Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Af 21 keppnismyndum Feneyjahátíðarinnar er ein eftir kvenleikstjóra —aftur

$
0
0

Árið 2017 var kvikmyndahátíðin í Feneyjum gagnrýnd fyrir að aðeins einni af 21 kvikmyndum sem valdar voru í keppnisflokk hátíðarinnar var leikstýrt af konu. Nú þegar dagskrá hátíðarinnar í ár, 2018, hefur verið tilkynnt er komið í ljós að af 21 kvikmynd í keppni verður, aftur, alls ein í leikstjórn konu.

Nýr stjórnandi segir breytinga þörf —annars staðar

Samkvæmt frétt Hollywood Reporter bundu margir vonir við að nýr listrænn stjórnandi hátíðarinnar, Alberto Barbera, myndi fjölga kvikmyndum kvenleikstjóra í keppninni. Barbera svarar því til að það sé ekki hlutverk hátíðarinnar að breyta iðnaðinum.

„Að setja aðra kvikmynd í aðalkeppnina bara vegna þess að hún er frá konu væri, frá mínum sjónarhóli, mjög móðgandi fyrir leikstjórann“,

sagði hann í viðtali sem blaðið tók við hann í Róm og birtist á miðvikudag.

„Ég myndi heldur skipta um starf en láta þvinga mig til að velja kvikmynd aðeins vegna þess að hún er gerð af konu og ekki á grundvelli gæða myndarinnar sjálfrar.“

Barbera sagðist í ár hafa horft á 1.500 myndir sem bárust keppninni. Þar af hafi um þriðjungur verið frá kvenleikstjórum. „Auðvitað myndi ég vilja hafa fleiri konur á hátíðinni en það er ekki í mínum höndum,“ sagði hann. „Fyrr eða síðar,“ bætti hann við,

„munu allir átta sig á að kvenleikstjórar eru allt eins góðir og skapandi og karlkollegar þeirra. En það þarf að breytast á upphafsreit keðjunnar, ekki við endann, ekki með því að tryggja, til dæmis, að fjórðungur allra hátíðasýninga fari til kvenna.“

Barbera segir að veita þurfi konum sömu tækifæri í faginu og körlum eru veitt „og það er ekki í okkar höndum. Feneyjahátíðin getur ekkert gert í því. Það er ekki okkar að breyta stöðunni. Það væri of seint í kvikmyndagerðarferlinu.“

„Þröng og tiltekin skilgreining“ við mat á gæðum

Í umfjöllun Hollywood Reporter er Dr. Martha M. Lauzen fengin til andmæla, en hún er yfirmaður miðstöðvar um rannsóknir á sviði kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum við háskólann í San Diego. Hún segir val hátíðarinnar þjóna ríkjandi ástandi, dagskráin grundvallist á „þröngri og tiltekinni skilgreiningu á því hvað er mögnuð kvikmyndagerð“.

Kvikmyndahátíðin í Toronto fer fram á sama tíma og sú í Feneyjum, og mun þar birtast fjöldi kvikmynda eftir kvenleikstjóra, þar á meðal Claire Denis, Söru Colangelo, Nicole Holofcener, Elizabeth Chomko, Patriciu Rozema, Stellu Meghie, Marielle Heller, Nadine Labaki, Miu Hansen-Love og Evu Husson.

Sú kvikmynd kvenleikstjóra sem valin var til þátttöku í aðalkeppni Feneyjahátíðarinnar í ár heitir The Nightingale, eða Næturgalinn, eftir ástralska leikstjórann Jennifer Kent.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283