Sú ræða sem á sér stað á netmiðlum í dag, er af þeirri tegund sem að Framsóknarflokkurinn þarf að kannast við að hafa hrundið af stað. Sú ræða er vond, hún meiðir innflytjendur og börn innflytjenda.
Þegar skipulega er alið á tortryggni í garð fólks á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis og þess krafist að borgurum sé gert mishátt undir höfði á grundvelli þeirrar tortryggni, þá er það kynþáttamismunun (e. Racial profiling) og er saknæmt athæfi af hálfu yfirvalda. Athæfið er hreint ábyrgðarleysi og afleiðingarnar margfaldast í almennri niðurrifs-umræðu.
Á undanförnum árum hefur framferði lögreglunnar í Bandaríkjunum í garð fólks af múslimskum, arabískum og suður-asískum uppruna verið af allt öðru tagi en fyrir 9/11. Regluverk og verkferlar alríkislögreglunnar hafa tekið breytingum og löggæslustofnanir í Bandaríkjunum starfa nú hvað þetta varðar samkvæmt módeli sem þróaðist í stjórnartíð Bush.
Fólk af þessum uppruna er undir meira lögreglueftirliti en aðrir en nýtur um leið minni lögverndar. Hverfin þar sem þessir hópar búa eru óvarin fyrir glæpastarfsemi og yfirgangi sem skilar sér vitanlega í hækkaðri glæpatíðni í hverfunum. Fólk úr þessum hverfum fær síður þá atvinnu sem það sækir um sem skilar sér í háum atvinnuleysistölum.
Ýmis hverfi svartra hafa fengið þessa meðferð í gegnum tíðina og allar götur frá aðskilnaðarstefnunni, en viðbrögð við 9/11 urðu til þess að „racial profiling“ varð að margfalt stærra vandamáli en það var fyrir.
Vísir að þessu vandamáli er orðin staðreynd hér á landi. Þjóðfélagshópur er látinn vera undir eftirliti af engri sýnilegri eða uppgefinni ástæðu, nýlegt dæmi má finna í algerlega tilgangslausu eftirliti með hælisleitanda frá Nígeríu. Þettta háttalag yfirvalda endaði með því að viðkomandi var sendur úr landi með vísan til þessa eftirlits sem síðar kom í ljós að engin ástæða var fyrir til að byrja með.
Fræðsla og leiðbeiningarskylda yfirvalda
Krafan um sundurliðaðar tölur yfir glæpatíðni meðal innflytjenda á Íslandi er til staðar og er hún oft hávær í netheimum. Síðast rakst ég á bloggara setja fram þá kröfu í dag. Þetta er krafa sem yfirvöld eiga að hafna undantekningarlaust. Þess í stað ber að auka fræðslu í grunnskólum um fjölmenningarmál og hleypa af stað átaki stjórnvalda í kynningu á nýjum og heilbrigðum viðhorfum fólks til umhverfis síns.
Stjórnvöldum ber skylda til þess að viðhafa ábyrgan málflutning sem hallar ekki á einn eða neinn. Of margir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hafa fram að þessu gert hið gagnstæða, þvert á móti þá hafa þeir látið eins og að verið sé að bæla niður nauðsynlega umræðu, oddviti Framsóknar gengur svo langt að segjast vera sá sem þorir.
Fremstur í flokki fer formaður flokksins sem álítur orð einstakra borgarfulltrúa flokksins ekki breyta stefnu hans, hún sé önnur. Þegar maður kíkir á facebook-síður einstakra þingmanna flokksins, þá er ljóst að þeir verja borgarfulltrúa flokksins og standa við bakið á þeim. Stuðningsyfirlýsingar við slík sjónarmið eru óásættanlegar.
Pólitísk ábyrgð
Spurningin er hvort Sigmundur Davíð valdi formannshlutverkinu til lengdar. Hann náði stórsigri með Framsóknarflokknum í síðustu alþingiskosningum með þungri áherslu á efnahagsmál og Evrópumálið. Nú hefur Sigmundur Davíð verið þungur til svara og nánast gerir lítið annað en að ásaka fjölmiðla. Kannski er það manns eins og Höskuldar Þórhallssonar að takast á við málaflokk sem þennan, ég skal ekki segja. En eitt er víst, það er ekki sama hvernig stjórnmálamenn tjá sig.
Sú ræða sem á sér stað á netmiðlum í dag, er af þeirri tegund sem að Framsóknarflokkurinn þarf að kannast við að hafa hrundið af stað. Sú ræða er vond og hún meiðir innflytjendur og börn innflytjenda, afleiðingarnar eru einelti, félagsleg mismunun og ósanngirni.
Skoðum aðeins feril þessa máls, hann er ekki fagur. Höldum til haga raunverulegum ummælum oddvita Framsóknar og flugvallarvina. Þetta eru engar ofsóknir og ekkert einelti. Einungis kjósandi (undirritaður) að halda til haga ummælum stjórnmálamanns á opinberum vettvangi;
„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“
Þessi orð oddvita Framsóknar urðu kveikjan að moskumálinu. Seinna vildi oddvitinn meina að um skipulagsmál væri að ræða, raunar væru kosningarnar í heild sinni um skipulagsmál. En lítið var um svör þegar hún var innt eftir stefnu í rekstrarmálum borgarinnar. Þó gengur seta í borgarstjórn jú, út á rekstur borgarinnar og tilvonandi borgarfulltrúi ætti að hafa alla vega áhuga á þeim rekstri.
Sannleikurinn er þungur á fóðrum ef að til stendur að tína til nýjar forsendur fyrir áætlanagerð oddvitans í hvert skipti sem hún er spurð. Fyrst snerist Moskumálið um Þjóðkirkjuna, síðan snerist það allt í einu um skipulag og íbúalýðræði. Þá viðraði oddvitinn einnig áhyggjur sínar af nauðungarhjónaböndum;
„Vilt þú búa í samfélagi þar sem, eins og Svíar þurftu að setja í síðustu viku, að það er refsivert, hver hefði getað ímyndað sér það, að Svíar þyrftu að setja lög þar sem væri refsivert að þvinga fólk í hjúskap“
Annars staðar segir oddvitinn;
„…Margir múslimar koma frá gömlum frönskum nýlendum og því þurfa Frakkar að taka alls konar hluti inn í landið“
Já, hér talar oddvitinn um ‘fólk’ sem ‘alls konar hluti’. Í öðru lagi má greina að konan sjái ástæðu til þess að hleypa ekki þeim ‘hlutum’ inn í landið. Múslimar telja um 1/4 jarðarbúa. Þetta þýðir að í kringum 25% jarðarbúa eru að mati oddvita Framsóknar, hlutir sem tja, eru ekki æskilegir inn í landið.
Ekki verður fjölmiðlum kennt um íslamofóbíu Framsóknarflokksins en þangað til formaður flokksins sver af sér þær kenndir sem og aðrir, þingmenn og ráðherrar flokksins, þá verður ekki annar lærdómur dreginn af moskumálinu en að Framsóknarflokkurinn sé á hraðleið út af korti stjórnmálanna hér á landi.