Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Við verðum „að bjarga lífeyrissjóðunum frá sjálfum sér“

$
0
0

Við verðum „að bjarga lífeyrissjóðunum frá sjálfum sér“  og frá þeirri eyðileggingu og hruni sem annars er á næsta leyti.

Eina leiðin til að bjarga lífeyrissjóðunum frá sjálfum sér er fólgin í því að loka núverandi kerfi og starta nýjum – samhæfðum sjóði fyrir alla eftirlaunaþega byggðan á gegnumstreymi (iðgjalda)  og láta þann sjóð spila með skilvirku kerfi borgaralauna.  

Engar tekjutengingar og engin jaðarvirkni tengd á milli kerfa –  allir fái jafna grunngreiðslu – en beri sjálfir ábyrgð á séreign og ávöxtun eða áhættu eftir atvikum.

 

Auglýsing

 

Stöðumat BS í júlí 2017

  • Sér-íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á þeirri ranghugmynd að hægt sé að búa til endalausa ávöxtun langt umfram hagvöxt. Ekkert hagkerfi annað hefur reynt að byggja upp söfnunar og ávöxtunar lífeyriskerfi. Ekkert hagkerfi greiðir frá sjálfu sér auka-premíu í arð til lífeyrissjóða sem ávaxtast allt að 80-85% innan eigin efnahagsveltu.    Hugmyndin er þannig ekki sjálfbær og hefur aldrei verið.  Bara sú staðreynd að ekki er neitt sambærilegt skylduaðildarkerfi lífeyrissjóða í nágrannalöndum ætti að fá okkur til að staldra við og stoppa þennan svelg sem kerfið okkar er orðið.
  • Öll nágrannaríki hafa áfram byggt á grunnkerfi almannatrygginga sem greiðir lágmarkslífeyri. Nú eru fleiri og fleiri ríki að skoða hugmyndina um “borgaralaun” sem tæki yfir þessar fúnksjónir almannatrygginga  en mundi ekki skilja neinn útundan.   Einboðið virðist að greina hvaða kostir gætu falist í slíku fyrirkomulagi borgaralauna hérlendis og stíga með því útúr gríðarlega flóknu kerfi skerðinga og tekjutenginga.
  • Öll ríkin í kring um okkur hafa gert ráð fyrir því að sérstakur sparnaður einstaklinga kæmi þeim til góða í ellinni en jafnframt hefur sá sparnaður lengst af verið á ábyrgð einstaklinganna sjálfra.   Hollendingar virðast hafa sett upp umfangsmesta kerfi séreignar til að sinna næstum öllum sem hafa verið virkir á vinnumarkaði. Hvernig slíkur sparnaður er varinn og hvernig afkoma hans spilar með skattkerfi er breytilegt eftir löndum en almennt gefur ráðstöfun séreignarsparnaðar tiltekin skattfríðindi og það gjarna án þess að skerða almennan lífeyri almannatrygginga.
  • Nú stefnir í að lífeyrissjóðakerfið íslenska svelgi til sín allt að 20% launaveltunnar með SALEK samkomulaginu. Undirstrikar fádæmislega hrokafull framkoma forseta ASÍ og framkvæmdastjóra SA í sambandi við ráðstöfun viðbótariðgjalda í séreign að þeir líta þannig á að þeir séu æðri lögum, samningum   og eftirlitsstofnunum þegar þeir koma fram fyrir hönd SALEK og lífeyrissjóðanna.  Yfirlýsingar þeirra vegna alvarlegra athugasemda Fjármálaeftirlitsins ættu að verða okkur öllum til áminningar um að lífeyrissjóðakerfið hefur vaxið upp í að verða “ríki í ríkinu” og kemur fram sem boðvald og hyggst fara sínu fram þrátt fyrir athugasemdir lögmætra yfirvalda.
  • Stærð og umfang lífeyrissjóðanna er eitt og sér alvarlegt vandamál: – með eignir sem senn slaga í 4.000 milljarða eða  áður en við vitum af í tvöfalda landsframleiðslu.    Með einföldum framreikningi þá sést að vöxtur sjóðanna er 6-10% ár eftir ár eða verulega hraðari en aukning landsframleiðslu og reikningsglöggir eru þar með fljótir að átta sig á að smátt og smátt soga lífeyrissjóðirnir til sín meira og meira af eignum samfélagsins og að lokum munu allar fjármunalegar eignir verða í þeirra höndum beint og óbeint.
  • Sú valdasamþjöppun sem gríðarlegt fjárfestingarvald lífeyrissjóðanna leiðir af sér er lýðræðislega óheilbrigð beinlínis háskaleg. Forstjórar sjóðanna og sá helmingur stjórnarmanna lífeyrissjóðakerfisins sem fulltrúar kapítalsins/SA skipa  hefur búið til fjölmenna og valdamikla yfirstétt sem er óþægilega langt utan við beint agavald almennings sem eru eigendur lífeyrissjóðakerfisins. Einhver allra ósvífnasta og vitlausasta aðgerð sem fylgdi í kjölfar SALEK var að ríkissjóður tæki að sér að “sjóðstjóravæða” allt að 600 milljarða sem væri reiknaður halli á opinbera lífeyrissjóðakerfinu – með því að greiða þá fjármuni beint inn í LSR. Með því væri ríkissjóður að afhenda sjóðstjórunum margföldun á valdi sínu og svipta ríkissjóð um leið möguleikanum á að halda á þessum fjármunum með ábyrgum hætti – enda skuldbindingar aldrei greiddar nema á mjög löngum tíma og þá af samtímatekjum ríkissjóðs.
  • Sóun í rekstri og spillingarlík viðskipti eða gerviviðskipti í Kauphöllinni – eru einkenni á því kerfi sem rekið er.  Ekki að það sé eitthvert samsafn af illa gefnu eða illa meinandi fólki í störfum fyrir lífeyrissjóðina nei, nei, slíkt mun ótvírætt og örugglega heyra til undantekninga en kerfið sjálf er þess eðlis að það bókstaflega gerir ráð fyrir því að sjóðstjórar og forstjórar séu að sýsla með þessa gríðarlegu fjármuni  á jaðarsvæðum áhættuviðskipa   með feitum bónusum og ákvarðanatöku sem alltof oft verður meira “kumpánleg” heldur en fagleg.  Ákvarðanir sem byggjast á samtölum og samskiptum strákanna – utan skrifstofutíma á golfvöllum, fótboltaferðum eða í veiðitúr og vélsleðakeyrslu – eru ekki eðlilegar ákvarðanir í lýðræðissamfélagi þar sem hagsmunir almennings eru undir og fjármunir í vörslu eru sannarlega eign þessa almennings.
  • Okurvextir – með sér-íslenskri verðtryggingu lána og rustaleg ávöxtunarkrafa í atvinnurekstri lífeyrissjóðanna – svelgja til sín alltof stóran skerf af veltufé samtímans.  Lífeyrissjóðakerfið  er ekki bara að taka til sín alltof stóran skerf af launaveltunni 15-20% þegar allt er talið heldur eru flestar yngir kynslóðirnar að greiða lífeyrissjóðunum verðtryggða okurvexti af húsnæðislánum – beint og óbeint og há álagning í dagvöruviðskiptum, viðskiptum við tryggingafélög og olíufélög og heimilisrekstrinum gengur að verulegu leyti til lífeyrissjóðanna.
  • Skattfrelsi lífeyrissjóðakerfisins er eitt og sér farið að laska rekstur heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins meira en gott getur talist – og af því að iðgjaldagreiðslur í skylduaðild og önnur afkoma, arður og vaxtatekjur lífeyrissjóðanna skattleggst ekki eins og um væri að ræða tekjur einstaklinga eða fyrirtækja – þá vantar gríðarlegar fjárhæðir í ríkissjóð. Miðað við núverandi skattþrep er það einfalt reikningsdæmi að leggja mat á hversu miklir peningar muni skila sér í ríkissjóð með því að innborganir í lífeyrissjóði – sem og arðgreiðslur til þeirra og eignatekjur – væru skattlagðar eins og um einstaklinga væri að ræða.  Minna má á að það eru ekki nema ríflega 25 ár síðan Samvinnuhreyfingin var viðlíka stórt veldi í efnahagslegu tilliti og lífeyrissjóðakerfið er nú.   Samvinnufélög/kaupfélög greiddu skatta og skyldur  og einboðið er að lífeyrissjóðir geri það líka.  Slík breyting mundi skila á bilinu 40-80 milljörðum í ríkissjóð árlega – og munar nú um minna þegar heilbrigðiskerfið höktir og rukkar sjúklinga um risafjárhæðir vegna lyfja og aðgerða og menntakerfið lokar á eldri en 25 ára með niðurskurði á öllum sviðum og stigum.
  • Markmið um velviðunandi eða jafnvel ríflegan lífeyri eldri borgara eru göfug í sjálfu sér. Upphaflega hugmyndin með almannatryggingum bókstaflega gekk út á að allir fengju jafnt til sinnar brýnustu framfærslu – þegar menn væru hættir að leggja að mörkum á vinnumarkaði. Þannig fóru gömlu kerfi velferðarríkja jafnaðarstefnu og mannfrelsis af stað.  Mörg þessi kerfi eru óbreytt í grunninn en ekki hér á Íslandi.
  • Búið er að rústa upphaflega tilganginum með því að lífeyrissjóðakerfi með skylduaðild og prósentugreiðslum – hefur tekið yfir meginhlutverk almannatrygginga fyrir þá sem eru lengri tíma á vinnumarkaði. Það vitlausasta er þó að með því fyrirkomulagi er launamisrétti á vinnutímabili framlengt með tvöföldum þunga inn á lífeyrisaldur þar sem sá sem greiddi af háum launum fær hærri lífeyri sem því nemur – heldur en hinn sem greiddi af lágum launum þótt báðir séu á þeim tíma jafnsettir sem “óvirkir á vinnumarkaði”.  Öll ríki í kring um okkur láta séreignarsparnað einstaklinga og eignasöfnun duga til að viðhalda aðstöðumun og framlengja stéttamun alla leið á grafarbakka; EKKI Íslendingar.
  • Ekkert bendir til að lífeyrissjóðakerfið eins og það er hugsað, uppbyggt og rekið – geti staðið undir ríflegum lífeyri fyrir alla enda innbyggt í kerfið að því verður aldrei ætlandi að skaffa láglaunafólki nein viðunandi kjör meðan launastefnan er jafn ömurleg og raun ber vitni.
  • Nágrannaríki telja grunnkerfi almannatrygginga til ríkisumsvifa og fjármagna það með skattfé. Hérlendis er stundaður sá skollaleikur að telja skylduaðild lífeyrisgreiðslna ekki til skattbyrði; 15,5% og  bráðum jafnvel hærra hlutfall.
  • Samanburður við Norska Olíusjóðinn er háskalega villandi. Norðmenn skattleggja tímabundna nýtingu olíuauðlinda og setja þá peninga “í geymslu” og til ávöxtunar utan norkska efnahagskerfisins. Hvort sú ráðstöfun mun á endanum skila sér með ávinningi til baka löngu eftir að olíudælingu sleppir er svo annað mál en það mun einkum byggjast á því hvort alþjóðaviðskipti og pappírsmarkaðir blómstra til nægilega langs tíma til að dæmið gangi upp.
  • Sú “séríslenska” hugmynd að stofna einhvers konar auðlindasjóð um varanlega nýtingu auðlinda til lands og sjávar er ótrúlega ósvífin tilraun til að kapítalvæða afgjald af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Vísan til Norska fordæmisins felur í sér afvegaleiðingu þar sem nýting olíuauðlinda í takmarkaðan tíma og með gróðurhúsa-áhrifin yfirvofandi er eðlisólík þeirri sjálfbæru nýtingu fiskistofna, vatnsorku og jarðvarma og ábyrga umgengni ferðaþjónustu um náttúrperlurnar sem við leggjum upp. Ekki dettur Norðmönnum til að mynda í hug að setja afgjald sjávarnytja eða vatnsorku í sjóð undir koddana . . .

 

Auglýsing

 

Niðurstaða:

  • Lífeyrissjóðakerfið nær ekki markmiðum um að skila öllum viðunandi eða góðum lífeyri.
  • Lífeyrissjóðakerfið tekur til sín of stóran skerf af launaveltu og þannig bókstaflega íþyngjandi fyrir almenning.
  • Ekkert bendir til að lífeyrissjóðakerfið geti staðist til lengdar  það er of stórt og sogar til sín of mikinn eignamassa og fellir að lokum hagkerfið ofan á eigin umsvif.
  • Lífeyrissjóðakerfið er alltof dýrt í rekstir; það er alltof valdsækið og ólýðræðislegt og býður upp á spillingu og sjálftöku.
  • Hugmyndin um söfnunar og ávöxtunarsjóði er ósjálfbær og stefnir í algert hrun og efnahagslegar hörmungar.

Þess vegna verðum við að loka núverandi kerfi; láta ríkissjóð kaupa kerfið eins og það er og skala niður sjóðsöfnun.  Ríkið er eini aðilinn sem getur skilað endurmetnum raunverðmætum til sjóðfélaga þannig að þeir fái “raunvirði” en ekki uppblásnar væntingar sem ekki geta staðist.

Stofnum um leið “einn lífeyrissjóð” fyrir alla landsmenn; með skylduaðild og lágu innborgunarhlutfalli (5-8%) og eina hlutverk þess sjóðs væri að greiða öllum sem ljúka virkri vinnuþáttöku sama lágmarkslífeyri frá 65 ára aldri –  óháð ævitekjum.

Við hliðina fái allir tækifæri til að reka eigin séreignarsjóð; sérvarinn í ríkisskuldabréfum og fasteignatryggðum bréfum og áhættulausan/áhættulítinn  en skattfrelsi þess sparnaðar nákvæmlega það sama fyrir alla líkt og gildir um persónuafslátt; þ.e. sömu skattfrjálsa fjárhæð fyrir ríka og fátæka.

Allir hálaunamenn og umsvifafólk í rekstri á auðvelt með að nýta tekjur sínar til að byggja upp hófleg eignasöfn til nýtingar á ellidögum  ríkisvaldið þarf ekki og á ekki að beita sérstökum ívilnunum til að auðvelta slíkt.  Það mætti vera eitt af umbótaverkefnum í sama samhengi að hvetja til þess að flutningur fjármuna til yngri kynslóða verði skilvirkur og málefnalegur og eitt af því gæti verið að hækka erfðafjárskatt[i] verulega (í 50-75%) – þar sem eignir  væru umfram einhvers konar  fríeignarmörk til lögerfingja og á núvirði væru sanngjörn mörk ca 10 milljónir 0 skattur og 10-40 milljónir 25% skattur.

Eina leiðin til að bjarga lífeyrissjóðunum frá sjálfum sér er þess vegna fólgin í því að loka núverandi kerfi og starta nýjum Lífeyrissjóði allra landsmanna; – samhæfðum gegnumstreymissjóði fyrir alla eftirlaunaþega – og láta þann sjóð spila með skilvirku kerfi borgaralauna – og sömu framfærslutengdu grunngreiðslur til allra og án tekjutenginga.  

Á miðju sumri 2017

Benedikt Sigurðarson

 

[i] Þetta kann að virðast óviðkomandi mál –  en er það alls ekki – heldur hluti af heildarmynd –  þar sem samfélagið vinnur að því að tryggja framtíð ungra og uppvaxandi – af metnaði og sanngirni –  en sinnir um leið eðlilegum öryggisþörfum þeirra öldruðu. Frekja aldraðra eignamanna og kvenna; hinnar raunverulegu “frekjukynslóðar”  – heimtar hins vegar skattfrelsi og aðstoð til að stunda aflandsbrask eða sólunda eignum í eigin lúxus; – svo sjálflæg að hún tímir ekki einu sinni að láta börn og barnabörn njóta nokkurs af eignum sem safnast hafa í misgengi og verðbólgnu braski.  Öskurkór eldri borgara rífur sig gjarna hæst þegar rætt er um eignaskatta –  af eignamyndun sem meira og minna hefur ekki verið greitt eðlilegt skattgjald af á umliðnum áratugum.   

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283