Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Prjón og hönnunarstuldur

$
0
0

Hér segir af fyrsta nafngreinda prjónakennaranum á Íslandi og af fyrsta fyrirhugaða prjónahönnunarstuldinum hérlendis.

Gytha Steffensen Howitz fæddist árið 1782 í Lundbyvester á Amager og var dóttir gestgjafa/kráareiganda. Hún giftist Þórði Thorlacius 1801 og sama ár héldu þau til Íslands þar sem Þórður varð sýslumaður í Suður-Múlasýslu. Gytha og Þórður bjuggu lengstum á Eskifirði og nágrenni en fluttust aftur til Danmerkur árið 1815.

gytha

Gytha Thorlacius

Á gamals aldri skrifaði Gytha Thorlacius endurminningar sínar frá Íslandi. Því miður er frumritið glatað en tengdasonur hennar sá um að hluti endurminninganna væri gefinn út árið 1845, stytti sjálfur frásögn Gythu eftir sínu höfði og umorðaði víða. Bókin heitir Fru Th.s erindringer fra Iisland og er aðgengileg á Vefnum (hér er krækt í þá útgáfu). Hún var endurútgefin árið 1930 og sú útgáfa kom út í íslenskri þýðingu árið 1947: Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815.

Hér verður einungis staldrað við þann hluta endurminninganna þar sem segir frá því hvernig Gytha kenndi Íslendingum að prjóna fallegt prjónles í litum, ganga þannig frá því að það líktist ofnu klæði, og að prjóna klukkuprjón. Klukkuprjónskunnátta hér á landi er yfirleitt rakin til hennar og mögulega náði önnur kennsla hennar í prjóni einhverri útbreiðslu. Á móti kenndu íslenskir henni sitthvað í litun garns.

Sem sést af textanum hér að neðan var Gytha að reyna að finna aðferðir til að prjónles líktist vaðmáli/ofnu klæði, sem er skiljanlegt í ljósi þess að það er miklu seinlegra að vefa en að prjóna. Ég giska á að hún hafi verið að reyna að ná áferð vormeldúks/ormeldúks sem var mikið notaður í fatagerð á nítjándu öld. Miðað við ýmsar heimildir hafa Austfirðingar einmitt staðið framarlega í vormeldúksvefnaði allt frá miðri nítjándu öld og e.t.v. hafa þeir vel kunnað þá list á dögum Gythu.

Vormeldúkur

Vormeldúkur

En vindum okkur í frásögn Gythu sjálfrar. Líklega gerist þessi hluti einhvern tíma á árunum 1807-1813. Hér er textinn í þýðingu Sigurjóns Jónssonar læknis (s. 108-109 í íslensku þýðingunni frá 1947) birtur. Athugasemdir innan hornklofa eru mínar. Ég hef einnig sett inn millifyrirsagnir og skipt textanum í efnisgreinar.

 

Heimilisiðja Gythu Thorlacius

Frú Th. segir líka þarna nokkuð frá vinnubrögðum sínum, bæði um þetta leyti og á fyrri árum. Hún kenndi Íslendingum „patentprjón‟ og fleiri prjónaðferðir. [Í neðanmálsgrein segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. aftan við útg. frá 1930 segir, að prjónles prjónað með þessum hætti sé þykkra og líkara dúk en venjulegt prjónles. Ef til vill er þetta sama sem klukkuprjón eða enskt prjón.“ Patenstrikning er danska heitið á klukkuprjóni, sem kann einnig að hafa verið kallað enskt prjón hér á landi. Klukkuprjón líkist dúk/ofnu klæði ekki hið minnsta.]

Hvernig láta má prjónles líkjast ofnu klæði

Mig vanhagaði um vestisefni. [Í frumtextanum talar Gytha um betri klæði, líklega spariföt, en minnist ekki á vesti.] En þegar mjúkt þelband var prjónað með röndum og prjónlesið þæft og fergt, sýndist mér það vera útlits eins og klæði. Ég gerði þetta, prjónaði rendur með litum, er vel áttu við á svörtum eða gráum grunni, þæfði, kembdi [ýfði] og fergði. Öllum þótti þetta efni nytsamlegt og dáindis fallegt. Ég gaf nokkuð af því, til þess að koma skriði á þessi vinnubrögð.‟

Kennsla í klukkuprjónuðum teppum

Nóg var til af ull [sem kemur heim og saman við það sem allar prjónakonur vita, nefnilega að klukkuprjón er miklu garnfrekara en venjulegt slétt og brugðið prjón] á heimilinu og lét því frúin vinnufólk sitt líka prjóna „patenprjón‟ með fábreyttum litum. Þetta prjónles var líka þæft og fergt og búnar til gólfábreiður úr því grófara, en rúmábreiður úr því, sem fíngerðara var. „Við þurfum ekki að nota neitt til fatnaðar á heimilinu‟, ritar frúin, „annað en heimaunnið efni, nema í frakka handa manninum mínum‟.

Áformaður hönnunarstuldur

Þegar sýslumaður var í þann veginn að leggja af stað til hins nýja embættis síns [sýslumannsembættis í Árnessýslu, um áramótin 1813/14], stakk hann upp á því við konu sína, að hún skyldi láta sig útvega yfirlýsingu embættismanna og verzlunarmanna á Eskifirði og þar í nágrenninu um það, að hún hefði orðið fyrst til þess að taka þar upp prjónaðferðir þær, sem áður er getið. En hún bað hann að gera það ekki, því hún vildi ógjarna vekja öfund annarra né gefa neinum tilefni til að ætla, að sig langaði til að fá meðmæli til að öðlast verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu [danska] í þriðja sinn.

Samt atvikaðist það svo, að hún féllst seinna á tillögu manns síns. Hún hafði nefnilega gefið hjónum nokkrum sína flíkina með hverri gerð af því, er hún hafði unnið. En hún varð þess aldrei vör, að þessar gjafaflíkur væru notaðar, en aftur á móti sá hún notaðar flíkur, sem voru stæling á þeim. Einkanlega furðaði hún sig á því að sjá aldrei yfirhöfn úr fínu, brúnu ullarbandi, sem var prjónuð handa 7 ára gamalli telpu og svo vel frá gengið að allir héldu, að yfirhöfnin væri úr klæði.

Hún lét í ljós undrun sína við kaupmannskonu eina, en hún svaraði brosandi: „Þér eruð á förum héðan, og það eru hjónin líka – til Kaupmannahafnar. Ég er viss um að hjónin ætla að senda flíkurnar frá yður til Landbúnaðarfélagsins, því þau eru samvalin í því, að langa til að skreyta sig með annarra verðleikum.‟

Þetta olli því, að frúin bað mann sinn seinna að æskja yfirlýsingar þeirrar, sem ofar getur. Undir hana skrifuðu presturinn, hreppstjórinn og kaupmenn og verzlunarstjórar á Eskifirði. Meðal þeirra var maðurinn, sem hafði flíkurnar frá frúnni í vörzlum sínum, og gerði hann það mjög fúslega. Yfirlýsingu þessa geymdi frúin, en notaði hana aldrei.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283