Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sósíalistar vilja stoppa markaðsvæðingu félagslegra íbúða

$
0
0

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, lagði til í borgarráði að leiga innan Félagsbústaða yrði lækkuð niður í 48 þúsund krónur á mánuði, en leigan hefur hækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Hér fer rökstuðningur Sönnu:

„Markaðsvæðing Félagsbústaða hf. er staðreynd. Þrátt fyrir að leigan sé að jafnaði um 60-70% af leiguverði á almennum markaði, þá er það stefna félagsins að leigan þar taki mið af leigu á hinum villta okurmarkaði. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur t.a.m. bent á mikilvægi þess að tryggja tekjugrunn félagsins sem sé forsenda þess að félagið geti staðið við greiðsluskuldbindingar sínar og fjármagnað sig á markaði. Sá tekjugrunnur er fólkið sem leigir hjá Félagsbústöðum en félagið hefur engar aðrar tekjur. Þó að borgin muni leita annarra leiða til að fjármagna Félagsbústaði, þá stendur eftir sú staðreynd að leigan er vísitölubundin og margir innan félagslega leigukerfisins ráða ekki við leiguverðið eins og er vegna skerta kjara sem þeir búa við á lágum launum, bótum eða lífeyri.

Á borgarráðsfundi þann 6. september lagði ég fram tillögu um að leiga hjá Félagsbústöðum yrði lækkuð þannig að hún yrði aldrei hærri en 48.000 krónur á mánuði sem er 20% af ráðstöfunarfé einstaklinga á grunnlífeyri. Ef að einhver dæmi væru um að slíkt leiddi til hækkunar leigunnar, bæri að taka tillit til þess að viðkomandi ráði ekki við þá hækkun. Hugmyndin að baki þessarar tillögu var að leigan yrði í framhaldinu fastsett við þróun grunnlífeyri örorkubóta og eftirlauna og lægstu taxta verkalýðsfélaganna. Eðlilegur mælikvarði er að leiga hinna lægst launuðu og lífeyrisþega sé aldrei hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum þessara hópa en um 20%. Hin betur settu geta ef til vill greitt um þriðjung af ráðstöfunartekjum sínum en þau sem þurfa að lifa af lægstu launum og lífeyri ráða ekki við svo hátt hlutfall. Tillagan var því miður felld.

Félagsbústaðir er hannað fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Sökum þess ætti leigan að vera fasttengd við innkomu þessara einstaklinga en ekki háð duttlungum markaðsins. Hingað til hafa leigjendur verið varðir að einhverju leyti fyrir hækkun leigunnar með auknum húsnæðisstuðningi greiddum af borginni, það kerfi er þó háð ýmsum skilyrðum og skerðist auðveldlega við lítilvægar breytingar. Þar sem einstaklingum er í raun refsað ef tekjur þeirra hækka lítillega á milli mánaða, þó að engin varanleg jákvæð breyting hafi orðið á stöðu leigjandans. Dæmi um þetta er ef einstaklingur tekur að sér smávægis atvinnu til að reyna að auka innkomu sína um eitthvað lítilræði, þá skerðist húsnæðisstuðningur. Annað dæmi ef er uppkomið barn leigjenda býr tímabundið hjá foreldri og tekjur þess eru hafðar að viðmiðun við útrekning húsnæðisstuðnings. Þó að annar aðili dvelji í stuttan tíma í íbúðinni er þar með ekki sagt að staða leigjandans sé breytt til muna. Tekjumörk eru lág og allar skattskyldar tekjur eru teknar með inn í reikninginn.

Sérstakur húsnæðisstuðningur tryggir því ekki alla, þar sem litlir þættir geta leitt til lækkunar stuðningsins og einstaklingar finna sig í vítahring að leitast við að ráða við leigu og mæta kostnaði nauðþurfta. Með því að fastbinda leiguverðið við ráðstöfunartekjur, er verið að tryggja að íbúðir haldist á viðráðanlegu verði og þá er velferð leigjandans ekki háð niðursveiflum markaðsins og tekjutengingum. Leiguverð ætti að vera föst upphæð óháð staðsetningu íbúða, þar sem einstaklingur ætti t.d. ekki að þurfa að greiða aukalega fyrir að búa á staðsetningu sem markaðurinn lítur á sem eftirsóknarverðan, sérstaklega í ljósi þess að leigjendur hafa sjálfir lítið val um hvar þeir fá leiguíbúð úthlutað. Félagslegar íbúðir eiga að skapa rými utan markaðsins en ekki ganga inn í forsendur þess og aðlaga sig að því. Félagslega kerfið á að vera algjörlega aðskilið markaðsöflum og var þessi tillaga hugsuð sem fyrsti liður að því.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283