Það var kalt þennan sunnudagsmorgun þegar ég opnaði augun, vindasamt og glamur í diskunum sem hanga á veggjunum í bakgarðinum. Undir sænginni teygði ég smám saman úr mér; ég gæti svo sem legið eins lengi og ég kærði mig um en dagurinn heillar mig alltaf á endanum. Ég settist upp og teygði mig í sloppinn, fór fram og hitaði vatn í kaffi. Í dag er messa. Mér er varla til setunnar boðið.
Hvelfingin er há og mikil og presturinn písl í fjarska þar sem ég fæ mér sæti við endann á aftasta bekk, enda sein fyrir og á skóm með hælum. Mér hefði þótt leitt að trufla upphafið að messunni með taktföstum glamrandi skrefum mikið lengra en þennan spöl. Það er verið að syngja, ég kinka kolli til þeirra sem sitja við hlið mér á bekknum. Hér er við hæfi að hafa þögn og hlusta með lotningu.
Það er ástæða fyrir þessari ferð minni til messu, dóttir mín gengur í kaþólskan kirkjuskóla og skal fermd með vorinu. Ákafinn við lærdóminn og trúarjátningin þulin upp yfir morgunmatnum getur ekki annað en smitað mig, ég vil ganga þennan veg við hlið hennar. Þetta er ég að hugsa meðan hún stendur uppi við altari, höfðinu hærri en nokkrir jafnaldrar og signar sig upp á kaþólsku.
Ég hlusta á prestinn, fyrst ég er hingað komin skal ég taka inn og taka við, láta prédika og leyfa huganum að melta. Í dag er talað um veraldarvafstur, efnislega ást okkar og græðgi á stundum … síðan spjallað um það sem á endanum mun mestu máli skipta. Ég hef sjálf sagt það áður þó ég sé ekki saklaus; samband mitt við mína mun skáka kjólnum sem ég splæsti í um daginn. Það vissi ég vel, en ég vil vera fín. Það má, finnst mér.
Þegar kórinn byrjar að syngja á svölunum fyrir aftan mig, fer hugurinn á flakk. Þessi kirkja sem umlykur raddir í söng og gerir þær hátt í himneskar, hefur á mig einkennileg áhrif. Um allan heim er fólk að eyða stund í byggingum sem þessari, smáum sem stórum … flestir eru einir með sjálfum sér, sumir eiga um sárt að binda. Ég sit og mæni á krist á krossinum.
Ég er lítilfjörleg í samanburði við marga en að sama skapi stórkostleg þegar ég kann mig. Ég geng til altaris og þigg oblátuna, brauð krists og brosi við dóttur minni. Við göngum út í sólskinið og tyllum okkur við borð á torginu við kirkjuna. Það er eitthvað í hjartanu á svona morgnum … ég er sátt við hamingjuna sama hvað hún heitir. Meira að segja messu og bekk í kirkju.
Í kirkju með mömmu. Hún var ný þessi kirkja og stólum raðað hlið við hlið. Skólastofustólum. Mér leiddist messan, svo skelfing mikið að ég lét mig síga af stólnum og niður á ljósgrátt og lakkað steingólfið. Svo lá ég og skoðaði fætur. Skó og skálmar, stöku nælonsokkabuxur. Karlmannsskór voru allir eins. Leiðinlegir. En hælaskór inn á milli dáleiddu huga minn. Ég man eftir þessum rauðu, lakkaðir og glansandi í stíl við gólfið, svæfðu þeir mig; daðrandi við hvíta sokka úr gerviefni. Ég dottaði á gólfinu og fékk að sofa þar í friði fyrir mömmu, með biblíumynd úr sunnudagaskóla undir lófanum, messuna á enda. Amen. (-úr óútkominni skáldsögu undirritaðrar –Aðalhlutverki)