Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Bjútíbloggari frá Kúveit mótmælir auknum rétti vistráðinna

$
0
0

Sondos Alqattan heitir 27 ára gamall instagrammari frá smáríkinu Kúveit við Persaflóa. Alqattan er með 2,3 milljón fylgjendur á miðlinum, þar sem hún gefur ráð varðandi förðun, tísku og skyld viðfangsefni. Myndband sem hún deildi í liðinni viku hefur valdið nokkru fjaðrafoki og leitt til þess að einhverjir styrktaraðila hennar hafa slitið samningum við Alqattan, þar á meðal farðaframleiðendurnir Max Factor og Chelsea Beautique og ilmvatnsframleiðandinn M. Micallef.

Vistráðnir fái einn frídag á viku

Í myndbandinu gagnrýndi Alqattan ný lög um réttindi erlends verkafólks í Kúveit, sem samkvæmt lögunum skulu meðal annars halda yfirráðum yfir vegabréfum sínum á ráðningartímanum og njóta að lágmarki eins frídags í viku. Gagnrýni Alqattan snerist um að hin nýju lög ná einnig til þjónustustarfsfólks á heimilum, svonefndra vistráðninga eins og það heitir í íslenskum lögum, en Alqattan er ein fjölmargra Kúveita sem nýtur góðs af húshjálp frá Filippseyjum á heimili sínu.

„Að hún (húshjálpin) fái frídag í hverri viku, það eru fjórir frídagar í mánuði. Þessa daga verður hún úti. Og við vitum ekki hvað hún hefur fyrir stafni þessa daga, með vegabréfið sitt á sér,“

sagði Alqattan í myndbandinu og hélt áfram:

„Hvernig geturðu haft húshjálp heima hjá þér sem heldur vegabréfinu sínu? Ef hún strýkur og fer aftur til heimalandsins, hver endurgreiðir mér þá? Ég kæri mig ekki lengur um filippeyska þjónustu.“

Í 4 milljón manna landinu Kúveit dvelja yfir 250.000 erlendir verkamenn, og eru um 60% þeirra talin starfa við aðstoð á heimilum vinnuveitenda sinna.

Alqattan stendur við ummælin og afstöðu sína, samkvæmt umfjöllun tímaritsins Vogue, og segist hafa rétt á að geyma vegabréf starfsfólks síns í sinni vörslu:

„Húshjálpin býr í húsinu eins og eigendur þess, borðar sama mat, sefur, hvílist og fer út að versla … þetta eru náttúruleg réttindi. Hún er ekki eins og þjónn sem vinnur fastan vinnutíma þannig að við getum gefið henni vikulegt leyfi.“

Engin krafa um frídaga í íslensku lögunum

Kerfið sem hefur verið við lýði í Kúveit til skráningar og eftirlits með erlendu verkafólki er hliðstætt þeim í Bahraín, Írak, Jórdaníu, Óman, Katar, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Kerfið nefnist Kafala, sem þýðir einnig ættleiðing eða fóstur: ráði heimili til dæmis húshjálp frá öðru landi hefur dvalarleyfi starfskraftsins verið alfarið háð vinnuveitandanum, og leiðir uppsögn til þess að manneskjunni má vísa úr landi.

Hliðstætt kerfi var við lýði á Íslandi fram til upphafs árs 2017, en með nýjum Lögum um útlendinga sem tóku gildi það ár gat erlent verkafólk í fyrsta sinn sagt upp störfum án þess að missa þar með umsvifalaust dvalarleyfi sitt.

Í nýju lögunum þó enn til staðar sérákvæði um „vistráðningar“, sem í daglegu tali nefnast Au-Pair. Í lögunum er vinnuframlag vistráðinna takmarkað við 30 klukkustundir á viku, en þar er ekki kveðið á um frídaga. Að því leyti virðist löggjöfin í Kúveit vera framsæknari en íslenska löggjöfin. Þá krefjast íslensku lögin ekki launagreiðslna til vistráðinna heldur er aðeins tilgreint að ráðherra geti ákveðið „vasapeninga“ hins vistráðna í reglugerð.

Vistráðnir á Íslandi fá ekki laun heldur „vasapening“

Í núgildandi reglugerð um útlendinga, sem sett er af ráðherra og getur tekið fyrirvaralausum breytingum, er þó krafist eins frídags í viku fyrir vistráðna, og einnar fríviku á hálfs árs fresti. Í þeirri viku er vistráðnum, samkvæmt reglugerðinni, heimilt að dvelja annars staðar en á heimili vinnuveitandans. Þá skal vinnuveitandi samkvæmt reglugerðinni greiða vistráðnum að lágmarki 15.000 krónur á viku eða 60.000 krónur á mánuði í „vasapening“ á mánuði, auk þess að greiða sjúkratryggingu starfskraftsins fyrsta hálfa árið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283