Ég gerði sítrónufrómas fyrr í vikunni, nefndi það á Facebook og mætti svo með frómasinn í vinnuna og viðtökurnar á báðum stöðum – ja, urðu til þess að ég lofaði að koma með uppskriftina við fyrsta tækifæri. Sem er núna, svo að bara gjörsvovel (eða svo ég orði það upp á hundrað ára gamla dönskuskotna reykvísku, sem er viðeigandi því sitrónufrómas er danskættaður desert: gjörið svo vel og verið veskú).
Maður byrjar á að taka fjögur matarlímsblöð. Ég veit að margir eru smeykir við að nota matarlím, halda að það sé eitthvað flókið eða vandasamt. Og jú, það getur svosem alveg verið það, ég klúðraði til dæmis rojallí í fyrsta skipti sem ég notaði matarlím – en þetta hér er rosalega einfalt. Treystið mér.
Ég byrjaði á að leggja matarlímsblöðin í bleyti í nokkrar mínútur, lét kalt vatn renna í glas, rúllaði blöðunum upp og stakk þeim ofan í. Best að passa vel að vatnið sé kalt, eða allavega ekki volgt. Einu sinni skrúfaði ég frá krananum, lét vatn renna beint í glas, stakk blöðunum ofan í og þau bráðnuðu saman við, sem var ekki meiningin. Ég hafði vissulega skrúfað frá kalda krananum en athugaði ekki að það var nýbúið að renna heitt vatn í vaskinn drjúga stund og því hafði vatnið sem stóð í köldu pípunni og kom fyrst úr krananum hitnað og var yfir því marki sem þarf til að bræða matarlímið (eitthvað rúmlega 30°C). Eftir það hef ég alltaf passað mig að láta kalda vatnið buna aðeins og fullvissa mig um að það sé kalt.
Svo tók ég til annað hráefni – 3 egg, 75 g sykur, 250 ml af rjóma og 1 sítrónu. Byrjaði á að aðskilja eggin. Setti svo hvíturnar í hrærivélarskálina og stífþeytti þær, það tók um 2 mínútur.
Ég setti hvíturnar yfir í aðra skál og stífþeytti svo rjómann. Tók hann líka úr hrærivélarskálinni og setti yfir í aðra skál (ekki með hvítunum sko).
Svo tók ég sítrónuna og reif gula börkinn af henni fínt. En bara gula börkinn, best að reyna að láta sem minnst af þeim hvíta fylgja með því hann er beiskur á bragðið. Það eru alveg dæmi um að maður vilji hafa hann með – en ekki hér.
Svo setti ég eggjarauðurnar og sykurinn í skálina og þeytti vel saman. Blandaði svo rifna sítrónuberkinum saman við.
Á meðan kreisti ég safann úr sítrónunni í lítinn pott. Tók matarlímsblöðin úr bleyti og kreisti vatnið úr þeim og setti þau svo út í safann. Hitaði rólega þar til matarlímið var bráðið – eins og ég sagði áðan bráðnar það við 30-35°C og það er engin ástæða til að hita sítrónusafann mikið meira, hann á allavega alls ekki að sjóða. Tók svo pottinn af hitanum – ef blandan er meira en fingurvolg er gott að láta hana kólna aðeins.
Svo hellti ég safablöndunni saman við eggjarauðurnar og sykurinn í mjórri bunu og lét hrærivélina ganga á meðan. Af því að þetta er frekar mikill safi í hlutfalli við eggjablönduna þynntist hún töluvert út og ég lét hana því standa svona 5-10 mínútur, þar til hún var aðeins farin að þykkna aftur. (Ég reyndar hellti henni líka í aðra skál en það var bara af því að ég þurfti að nota hrærivélarskálina í annað verk.)
Þá setti ég þeytta rjómann út í (nema ég tók dálítið frá fyrst til að nota í skreytingu) og blandaði honum gætilega saman við með sleikju.
Að lokum blandaði ég svo þeyttu eggjahvítunum saman við. Um að gera að blanda bæði rjómanum og hvítunum varlega saman við hitt svo að sem minnst af loftinu sem búið er að þeyta inn í þetta fari úr.
Á þessu stigi getur verið gott að smakka og bæta svo e.t. v. við aðeins meiri sítrónusafa eða sykri ef þurfa þykir.
Svo er bara að finna til fallega skál, setja frómasinn í hann og slétta aðeins yfirborðið. Setja þetta svo í kæli í 3-4 klst. eða svo, þá ætti frómasinn að vera nægilega stífur. Ég skreytti svo frómasinn með afganginum af þeytta rjómanum og reif örlítinn sítrónubörk yfir.
Svo má nota sömu uppskrift til að gera aðrar tegundir af frómas, t.d. appelsínufrómas eða ananasfrómas. Ef gerður er ananasfrómas og safinn úr dósinni notaður er gott að blanda dálitlum sítrónusafa saman við til að fá aðeins skarpara bragð. Og alls ekki nota ferskan ananas, í honum er efni sem kemur í veg fyrir að matarlímið stífni (hverfur við suðu, þess vegna er í lagi að nota niðursoðinn ananas).
En sem sagt, þetta er rosalega einfalt. Í alvöru.
Sítrónufrómas
4 matarlímsblöð
3 egg
75 g sykur
250 ml rjómi
1 sítróna