Ég hef fengið ótal ábendingar frá elskulegu fólki um að sykurát fæði krabbameinsfrumur og með því að meina Stefáni um að neyta sykraðrar fæðu muni frumurnar illvígu svelta til bana og Stefán jafnvel læknast.
Þetta er því miður ekki alveg svona einfalt og trúið mér að ef svo væri fengi Stefán ekki að skutla upp í sig sykurmola!
Það er rétt að allar frumur og þar með krabbameinsfrumur nærast á glúkósa eða sykri en krabbameinsfrumur hafa þann merkilega eiginleika að geta breytt efnaskiptum sínum og náð sér í aukaforða af glúkósa með því að breyta ALLRI fæðu – líka þeirri sem er ósæt með öllu – í glúkósa til að vaxa og dafna. Magnað ekki satt? Salat verður sykur og fita verður sykur í meðförum krabbameinsfrumna. Kolvetnalausu fæði breyta krabbameinsfrumur líka í sykur. Þetta er því vonlaust stríð og því miður bara einföld líffræði.
Krabbameinsfrumur eru stórmerkilegir umskiptingar. Í eðli sínu eru þær ákaflega lífshæfar og raunar má segja að þær ögri öllum náttúrulögmálum á meðan aðrar frumur líkamans hrörna og deyja.
Hvaðan kemur þá þetta rugl um sykursvelti og krabbameinslækningar?
Vitað er að ákveðið prótein er ábyrgt fyrir offramleiðslu glúkósa í mörgum tegundum krabbameina og það prótein er ekki að finna í heilbrigðum frumum líkamans og með því að stöðva framgöngu þess í krabbameinsfrumunum er hægt að breyta efnaskiptaeiginleika þeirra og draga þær til dauða. Þetta hafa vísindamenn sannreynt en enn er þetta á tilraunastigi.
Einhvern tíma í framtíðinni verður kannski til lyf sem blokkar þetta tiltekna prótein en það lyf er enn ekki til – því miður – og það mætti hugsa sér að með slíku lyfi mætti draga úr æxlisvexti krabbameina og hugsanlega nota samhliða öðrum meðferðum.
Óhóflegt sykurát er ekki hollt, við vitum vel að það skemmir í okkur tennurnar og það fitar okkur. Sykur fer t.d. alls ekki vel í mig – ég verð feitari, ljótari og geðverri ef ég borða mikinn sykur – geðverri sennilega vegna þess hvað ég verð miklu feitari og ljótari.
Það sem við setjum ofan í okkur hefur sannarlega áhrif á líðan okkar. Það vita allir sem hafa drukkið of mikið áfengi, étið heilt súkkulaðistykki, borðað hamborgara, sjeik og franskar, saltkjöt og baunir, kálböggla, svo eitthvað sé nefnt.
Það dytti engum í hug að fyrirskrifa ruslfæðu í öll mál til handa veiku fólki en veikt fólk á heldur ekki að lifa meinlætalífi og neita sér um fjölbreytta fæðu. Veikt fólk ætti að borða fæðu sem veitir því vellíðan, sem nærir styrkir og gleður! Að sleppa öllu sem sætt er gerir lífið sannarlega súrara og læknar ekki krabbamein. Það er því miður bara della.
(Uppáhalds eftirrrétturinn hans Stefáns kemur frá Kjötkompaníinu. Jón Örn matreiðslusnillingur og vinur okkar kom færandi hendi í dag upp á LSH og gladdi döpur hjörtu með veislumat og sætum eftirrétti.)