Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Áunninn athyglisbrestur

$
0
0

Þegar yngri sonurinn hóf háskólanám lýsti hann því blákalt yfir hann væri haldinn áunnum athyglisbresti. Ég efast um að til sé kóðanúmer fyrir þessa röskun í ICD-10 eða DSM 5 en drengurinn útskýrði röskunina á þá leið að hann væri orðinn svo háður því að brúka snjallsíma og fartölvur að hann gæti ekki lesið langa texta. Sem þarf þá maður stundar háskólanám. (Raunar kom mér á óvart að hann skyldi hafa sloppið gegnum framhaldsskóla án þess að lesa bók en það er annar handleggur – ég kenndi honum ekki sjálf.)

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa krankleika síðan og verð æ vissari um að mjög margt ungt fólk sé haldið áunnum athyglisbresti, er raunar ekki frá því að sjálf hafi ég snert af kvillanum öðru hvoru og er þó öfugu megin við miðaldra.

Þegar fólk venur sig á að vera sífellt að tékka á Facebook, fylgjast með sleitulausu tísti á Twitter, hlusta á meðan á tónlist í sínum eyrnafíkjum, senda eina og eina mynd á Instagram, kíkja á fyndin myndbönd á YouTube, skanna fyrirsagnir með tröllaletri á helstu slúður-vefmiðlum til að missa nú ekki af neinu og vera í leiðinni að læra með hjálp Google og skima vefsíður í stað þess að lesa þær … tja slíkt ýtir ekki beinlínis undir hæfileikann til að sökkva sér ofan í eitthvert sæmilega bitastætt efni, jafnvel torskilinn texta eða torskilda stærðfræði.

Allir kennarar kannast við hve erfitt er að fá nemendur til að leggja frá sér ástkæru snjallsímana sína í kennslustundum: Það er eins og verið sé að slíta úr þeim hjartað að heimta að síminn sé settur ofan í tösku! Og þetta er svo sem skiljanlegt: Í heilli kennslustund gæti nemandinn misst af alls konar SMS-um, spennandi Fb. skilaboðum, ógeðslega fyndnum Snapchat myndum o.s.fr. Á meðan er kannski kennarinn með hundleiðinlega glærusýningu, kannski fimmta PowerPoint sjóið sem nemandi sér þann daginn, og glærusýningin verður hvort sem er sett inn á innrakerfið og kennarinn mun hvort sem leggja glósur úr öllu námsefninu inn á sama kerfi og þetta mun hvort sem duga til að hraðlæra nógu vel nóttina fyrir prófið til að ná því: Svo til hvers að lesa bókina? Og af hverju má maður ekki hafa símann sinn við höndina?

snjallsimar

Lausn frelsaðra frumkvöðla í skólakerfinu nú til dags er að „koma til móts við nemendur nútímans‟, þ.e.a.s. útbúa kennsluefnið á YouTube, niðursjóða námsefnið í æ styttri glósur á tölvutæku formi eða hraðendursagnir á einhverju menningarlegu, s.s. leikritum Shakespeare eða Njálu, afhenda grunnskólakrökkum I-pad og hvetja til að leikskólabörn brúki þess háttar græju líka, þykir gott ef þau byrja tveggja ára eða yngri.

ipad_barn

Flottar skýrslur um að þetta auki sjálfstæði í námi birtast; þegar frændur vorir Danir eru uggandi yfir hve I-pad tilraunakrakkarnir þeirra mælast með allt niðrum sig í Pisa benda Íslendingar kokhraustir á að Pisa-prófin mæli einfaldlega ekki réttu hlutina og halda ótrauðir áfram á sinni snjallbraut, með snjallsíma og snjalltölvur. Og því er flaggað að kennarar sem ætlast til að nemendur lesi eða reikni eða læri í kennslustundum séu gamaldags einstefnumiðlarar sem séu löngu dottnir úr móð án þess að fatta það sjálfir. Þeir kennarar sem ætlast til heimanáms eru nátttröll.

Árangurinn af öllu þessu snjalla og netvædda er að krakkar læra snifsi hér og snifsi þar en hafa engan grunn til að standa á, ekkert bitastætt til að tengja við, þekkingarmolarnir svífa í lausu lofti.

Og þegar þeir loksins komast ekki hjá því að lesa heila bók uppgötva þeir sér til skelfingar  að þeir eru komnir með áunninn athyglisbrest: Texti sem er lengri en ein skjáfylli verður þeim ofviða.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283