Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri skrifaði færslu á Facebook síðu sinni í dag og við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
Ritstjórn
„Í átta ár hef ég tilkynnt Ríkisútvarpinu um hverja einustu bilun í útsendingarkerfi þess – fyrst látlausar bilanir á Hjarðarbóli í Fljótsdal í fjögur ár og síðan önnur fjögur ár á Kópaskeri.
Ég nenni þessu ekki lengur. Ríkisútvarpið ber ábyrgð á því að útsendingar þess náist óbrjálaðar og þau fyrirtæki sem fá greitt fyrir að reka dreifikerfið geta ekki stólað á að kauplausir áhugamenn sinni verkum þeirra.
Í yfirstandandi bilanalotu einni hefur útsending Ríkisútvarpsins á Kópaskeri verið gjörónýt í tæpan hálfan mánuð, fast að tvær vikur. Það slagar uppí 4% af almanaksárinu.
Ég hef einfaldlega slökkt á viðtækjum mínum og reikna ekki með því að kveikja á þeim aftur fyrr en Vodafone skammast til að gefa út tilkynningu um að útsendingin á Kópaskeri sé komin í lag. Að hámarki mun ég senda RÚV tilkynningu um að Vodafone hafi algjörlega brugðist skyldum sínum á þessu landshorni.“
Pétur sendi yfirstjórn RÚV jafnframt eftirfarandi bréf í dag.
Til stjórnar RÚV ohf
Vek hér með athygli stjórnar RÚV á óviðunandi og handónýtri þjónustu Vodafone á Kópaskeri. FM-útsending Rásar I og Rásar II á svæðinu hefur verið gjörsamlega handónýt í næstum tvær vikur og ekkert bólar á úrbótum. Það slagar uppí 4% af almanaksárinu, sem er vitanlega ekkert annað en þjónustufall og brot á skyldum stofnunarinnar.
Ég krefst þess að Stjórn RÚV sjái til þess að Vodafone gegni skyldum sínum við landsmenn, geri þegar í stað við bilanir og biðji hlustendur á Kópaskeri og nágrenni afsökunar á óviðunandi þjónustu.
Ég hef slökkt á útvarpsviðtækjum mínum og mun ekki kveikja á þeim aftur fyrr en RÚV ehf og Vodafone tilkynna með opinberum hætti að útsendingarkerfi RÚV á Kópaskeri sé komið í lag. Ég verð einnig fremur ófús til að greiða fyrir þjónustu sem ég hef í engu notið síðustu vikur.
Pétur Þorsteinsson
Mynd eftir Kristján Frímann Kristjánsson