Að meðaltali myndi ég segja að ég læsi svona eina til tvær bækur á viku, sem telst eflaust bara nokkuð gott. Eins og Íslendingi sæmir þá er ég meðal annars mikið fyrir spennusögur, framhaldssögur af misáhugaverðu löggufólki og vonda fólkinu sem þeir/þau eltast við.
Ég tek tarnir þar sem ég les alveg 3-5 spennusögur í röð, jafnvel eftir sama höfundinn, en þegar komið er á fimmtu bók þá fer ég yfirleitt að fá nóg. Nóg af blóðinu, morðunum, illskunni og spennunni. Ég er með lítið hjarta og þoli ekki of mikið af ógeði í einu. Þá langar mig bara að lesa eitthvað léttmeti sem er fallegt og gott. Eitthvað sem gefur aðeins til baka í sálina og jafnvel eitthvað sem ég get hlegið að.
Þá koma Chic-Lit bækur sterkar inn, eða skvísubækur eins og þær hafa verið kallaðar á því ylhýra. Fyrsta íslenska skvísubókin sem ég las var Dís. Sú bók kom út árið 2000 og var skrifuð af vinkonunum Birnu Önnu Björnsdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Silju Hauksdóttur og ég gleymi ekki að þegar ég las þá bók fannst mér ég hreinlega vera Dís á meðan. Ég veit ekki hversu oft ég skellti uppúr í miðjum lestri og táraðist inn á milli.
Sumum er illa við að einskorða bækur sem þessar við einhvern ákveðin flokk eða kenna hann við einhvern einn ákveðinn hóp af konum. Ég er þó ekkert endilega sammála því. Chic-Lit bækur eru með söluhærri bókaflokkum erlendis þegar vel er gert. Það þarf ekkert að þýða að sá sem ekki telur sig skvísu megi eða geti ekki lesið bækur í þessum flokki og haft gaman af. Ég myndi til dæmis ekkert endilega telja mig vera mikla skvísu en mér finnst skemmtilegt að lesa um stelpur og er ekkert ein um það. Mér finnast bækur í þessum flokki til dæmis flestar eiga það sameiginlegt að vera jákvæðar og skemmtilegar og að mínu mati getur það seint talist slæmt að tilheyra jákvæða flokknum.
Ein af þeim bókum sem auðveldlega falla undir þennan flokk, og varla hefur farið fram hjá neinum, er nýútkomna bókin 20 tilefni til dagdrykkju eftir Tobbu Marinós. Hér er á ferðinni bók sem fékk mig bæði til að hlægja og tárast og var í alla staði mjög hress og skemmtileg. Tobba Marinós er ekkert að stefna á Íslensku bókmenntaverðlaunin en ég hlakkaði mikið til að lesa þessa bók eftir allan spennubókalesturinn því mig langaði ekki að lesa meira ljótt.
Einhversstaðar las ég að það væri ekki nógu mikið kjöt á beinunum í þessari bók. En hvað er kjöt á beinunum? Þarf einhver að vera drepinn eða eiga hræðilega æsku til að það sé kjöt á beinunum? Þarf ævisaga að vera yfirfull af pólitík eða ástarsaga að enda með sorg og harmi til að það sé kjöt á beinunum? Er ekki bara hressandi tilbreyting að lesa um manneskju sem kann að sjá það skoplega við lífið, lendir í allskyns ævintýrum, er almennt bara ánægð með tilveruna og brosir framan í heiminn? Er það eitthvað innihaldsminna eða ómerkilegra líf? Má ekki segja hversdagslegar örsögur sem langflestir geta tengt við á einn eða annan hátt?
Mér fannst þessi bók hin fínasta lesning og hafði virkilega gaman að henni. Við þurfum ekki öll að vera að drepast úr alvarleika til þess að gera góða hluti. Tobba er flott fyrirmynd og mjög töff týpa að mínu mati, hún virðist ekkert vera að leika neitt hlutverk, heldur er bara sú sem hún er, sama hvort sem það er út á við eða heima hjá sér. Það að vera sátt í eigin skinni er eitthvað sem við ættum fleiri að hafa að markmiði og taka Tobbu og glaðlegt viðhorf hennar til tilverunnar okkur til fyrirmyndar.
Bókin Þessi týpa er sjálfstætt framhald bókarinnar Ekki þessi týpa sem kom út í fyrra. Þessi týpa er ótrúlega vönduð Chic-Lit bók. Björgu Magnúsdóttur tekst hér virkilega vel að blanda saman gríni og alvöru og hefur að mínu mati þroskast heilmikið frá því að fyrri bókin kom út. Mér fannst ákveðinn biturleiki og neikvæðni í garð karlmanna einkenna þá fyrri en þessi bók er með allt öðru sniði og yfirbragð hennar á margan hátt léttara þó hún tækli líka verulega erfið mál.
Bókin er þó langt frá því að vera eitthvað innihaldslaust léttmeti. Í Þessi týpa er sagt frá fjórum ótrúlega ólíkum vinkonum og í henni blandast saman alvara, skemmtun, grín og erfiðleikar. Ég held að flestar konur ættu að geta tengt við allavega eina úr þessum hópi kvenna og eflaust sumir við fleiri en eina eða einhverskonar sambland þeirra. Hver kafli í bókinni er nefndur eftir þeirri vinkonu sem á orðið en það gerir það að verkum að við fáum að upplifa sömu atburðarás sögunnar frá mörgum hliðum og með mismunandi áherslum. Hver þessara vinkvenna á sína eigin sögu innan bókarinnar en þær ná að fléttast saman á virkilega skemmtilegan hátt og mynda frábæra heild.
Inga fær bónorð frá fullkomna kærastanum og tekur sér frí frá vinnu til að skipuleggja hina fullkomnu veislu. Tinna segir upp starfi sínu hjá Þjóðminjasafninu og stofnar veftímarit . Bryndís fær skeyti frá fyrrverandi kærasta um að taka aftur saman og Regína er jafn mikið á móti fyrrverandi kærasta Bryndísar eins og núverandi kærustu pabba síns. Í gegnum þetta allt takast þær síðan í sameiningu á við hræðilegan atburð, og mikilvægi þess að eiga sterkt bakland og trausta vini þegar á reynir kemur skýrt í ljós. Um leið sendir höfundur gríðarlega mikilvæg skilaboð til lesandans, hvort heldur sem hann er kvenkyns eða karlkyns.
Að lokum get ég því ekki annað sagt en áfram stelpur að skrifa bækur – sama hvort það er undir hatti Chic-Lit skvísubóka eða ekki. Ég mæli allavega eindregið með þessum tveimur stelpum og bókunum þeirra.