Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Jón Þór spyr forseta Alþingis formlega um Kjærsgaard-hneykslið

$
0
0

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og 5. varaforseti Alþingis, sendi á fimmtudag forseta Alþingis fyrirspurn í fjórum liðum, vegna þátttöku Piu Kjærsgaard í hátíðardagskránni á miðvikudag.

Í fyrirspurninni óskar Jón Þór meðal annars eftir afriti af öllum samskiptum milli Alþingis, forseta Alþingis og skrifstofu Alþingis við danska þingið, vegna málsins.

Þá spyr Jón Þór sérstaklega út í upplýsingagjöf um ákvörðunina. Komið hefur fram að tilkynning um fyrirhugaða þátttöku Kjærsgaard birtist á vef Alþingis 20. apríl síðastliðinn, en þó virðist fáum hafa verið kunnugt um málið fyrr en síðastliðinn þriðjudag. „Leit forseti Alþingis svo á að birting tilkynningar á vef Alþingis 20. apríl síðastliðin fullnægði upplýsingaskyldu hans til forsætisnefndar og formanna þingflokka Alþingis?“ spyr Jón Þór. Og ef ekki, „hvernig þarf þeirri upplýsingagjöf að vera háttað til að vera fullnægjandi þegar fulltrúum erlendra ríkja er boðið í umboði Alþingis?“

Þar sem lög krefja forseta Alþingis um að svara þinglegum fyrirspurnum má þannig búast við að fyrr en síðar komi fram svar við þeirri spurningu sem Kvennablaðið sendi embættinu á þriðjudagskvöld.

Loks spyr Jón Þór „hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarfundinn á Þingvöllum, og þá með hve miklum fyrirvara svo sómi væri af“.

Fyrr sama dag sendi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist „harma“ neikvæð viðbrögð þingmanna við þátttöku Piu Kjærsgaard í hátíðardagskránni, og ávítti þingmenn fyrir að sýna embætti hennar og starfstitli þar með ekki ekki tilhlýðilega virðingu.

Texti fyrirspurnarinnar
1. Hver ber ábyrgð á þeim hluta alþjóðastarfs Alþingis að bjóða fulltrúum erlendra ríkja til Íslands fyrir hönd Alþingis?

2. Hvenær var forseta danska þingsins formlega boðið að vera með ávarp á hátíðarfundinum á Þingvöllum 18. júlí? Hver tók þá ákvörðun og hvenær, og hvernig var ákvarðanaferlinu háttað? Óskað er afrits af öllum samskiptum milli Alþingis, forseta Alþingis og skrifstofu Alþingis við danska þingið, ásamt öðrum upplýsingum sem varpað geta ljósi á þá ákvörðun, undirbúning hennar og framkvæmd.

3. Hvenær og með hvaða hætti voru fulltrúar í forsætisnefnd og formenn þingflokka Alþingis upplýstir um að annars vega stæði til að bjóða Pia Kjærsgaard sem forseta danska þingsins á hátíðarfundinn og hins vegar þegar henni hafði verið boðið? Leit forseti Alþingis svo á að birting tilkynningar á vef Alþingis 20. apríl síðastliðin fullnægði upplýsingaskyldu hans til forsætisnefndar og formanna þingflokka Alþingis? Ef ekki, hvernig þarf þeirri upplýsingagjöf að vera háttað til að vera fullnægjandi þegar fulltrúum erlendra ríkja er boðið í umboði Alþingis? Óskað er eftir afrit af dagkskrár funda, dagskrárskjölum og þeim liðum fundargerða funda forsætisnefndar og funda forseta Alþingis með þingflokksformönnum sem varpað getur ljósi í málið.

4. Með hve miklum fyrirvara er venjan að Alþingi afturkalli boð fulltrúa erlendra ríkja til Íslands og hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarfundinn á Þingvöllum, og þá með hve miklum fyrirvara svo sómi væri af?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283