagi og gerði litið úr náminu. Þegar ég tók upp á því að gefa út disk geisladiskinn Tunglið, fljótið og regnboginn gekk einn fundurinn út á það að rakka niður þetta framtak mitt og rakka diskinn sjálfan niður. Ég, sem var störfum hlaðin fyrir bæjarfélagið, talsvert yngri en deildarstýran og hefði frekar þurft hvatningu og stuðning við störf mín, grét eftir þann fund. Mér fannst erfitt að samstarfskonur mínar gætu ekki a.m.k. samglaðst mér yfir því að hafa náð þessum áfanga, hvað svo sem þeim fannst um diskinn.

Elín Halldórs. diskur

Tunglið fljótið og regnboginn er ábreiðudiskur sem kom út í desember 2007

 

Um þetta leyti var haldin stór afmælishátíð tónlistarskólans með tónleikahaldi í bæjarfélaginu og þar voru nefndir og heiðraðir 2 aðrir hópar eða listamenn og þeirra getið fyrir dugnað til að gefa út hljómdiska en ekki var einu orði fjallað um mína útgáfu. Áreitið og hunsunin sem ég varð fyrir átti aðeins eftir að aukast. Það var fundið að kennsluháttum mínum á ýmsan máta. Ef ég lét píanónemendur mína spila saman fjórhent eða unga nemendur með mér fjórhent var ég ávítt fyrir að láta nemendurna ekki spila eina og sjálfstæða og ég var svo síðar ávítt fyrir að láta nemendurna aldrei spila fjórhent.

 

Elín Halldórsdóttir tónlistarkona

 

Einelti og aðgerðaleysi

Ég fór í andstyggilegasta starfsmannaviðtal sem ég hef á ævi minni farið í hjá aðstoðarskólastýru skólans. Viðtalið gekk út á það að setja út á störf mín og bera fram ýmsar kvartanir sem að sjálfsögðu áttu einhverjar rétt á sér því í dag eru kennslustörf þannig að það er orðið hlutverk sumra foreldra að kvarta mikið og slæmt hlutverk stjórnenda að bera kvartanirnar áfram en þetta var svolítið í ýktara forminu og fundið var að skipulagi kennslunnar. Lengra komnir nemendur voru í klst. tíma á viku í stað hálftíma tvisvar í viku og var mér sagt að það væri ómögulegt fyrirkomulag, og hvað eg væri lélegur kennari. Slíkt þarf skv. mörgum píanókennurum að meta eftir hæfni og eðli hvers og eins nemanda og er yfirleitt samkomulagsatriði á milli nemanda, kennara og oft foreldra. Þarna var tekið faglega fram fyrir hendurnar á mér ekki í eina skiptið. Síðan var eg hundskömmuð fyrir hitt og þetta sem átti sér engar stoðir í raunveruleikanum. Þeir sem þekkja fyrirkomulag starfsmannaviðtala vita að þar talar yfirmaður og launþegi saman um vellíðan eða vanlíðan í starfi og báðir koma til móts hver við annan með hugmyndir um bætt fyrirkomulag. Þetta starfsmannaviðtal var algjört niðurrif en þegar hér var komið sögu virtust stjórnendur iðka niðurrif og einelti skipulega í minn garð.

Ég fór með kvörtun til starfsmannastjóra Reykjanesbæjar eftir samtalið og kvartaði undan einelti á vinnustað. Ekkert var gert í málinu, nema aðstoðarskólastýran bað mig þó afsökunar en hegðunin breyttist ekkert. Ég er frekar tilfinninganæm og gefandi persóna og þar sem ég vissi að mikill meirihluti þeirra tuga nemenda og foreldra sem ég kenndi voru mjög ánægð fannst mér þetta allt mjög furðulegt. Skólastjórinn sjálfur var á þessari vorönn farin að kalla mig reglulega til sin til að skamma mig fyrir allt og ekkert, t.d. fyrir veikindi, en ég fékk flensu og þurfti að vera viku eða meira frá vinnu þess vegna kannski ekki skrítið að ég væri að bugast yfir þessum aðstæðum. Ég fann að mér var ekki vært lengur á þessum vinnustað og ákvað að flytja mig í höfuðborgina.

Auglýsing

 

Kornið sem fyllti mælinn

Ég tilkynnti stjórnendum þessa ákvörðun mína og var þá beðin um að halda áfram með nokkra píanónemendur næsta vetur en ég var mjög vinsæll píanókennari og náði góðum árangri með marga af nemendum mínum. Ég ákvað að verða við þeirri bón og kenna nokkra tíma. Þegar kom að haustinu og ég sat undirbúningsfundi, upplifði ég sama kuldann og hrokann og það fyllti algjörlega mælinn þegar deildarstýran frækna hringdi í mig öskursímtal sem mér er ennþá í ljósu minni til að skamma mig fyrir að hafa ekki mætt á fund í grunnskólanum þar sem ég hafði kennt forskóla í í 4 ár til að setja nýjan starfsmann inn í starfið. Ég held ég hafi aldrei náð að segja henni að hún boðaði mig aldrei á þennan fund, slík var heiftin í minn garð. Mér er það algjörlega óskiljanlega að stjórnandi skuli hafa talið sig hafa rétt á að hringja í mig og öskra í símtólið eins og hann vildi drepa mann og annan. Þetta fyllti mælinn og ég hætti þarna fyrirvaralaust, orðin leið og þreytt á því að vera alltaf með kökkinn í hálsinum yfir framkomu stjórnenda í minn garð og orðin full af streitu og vanlíðan. Mér barst síðan í pósti harðort bréf frá stjórnendum þar sem mér var hótað lögsókn fyrir að hætta svona fyrirvaralaust.

 

10731038_10152668005192530_8613449955307152445_n

 

Aldrei hef ég fengið svo mikið sem eitt þakkarorð fyrir yfirgripsmikil og erfið störf mín við kennslu í tónlist frá stjórnendum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ég hef nokkrum sinnum beðið um meðmæli frá stjórnendum Tónlistarskólans enda mjög margir sem voru ánægðir með mig og nutu góða af kröftum mínum en þeirri beiðni hefur verið synjað á hrokafullan máta. Þetta er eini vinnustaðurinn sem ég hef unnið á um ævina sem ég hef aldrei fengið meðmæli frá.

Það hefur tekið mig mörg ár að jafna mig á sorginni og reiðinni sem eg finn fyrir þegar ég hugsa til þessara atburða en ég hef getað fyrirgefið og þess vegna finnst mér ég geta deilt þessari reynslu vonandi öðrum til lærdóms. Ég ber engan kala til þessara stjórnenda í dag og er nokkuð sama og ég veit að þeir, eins og ég vinna sína vinnu yfirleitt mjög vel og vandlega. What doesnt kill you only makes you stronger, en þegar ég keyri gegnum bæinn eða á leið þar hjá fer um mig kuldahrollur og mér líður aldrei vel í þessum bæ.

 

Hér er tengill á FB-síðu Elínar en þar má heyra tónlist hennar og sjá fleira sem tengist ferlinum.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283