Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sundgarpar reyna Sæunnarsund yfir Önundarfjörð

$
0
0

Næstkomandi laugardag fer viðburðurinn Sæunnarsund fram við Önundarfjörð, þegar tíu sundgarpar koma saman við Flateyrarodda og leggja til sunds þvert yfir fjörðinn, að fjörunni við Valþjófsdal. Heiti viðburðarins vísar til afrekskýrinnar sem hét Harpa þegar hún lagði til sunds yfir fjörðinn haustið 1987 en steig á land sem Sæunn. BB greindi frá.

Segir í tilkynningu um viðburðinn að þeir sem reyni sig nú við afrek Sæunnar geri það þó ekki á jafnréttisgrundvelli, enda hafi Sæunn hvorki verið í sundgalla né með froskalappir, heldur klaufir á fjórum fótum „sem erfitt hefur verið að kreppa, beygja og svo fast saman“. Þaðan af síður gat hún gripið til skriðsunds eða flugsunds.

Við Önundarfjörð, 13. október 1987

Þann 13. október 1987 sleit kýrin Harpa sig lausa, flúði frá sláturhúsi á Flateyri, stökk yfir fiskikör, tók á rás niður að fjöru og synti yfir Önundarfjörð til baka á bæinn Kirkjuból II, hinu megin við fjörðinn, um tveggja kílómetra leið – með halann upp úr sjónum. Sundið tók hana um klukkustund.

Síðasta spölinn synti kýrin í fylgd björgunarsveitarmanna sem sigldu út á fjörðinn til að líta til með henni. Þegar hún steig á land gekk hún um kílómetra leið að bænum og inn í fjós, „létt í spori“ að því er sagt var.

Eigendur kýrinnar, Sigríður Magnúsdóttir og Steinar Björgmundsson, ákváðu að þyrma kúnni og senda hana ekki aftur í sláturhúsið, „fyrst hún vildi endilega koma til okkar“. Eftir afrekið var kúnni Hörpu gefið nýtt nafn: Sæunn. Hún lifði í sex ár að sundinu loknu, þegar hún var loks felld og heygð við sjávarkambinn þar sem hún kom að landi. Þar heitir síðan Sæunnarhaugur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283