Málþing verður haldið 21. september hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um hvort dánaraðstoð og líknandi meðferð séu andstæður eða hluti af sama úrræði. Þessi umræða og skilgreining á mismunandi hugtökum er umræðuefni víðar en hér á landi.
Samtökin Dignitas í Sviss bjóða einstaklingum að taka eigið líf við tilteknar aðstæður og samkvæmt gögnum þeirra hafa einstaklingar af 91 þjóðerni fengið þjónustu samtakanna frá 1998-2017. Þessir einstaklingar komu frá mismunandi menningarsvæðum s.s. frá Japan, Króatíu, Ástralíu, Rússlandi, Taíland og Noregi, til að nefna bara nokkur lönd.
Síðla árs 2012 framkvæmdi könnunar- og rannsóknafyrirtækið ISOPUBLIC könnun fyrir samtök svissneskra lögfræðinga (SMLA) og var hún lögð fyrir í tólf Evrópulöndum þar sem spurt var um sjálfsákvörðunarrétt við lífslok.
Spurt var m.a.: „Telur þú að einstaklingur eigi að ákveða sjálfur hvort hann vilji deyja og á hvern hátt?“
Meirihluti í öllum ríkjunum 12 var því sammála að einstaklingur eigi að ákvarða um eigin lífslok. Grikkir voru minnst jákvæðir því að einstaklingurinn ætti að fá að ráða en 52% voru því sammála en 37% voru því andvígir.
Stuðningur við sjálfsákvörðunarréttinn var mjög afgerandi í Skandinavíu og voru 71-76% svarenda sammála en 17-21% andvígir. Mestur stuðningur mældist í Þýsklandi, þar sem 87% voru sammála, og á Spáni, þar sem 85% voru því fylgjandi.
Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Siðmennt árið 201 studdu 75% Íslendinga sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins í málinu.
Víða fer fram umræða um líknarmeðferð og að lögleiða dánaraðstoð en í dag er hún heimil í fimm löndum: Kólumbíu, Kanada, Hollandi, Belgíu og Lúxemborg. Aðstoð við að taka eigið líf er lögleg í Sviss og í sex ríkjum Bandaríkjanna en þau eru Oregon, Washington, Colorado, Vermont, Hawaii og Kaliforníu.
Víða í ríkjum sem ekki hafa lögleitt dánaraðstoð eru mörkin á milli líknarmeðferðar og dánaraðstoðar óljós og dómskerfið lætur það ógert að taka á málum.
Það er rétt að minna á að í Hollandi, þar sem dánaraðstoð var samþykkt árið 2002, voru það læknar og dómskerfið sem þrýstu á um að dánaraðstoð yrði lögleidd. Dánaraðstoð var framkvæmd þrátt fyrir að það bryti gegn lögum og ákváðu nokkrir læknar að leggja inn kæru á gjörðir sínar. Dómskerfið dæmdi á þann hátt að læknarnir hlutu mjög væga refsingu en dómarnir voru hins vegar krafa til stjórnmálamanna um að taka á málinu á efnislegan hátt. Það leiddi til þess að Holland var fyrst landa í heiminum til að lögleiða dánaraðstoð.
“Viðurkenning dauðans sem óhjákvæmilegrar niðurstöðu er erfitt að samþykkja í framúrskarandi heilbrigðiskerfi sem hefur það að markmiði að bjóða lækna og endurhæfa. Þegar litið er á dauðann sem mistök frekar en sem óhjákvæmilegan og náttúrulegan viðburð, verður erfitt að hætta læknisfræðilegri þjónustu og bjóða sjúklingum og aðstandendum í staðinn líkamlegan og andlegan stuðning.“ Þannig eru upphafsorð skýrslu Evrópuþingsins um líknarmeðferð í Evrópusambandinu (http://www.comece.eu/dl/KNrtJKJOONkJqx4KJK/PalliativeCARE_FR.pdf)
Liknarmeðferð er frekar nýlegt hugtak og hefur meðferðin þróast frá u.þ.b. 1970. Í skýrslunni er því velt upp hvort réttlætanlegt sé að gefa morfín eða sambærilegt lyf sem ekki aðeins er til þess að minnka þjánngu heldur einnig til að flýta andláti. Hvenær lýkur líknarmeðferð og hvenær verður dánaraðstoð raunveruleikinn? Skýrsluhöfundar telja að í raun sé oft um að ræða dánaraðstoð þegar rætt er um líknarmeðferð.
Spurningar eru margar og svörin ekki einföld og því er umræðan mikilvæg og nauðsynleg. Það þarf að vera vel skilgreint hvað felst í líknarmeðferð. Það þarf einnig að vera skýrt hvenær meðferð er lokið og aðstoð við að deyja tekur við. Mikilvæg spurning í því sambandi er: hver ræður för. Er það læknirinn? Fjölskyldan? Eða einstaklingurinn sem er að deyja?
Sylviane Lecoultre, stjórnarmaður í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð