Ég hef legið í dvala undanfarið að því leyti að ég hef bara verið að lesa en ekkert verið að deila neinu um lesturinn á veraldarvefnum. Fyrir utan að hafa ekki fengið yfir mig andagiftina til að skrifa þá gæti það hugsanlega hafa haft einhver áhrif að ég prófaði um daginn hinn sívinsæla kúr (já, ég kalla þetta kúr, ekki lífsstíl) 5:2, og hef því haft nægan tíma á mánudögum og miðvikudögum til lesturs enda voru það mínir föstu-dagar. Settist semsagt bara niður með bók þegar mig langaði að borða og þótt kúrinn hafi ekki hentað mér, virkaði þetta alveg dæmalaust vel fyrir lesturinn og ég komst yfir fjölmargar bækur á þessum tíma.
En já, þetta er reyndar ekki pistill um baráttu mína við aukakílóin. Í þessari lestrartörn undanfarna daga las ég hins vegar nokkrar bækur sem ég varð algjörlega hugfangin af og gat ekki annað en sest niður til að skrifa um tvær þeirra.
Ég er vön að lesa aðallega það sem er nýkomið út en um daginn stóð ég hreinlega frammi fyrir því að vera búin að lesa það sem mig langaði af nýrri titlum og varð því að leita í aðeins eldri bækur. Einhver benti mér á að ég yrði að lesa Lars Kepler. Ég náði mér því í nýjustu bókina af þeim fjórum sem komnar eru út eftir kappann. Ég byrjaði að lesa og vissi í raun ekkert út í hvað ég var að fara, satt að segja var ég frekar skeptískt á þessa bók og nokkuð viss um að þetta væri nú ekki alveg minn tebolli. Þar gæti ég ekki hafa haft meira rangt fyrir mér.
Sandmaðurinn er fjórða bókin sem þýdd er á íslensku eftir þessi hjón sem skrifa saman undir nafninu Lars Kepler. Af einhverjum ástæðum hafa þessar bækur algjörlega farið framhjá mér.Reyndar er það alls ekki endilega slæmt því það er jú alltaf gaman að uppgötva nýjan höfund sem höfðar til manns og nær strax á fyrstu blaðsíðunum að halda manni í heljargreipum út lesturinn.
Ungur maður finnst fárveikur á rölti um járnbrautateina í Stokkhólmi. Hann og systir hans hurfu mörgum árum áður og búið er að lýsa þau bæði látin fyrir sjö árum. Löggan í sögunni er sannfærð um hver stendur á bak við hvarfið en sá maður hefur verið í fangelsi í 13 ár. Þetta er því allt hið dularfyllsta.
Við fylgjumst með leitinni að systurinni og í leiðinni fáum við að skyggnast inn í fangelsið þar sem raðmorðinginn er í einangrun …
Meira vil ég ekki segja um söguþráðinn þar sem það gæti jafnvel skemmt fyrir. En sem meðmæli með bókinni get ég þó sagt að ég er algjör A-týpa, yfirleitt komin í háttinn fyrir klukkan 23.00 og vil bara fá minn átta tíma svefn. Ég les heilmikið en læt það þó yfirleitt ekki bitna á svefntímanum. Kvöldið sem ég fór með þessa bók í bólið vakti ég til klukkan að verða 2.00 og tók ekki einu sinni eftir því hvað tímanum leið.
Daginn eftir mætti ég til vinnu í bókabúðina mína og nældi mér í eintak af næstu bók á undan.
Góðan daginn! Eldvitnið er sko engu minna spennandi en Sandmaðurinn! Hún gerist á geðveikrahæli unglingsstúlkna þar sem ein stúlknanna og starfsmaður hælisins eru myrt. Joona Lind – löggan í bókunum gengur í málið og klisjan um að ekki sé allt sem sýnist er sannarlega rétt í þessu tilviki. Eldvitnið, rétt eins og Sandmaðurinn, heldur manni allan tímann við efnið. Hún er að mínu mati örlítið hægari en Sandmaðurinn en á engan hátt síðri þrátt fyrir það.
Einhverjir gætu hugsanlega velt því fyrir sér hvort ég væri ekki að gera vitleysu með því að byrja á „röngum“ enda en þar sem hver bók virðist algerlega sjálfstæð saga hefur það ekkert truflað mig hingað til. Sjálf er ég líka þrælöfug svo þetta á bara vel við…;)
Að lokum segi ég bara eins og sex ára sonur minn: „Ertu ekki að grínast hvað þetta eru spennandi bækur, maður!“