Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ójöfn prjónfesta og umferðagliðnun

$
0
0

Í þessum pistli ætla ég að ræða umferðagliðnun í prjóni (held ekki að þetta orð sé til samt, en hvað um það.)

Eitt er það sem oft sést í prjóni, og þá sérstaklega þegar prjónað er fram og til baka, en það er umferðagliðnun.  Þetta fer agalega í taugarnar á ansi mörgum Prjónurum (enda ekki sérlega fallegt) sem margir hverjir vita ekki hvað veldur. Í þessum pistli ætla ég að útskýra hvað er í gangi og af hverju þetta gerist.  Ég ætla jafnframt að reyna að koma með nokkrar lausnir á þessu vandamáli og vona að þú getir nýtt þér einhverjar af þeim.

Það sem ég á við með „umferðagliðnun“ er þegar prjónað er t.d. slétt á réttunni en brugðið á röngunni og þá virðist sem vanti umferðir í þegar horft er á rönguna. Eða eins og þú hafir jafnvel prjónað nokkrar lykkjur slétt á röngunni í stað þess að prjóna brugðið. Þetta lítur því út eins og umferðirnar gliðni og þá sérstaklega á röngunni.

ójafnt1

Á réttunni virðast lykkjurnar vera sumar hverjar talsvert stærri en aðrar.

Ójafnt2

Staðreyndin er að mannsaugað er ferlega lagið við að finna allt sem sker sig úr og þetta litla vandamál er svo sannarlega eitt af því sem vill stundum öskra á mann.  Þetta gerist t.d. ef þú prjónar brugðnu lykkjuna lausar en þú prjónar þá sléttu sem er afar algengt. Lausari umferðirnar mynda þessar rendur. Hér á eftir ætla ég að segja þér frá þremur aðferðum sem þróaðar hafa verið í gegnum tíðina, til að losna við þetta vandamál. Einnig eru þetta þær aðferðir sem mér leist sjálfri best á. Ef þú hins vegar veist um aðferð sem ekki er nefnd hér og sem virkar fyrir þig þá hvet ég þig eindregið til að deila henni hér í athugasemdakerfinu.

AÐFERÐ 1 – Skóflaðu brugðnu lykkjunni

Þær sem hafa verið á námskeiði hjá mér vita hvað ég er að tala um. Að skófla lykkjunni hefur nokkra kosti en einn galla. Kostirnir eru að þessi aðferð að prjóna brugðið er talsvert fljótlegri en aðrar. Hún notar minna garn og prjónfestan er líkari prjónfestunni þegar slétta lykkjan er prjónuð. Gallinn er hins vegar sá að lykkjan snýr vitlaust á prjóninum. Það er ekkert að því þótt lykkjan snúi „vitlaust“, þú þarft bara að vera meðvituð/meðvitaður um að fara þá aftan í hana í næstu umferð.  Ef þú passar þetta þá er þetta ekki galli lengur.  Hér er linkur á myndband þar sem ég sýni hvernig þú skóflar (á mínútu 1.40).

AÐFERÐ 2 – Prjónaðu meðvitað og rykktu í

Að prjóna er svo afslappandi að við erum gjörn á að fara í hálfgert hugleiðsluástand og prjónum án þess að verða vör við það beint. Það veldur því hins vegar að við hugsum ekki um hverja lykkju fyrir sig og erum ekki nógu meðvituð um hvað það er sem við erum að gera. Prufaðu þegar þú ert að prjóna brugðið að prjóna meðvitað aðeins fastar. Einnig er oft nóg að rykkja aðeins í hægri prjón eftir að brugðna lykkjan hefur verið framkvæmd. Þetta sýni ég líka í myndbandinu á mínútu 3:48.

AÐFERÐ 3 – Skiptu út hægri prjóni

Ef hendurnar neita að taka við nýjum leiðbeiningum frá heilanum og þú prjónar áfram lausar, sama hvað þú reynir, þá er næsta skref að plata hendurnar til hlýðni. Það gerir þú með því að nota fínni prjón í hægri hendi þegar þú prjónar brugðið. Það er nefnilega hægri prjónninn sem ræður stærðinni á lykkjunum og AÐEINS hann. Með þessu móti getur þú áfram prjónað brugðnar lykkjur eins og áður en þær verða þá minni fyrir vikið. Þú verður bara að muna að skipta aftur yfir í grófari prjón í hægri hendi fyrir sléttu umferðina. Ef þú prjónar fast þá getur þú líka notað þessa aðferð nema að þá hefur þú réttu prjónastærðina í hægri hendi en fínni í þeirri vinstri.

Prufaðu þessar aðferðir ef umferðagliðnun er til vandræða hjá þér, vonandi mun a.m.k. ein þeirra eyða vandamálinu fyrir fullt og allt.

Hefur umferðagliðnun angrað þig? Fannstu lausn á því? Ég vil endilega heyra frá þér. En mundu að skilja í það minnsta eftir fótspor. Annaðhvort með því að kvitta eða með því að smella hér á LIKE.

Jafnar kveðjur á línuna.

 

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283