Kvennablaðið birtir nú stuttan kafla úr bók Ólafs Arnarsonar, Skuggi Sólkonungs – Er Davíð Oddson dýrasti maður lýðveldisins?
Bókin er væntanleg í verslanir á föstudaginn þann 9. maí 2014.
Á baksíðu bókarinnar segir:
„Í þessari bók beinir Ólafur kastljósi sínu að Davíð Oddssyni og hvernig hann hefur beitt áhrifum sínum og völdum á löngum ferli í stjórnmálum, Seðlabankanum og nú síðast sem ritstjóri Morgunblaðsins. Baráttan um aðildarumsókn Íslands að ESB er í forgrunni. Sá slagur er um grundvallarhagsmuni íslensku þjóðarinnar, sem á liðnum árum hefur mátt horfa á lífskjör sín hrapa samanborið við nágrannalönd.“
Lady Macbeth á Mogganum
„Eftir að Davíð Oddsson tók við ritstjórn Morgunblaðsins hefur hann varið ófáum dálksentimetrum – líklega all mörgum dálkmetrum, ef sú mælieining væri notuð um lengd prentaðs texta í dagblöðum - í að verja og réttlæta gjörðir fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Eitt af því sem gamli forsætisráðherrann hefur verið hvað harðast gagnrýndur fyrir er ákvörðun hans og þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um að setja Ísland á lista „hinna staðföstu“ ríkja, sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak 2003, án þess að hafa fyrir því samþykki Alþingis.
Í hvert sinn sem minnst hefur verið á þessa dæmalausu ákvörðun ráðherranna tveggja hefur gagnrýnin bersýnilega gengið inn í kviku ritstjóra Morgunblaðsins og hann jafnan helgað málsvörn fyrrverandi forsætisráðherra drjúgan part í ritstjórnargreinum næstu daga á eftir. Í nóvember 2010 komu fram skjöl í utanríkisráðuneytinu, sem sýndu fram á að ekki aðeins höfðu forsætis- og utanríkisráðherra látið hjá líða að fá samþykki Alþingis eða þingflokka sinna áður en þeir ákváðu að styðja innrásarstríðið í Írak, heldur gekk sú ákvörðun þvert gegn ráðleggingum og aðvörunum þjóðréttarsérfræðings utanríkisráðuneytisins, sem taldi mikla lagalega óvissu ríkja um lögmæti innrásarinnar.
Fréttaumfjöllun RÚV og 365 miðla um þessi skjöl og innihald þeirra varð ritstjóranum tilefni til Reykjavíkurbréfs þar sem hann fór mikinn gegn Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra, og fréttastjórum og fréttamönnum RÚV og 365.
Næstu helgi á eftir, 20. nóvember, var Reykjavíkurbréfið samfelld varnarræða ritstjórans fyrir fyrrum seðlabankastjóra og svívirðingar á hendur þeim, sem ekki deildu skoðun ritstjórans á seðlabankastjóranum.
Gamli stríðshesturinn skammaðist yfir „eftiráspekingum“, sem hafi fagnað Icesave reikningum Landsbankans, þegar þeir komu fram á sínum tíma, en reyni nú að ljúga sig út úr því. Ritstjóranum er tamt að grípa til Icesave þegar honum er orðavant. Væntanlega flokkast það undir hina víðfrægu „smjörklípu“. Í Reykjavíkurbréfinu 20. nóvember 2010 hraunar Davíð Oddsson yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Icesave feril hennar. Nokkuð hefur hann til síns máls því ríkisstjórnin sú hélt einstaklega illa á Iceasve málum eins og þjóðin kvað úr um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010. Davíð láist hins vegar að nefna að ríkisstjórn Jóhönnu tók við afleitu búi í Icesave. Fyrsti fundurinn milli fulltrúa íslenskra og breskra stjórnvalda vegna Iceasave var haldinn í Reykjavík í nóvember 2008. Þá sat ríkisstjórn Geirs H. Haarde enn við völd. Í tíð Geirs í forsætisráðuneytinu og Davíðs í Seðlabankanum voru lagðar línur að því Icesave samkomulagi, sem Svavar Gestsson kynnti í júní 2009. Þær línur voru lagðar með blessun seðlabankastjórans.
Macbeth er eitthvert frægasta verk Shakespeare’s – sannkallaður harmleikur. Sakbitin Lady Macbeth reynir að hreinsa af sér sektina með því að skrúbba í sífellu ímyndaðan blóðblett, sem enginn sér nema hún. Ritstjóri Morgunblaðsins minnir á Lady Macbeth með öfugum formerkjum. Allir nema hann sjá blóðsletturnar, sem eru upp um alla veggi og loft, þannig að drýpur af. Sjálfur stendur hann hins vegar á miðju stofugólfinu og bendir á hve allt er hreint og fínt – eiginlega alveg spikk og span – á meðan blóðrauðir droparnir drjúpa úr loftinu og splundrast á hvítu marmaragólfinu.“
Ólafur Arnarson er höfundur metsölubókarinnar Sofandi að feigðarósi, sem var fyrsta bókin sem kom út um bankahrunið. Ólafur hefur starfað hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum og bönkum í Frankfurt og London. Hann var pistlahöfundur á Pressunni (pressan.is) frá 2009 og 2012 stofnaði hann vefmiðilinn Tímarím (timarim.is). Hann var um skeið framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og aðstoðarmaður menntamálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.