Þórdís Sveinsdóttir skrifar.
Þessi grein er hugsuð sem innlegg í umræðu um kynlífsvinnu (e. sex work) og og hvar þessi starfsgrein passar inn í femíníska hugmyndafræði. Hugmyndin kviknaði við twitter lestur og umræður um kynlífsvinnu milli vændiskvenna, klámleikara og feminista.
Ég kenndi nokkur misseri fjölmiðlafræði við Sheffield Hallam Háskóla í Bretlandi og kynntist þá Feona Attwood prófessor í kynlífsfjölmiðlafræði (e. sex media studies). Hún var þá að vinna við stofnun akademíska tímaritsins Porn Studies ásamt Clarissa Smith sem er prófessor í kynlífsmenningum (e. sexual cultures) og kennir við Sunderland University. Þessi kynni leiddu til þess að ég hóf að kynna mér klámfræði (e. porn studies), sem er áhugavert fag sem skoðar og greinir klám líkt og annað fjölmiðlaefni. Klámfræðin eru tiltölulega ný og er hart deilt um tilvistarrétt þeirra innan bresku akademíunnar eins og sjá má í þessarri grein sem birtist í The Guardian.
Til að kynna mér þessar deilur betur bætti ég við Twitter listann minn klámfræðingum og fólki sem hafði eitthvað til málanna að leggja og birtist í Twitter samræðum hér og þar. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að á twitterlistann minn var komið ágætist safn af klámleikurum og vændiskonum[1] (e. Sex workers). Umræðurnar eru oft býsna fjörugar en það sem kom mér á óvart er hversu feminískar þær eru á stundum og hugtök eins og, vald, formgerð, menning, sjálfsmynd og þöggun koma oft fyrir, og þá sérstaklega hjá vændiskonunum. Margar þeirra nota Twitter[2] í þeim tilgangi að vekja athygli á stöðu sinni sem jaðarhóps, deila um lagasetningar, gagnrýna birtingarmynd vændiskvenna í fjölmiðlum og síðast en ekki síst til að deila upplifun sinni af því viðmóti sem þær mæta úti í samfélaginu sem þær segja einkennast af óvild í garða vændiskvenna (e.whorephobia). Ég verð að viðurkenna að þessar samræður komu mér á óvart, af því að ég leiði sjaldan hugann að vændi, en þetta er einn af skemmtilegum eiginleikum Twitter – að geta opnað fyrir manni nýjan heim.
Það sem vekur strax athygli er að flestar þessara kvenna upplifa að mesta og óvægnasta gagnrýnin kemur frá fólki sem skilgreinir sig sem femínista. Það finnst þeim skjóta skökku við þar sem þeim finnst að femínsmi eigi meðal annars að rétta hlut kvenna óháð starfsvali eða lífsstíl.
Harðastar eru deilurnar þegar farið er að ræða lagasetningu í kringum kynlífsvinnu og eru aðalpunktarnir reifaðir hérna:
Vændiskonur eru mjög ósáttar við að öll umræða um lagasetninu og starfsumhverfi þeirra fer fram án þátttöku þeirra sjálfra. Í þeim fáu tilfellum þar sem þeim er boðið að taka þátt er talað yfir þær, eða þær eru beittar þöggunaraðferðum svo sem eins og að vísað er til þeirra sem fórnarlamba feðraveldisins sem geti ekki talað á eigin forsendum. Það er einnig reynt að þagga niður í þeim með því að vísa til þess að saga þeirra hverrar um sig sé einstök og þær geti því ekki talað fyrir hönd heildarinnar. Oft er talað um þær sem manneskjur sem þurfi að bjarga og litið á þær sem fórnalömb sem viti ekki hvað þær eru að segja eða hvað sé þeim fyrir bestu.
Þær eru einnig ósáttar við hversu málefnum sem varða kynlífsþrælkun og mansal sé skeytt saman við þeirra vinnu, sem er þeirra val og byggir á samskiptum milli tveggja (eða fleiri) lögráða einstaklinga. Í þeirra tilvikum á engin þvingun sér stað og þær velja og hafna viðskiptavinum. Þær benda á að lagarammi sé nú þegar til utan um mansal og kynlífsþrælkun og afnám laga (e.decriminalisation) í kringum vændi muni ekki breyta því.
Þær eru ósáttar við sænsku leiðina svo kölluðu, og segja að hún vegi að öryggi vændiskvenna á margvíslegan hátt. Til dæmis geta tvær vændiskonur ekki leigt saman, þar sem það sé þá rekstur á vændishúsi. Þessi leið gerir þeim einnig erfiðara fyrir að krefjast upplýsinga um viðskiptavini áður en vinna hefst og ef viðskiptavinir ráðast á þær eða ógna þeim á einhvern hátt gerir það að verkum að erfiðara er að finna þá. Fyrir þær vændiskonur sem vinna á götum úti (e.streetwalkers) gerir sænska leiðin þeim erfiðara fyrir að ræða við viðskipavini áður en þær stíga upp í bílinn af því að þeir eru að flýta sér til að forðast mögulega handöku. Þær benda á að sænska leiðin færi vændi niður í undirheimana, sem geri það að verkum að það vændi sem byggist á mansali sér erfiðara að finna og uppræta.
Þær kvarta undan því að vinna þeirra sé oft smættuð niður í launaða nauðgun af femínistum og álitsgjöfum. Þær sjálfar segja að upplýst samþykki (e. informed consent) sé lykilatriði í þeirra starfi og án þess neiti þær að vinna með viðskiptavinum.
Þær segja vændiskvennaóvild vera samfélagslegt vandamál þar sem starf þeirra sé skrumskælt, gert sé grín að þeim sem leiðir til þess að ofbeldi gagnvart þeim sé samþykkt. Þessi stimplun leiði til þess að ekki sé tekið mark á þeim þegar þær leita læknis vegna veikinda eða til lögreglu vegna glæpa sem eru framdir gagnvart þeim. Nýlegt dæmi um óvild í garð fólks sem vinnur í kynlífsiðnaðinum er lokun á fjáröflun vina Eden Alexander, sem er bandarísk klámleikkona, sem sett var upp til að hjálpa henni við að greiða sjúkrahúsgjöld eftir mikil veikindi. Söfnuninni var lokað af fyrirtækinu WePay vegna starfs hennar. Þetta vakti mikla athygli á twitter og eftir herferð twitternotenda og greinarskrif, var opnað fyrir söfnunina á ný. Einnig eru dæmi um að bankar loki reikningum starfsfólks í þessum geira og neiti að eiga við þau viðskipti.
Það sem vændiskonur vilja er að fá að skipuleggja starfsumhverfi sitt sjálfar og að starfsval þeirra verði samþykkt af samfélaginu. Hvað varðar lagasetningar um vændi vilja þær að rödd þeirra heyrist og að reynsla þeirra af kynlífsvinnu verði notuð til að byggja upp öruggan kynlífsiðnað fyrir þær sem þar vilja starfa.
Femínismi hefur um áratugaskeið verið baráttutæki fyrir konur, jaðar- og minnihlutahópa sem hafa átt undir högg að sækja. Getur hann ekki líka rúmað vændiskonur og fólk sem starfar sjálfviljugt í kynlífsiðnaðinum?
[1] Ég vísa hérna til vændiskvenna sem íslensku þýðingarinnar af sex worker. Rétt er að karlar og konur vinna í þessum geira og því eru hugmyndir að íslensku hugtaki vel þegnar.
[2] Áhugaverð twittertögg fyrir þau sem vilja skoða sjónarmið vændiskvenna á Twitter eru: #whenantisattack, #notyourrescueproject og #whorephobia