Ástæða er til að deila orðum Andra Snæs Magnasonar en hann skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook í gær í kjölfar íbúafundar vegna Kísilvers í Helguvík:
„Ég hélt erindi á íbúafundi í Stapanum í kvöld vegna Kísilvers í Helguvík. Kona steig fram og hafði áhyggjur af börnum sínum og bað alla þá sem höfðu fundið fyrir óþægindum vegna mengunar að standa upp. Um þriðjungur í stappfullum sal stóð upp.
Þetta mál er með hreinum ólíkindum, en verksmiðjan er rúmum kílómeter frá byggð, var óvart 13 metrum hærri en heimild var fyrir en hönnun gerði ráð fyrir fjórum ofnum og stærsta kísilveri í heimi með 90.000 tonna framleiðslu. Ekki nóg með að vera stærsta kísilver í heimi heldur átti Thorsil að rísa á sömu lóð með 110.000 tonna framleiðslu og verða þá væntanlega langstærsta kísilver í heimi með fjóra ofna og samanlagða orkuþörf kísilvera upp á rúm 250MW.
Ekki nóg með það heldur áttu þessar verksmiðjur að brenna samtals 300.000 tonn af kolum, enn og aftur – rétt við bæjardyrnar!
Vandræði við fyrsta ofninn hafa valdið veikindum og óþægindum hjá íbúum í nágrenninu. Líklega mun samfélagið tapa milljörðum á þessu ævintýri en eflaust mun meira ef fram fer sem horfir og fólk fer að missa heilsuna fyrir alvöru.
Hér fyrir neðan er frétt um ofsaakstur stofnanda United Silicon en hann virðist vera ágætis metafóra um orkustefnuna á Íslandi. Tesla er magnað tæki og verkfræðilegt afrek en verður stórhættulegt í höndum oflátunga sem keyra eins og vitleysingar. Það er jafn heimskulegt að valda slysi á 183 kílómetra hraða þótt bíllinn sé knúinn „hreinni orku“.
Umræðan um orkumál á Íslandi hafa einmitt snúst um það – hvort þessi eða hinn sé á móti orku, á móti rafmagni eða tilteknum málmum – þegar vandinn er sá að þeir sem hafa stýrt orkumálum þjóðarinnar síðust áratugi hafa hertekið Teslunar okkar, Hitaveiturnar, vatnsveiturnar, rafmangsveiturnar og árangur sem heimurinn leit til og stigið bensínið í botn, spólað utanvegar og út í hraun.
Núna standa í Helguvík minnisvarðar sem eru eflaust einstakir í vestrænu samfélagi, andvana fætt álverið í Helguvík og andfúlt kísilverið. Því fyrr sem þau komast á brotajárnhauga sögunnar því betra.“
http://www.ruv.is/frett/akaerdur-fyrir-ad-valda-slysi-a-teslu