Algengt er að hraðsuðuketill ásamt nokkrum tegunundum af tei, skyndikaffi og skyndikakói sé staðalbúnaður á dýrum hótelherbergjum. Það er þó greinilega ekki algilt og var íslenskum ferðalöngum sem gistu á Hótel Eddu á Egilsstöðum alvarlega misboðið þegar þeir voru rukkaðir um 400 kr. fyrir einn tepoka við brottför.
Fólkið hafði beðið um tepoka, einkum vegna þess að herbergið var kalt og ekki hægt að auka hitann.
Fyrir þessa þjónustu greiddu þau 30.000 kr. fyrir nóttina.
Frásögn þeirra hljóðar svo:
Dýrasti tepoki í heimi. Þannig gæti fyrirsögnin hljóðað af skiptum mínum við Hótel Eddu á Egilsstöðum.
Í gærkvöldi var Margrét hálflumpin inná hótelherginu á Hótel Eddu á Egilsstöðum og kalt og ekki var hægt að auka hita á herberginu því ofnlokar voru bilaðir. Stakk ég þá uppá að laga handa henni te sem hún þáði því við erum með lítinn hraðsuðuketil með okkur og bolla en vantaði hinsvegar tepoka ( grisjur ) og fór því fram í matsal hótelsins og bað konu sem þar var að hjálpa mér um tepoka. Með eftirgangsmunum gat ég sært hana til að láta mig fá 2 poka af Liptonstei. Í hverjum pakka eru 20 stykki. Konan var ákveðin í því að þetta skyldi ég nú ekki fá frítt og lét mig kvitta fyrir pokunum tveimur.
Í morgun þegar við fórum af hótelinu vorum við síðan rukkuð um 2 poka af Liptonstei. Svo vildi til að Margrét hafði bara notað annan pokann og skilaði því hinum og ég greiddi Hótel Eddu á Egilsstöðum kr.400- fyrir þann sem við notuðum. Í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík kostar heill pakki af Liptonstei ( með 20 pokum ) kr. 450- og var mér sagt að það teldist dýrt. En með verðlagningunni á Hótel Eddu á Egilsstöðum gætu þau fengið uþb kr. 8000- fyrir pakkann. Ég verð að vera hreinskilinn með það, að ég held að þessu fólki sé bara hreint ekki viðbjargandi og það eigi bara ekki skilið að fá alla þessa ferðamenn sem fara um landið og græða svona á þeim.
Þá á ég eftir að greina frá því að herbergið ( Heimavistar , Menntaskólans á Egilsstöðum ), þröngt, úr sér gengið, skítkalt og ekki eldra fólki bjóðandi kostaði okkur kr. 30000- en Orlofssjóður KÍ borgaði að vísu 1/3 af þeirri upphæð fyrir okkur en það var ekki frá Hótel Eddu tekið. Ja, dýr myndi Hafliði allur, var eitt sinn sagt og virðist ennþá og kannski alltaf eiga við.