Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég hef ekkert til að skammast mín fyrir og þetta var ekki mér að kenna.

$
0
0

Jóhanna Húnfjörð birti þessa færslu á Facebook síðu sinni og gaf Kvennablaðinu leyfi til að birta hana hér.

Í dag ákvað ég að fara í Druslugönguna, ekki bara fyrir það eitt að styðja gott málefni heldur líka til að standa upp fyrir sjálfri mér og það eitt að mæta þarna var nóg til þess.

Í dag sá ég líka fjöldann á Íslandi sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og staðið upp fyrir sjálfum sér. Og mér finnst æðislegt að sjá hve margar konur og  karlar hér á landi eru ólýsanlega sterk. En ég veit samt vel að langt yfir helming þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi hér á landi hafa ekki þorað að standa upp fyrir sjálfum sér og segja frá, eins sorglegt og það er.

IMG_8730

Seinustu daga hef ég lesið mikið af greinum um kynferðislegt ofbeldi og því hef ég séð að langflest málin eru felld strax niður. Auðvitað er þetta alltaf bara orð á móti orði en það sem ég skil ekki er afhverju orð gerandans er alltaf trúverðugara en orð fórnalambsins.

Ég sjálf veit hvernig það er að bera skömmina og kenna sér um, fela sig og finnast maður einn í heiminum. Ég veit líka hvernig það er að geta ekki sofið á nóttunni eða farið útúr húsi útaf ógeðslegum nauðgunarhótunum og hótunum fyrir það að kæra.

Þegar ég var 14 ára gömul lenti ég fyrst í kynferðislegu ofbeldi, og svo aftur ári seinna.
Í millitíðinni var ég barin fyrir að segja nei við kynlífi, og núna í byrjun 2014 var mér hótað nauðgun í gegnum netið. Í skólalok 9. bekkjar ákvað ég hinsvegar að nú væri tíminn til að rjúfa þögnina og ég kærði bæði málin sumarið 2013.

Það sem fékk mig til að taka þessa stóru ákvörðun og segja frá var myndin hans Páls Óskars FÁÐU JÁ.
Eftir að ég horfði á hana liðu ekki fimm mínútur þar til ég var búin að segja allt við námsráðgjafann í skólanum.

Það var hinsvegar fyrst í dag sem ég sá hvað ég hef í raun ekkert til að skammast mín fyrir, ég gerði ekkert rangt.

Ég gerði ekkert rangt en samt refsaði ég mér í rúmt ár fyrir að láta þetta hafa gerst, samt lokaði ég mig inni og lokaði á vini mína, samt hætti ég að borða og ældi á hverjum degi, samt skrópaði ég í skólanum til að liggja ein uppí rúmi, samt meiddi ég mig viljandi og tók ótrúlegt magn af töflum, svo mikið að ég get varla tekið töflur í dag og samt þarf ég að taka kvíðalyf á hverjum degi útaf einhverju sem er bara ekkert mér að kenna.

Minn draumur var alltaf að flýja frá þessu öllu og byrja uppá nýtt, en í dag gerði ég mér grein fyrir að það sé ekki hægt, þetta verður alltaf hluti af mér hvar sem ég mun búa mun ég alltaf þurfa að rifja þetta upp aftur og aftur til að muna að ég hef ekkert til að skammast mín fyrir og þetta var ekki mér að kenna.

Ástæðan fyrir að ég skrifaði þetta er einföld, í dag sá ég alveg magnað fólk og hugsaði með mér, ef ég ætla að skammast mín endalaust verð ég aldrei þessi sterka manneskja sem svo margir sem ég sá í dag hafa orðið, og þá yrði líf mitt líka alltaf feluleikur og skömm.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283