Saga mín hefst í Gunnarsholti en þar bjó ég fyrstu sex æviárin. Gunnarsholt var nú reyndar endastöð hjá flestum sem þangað komu en ekki upphafspunktur. Foreldrar mínir störfuðu þar við umönnun langt genginna alkóhólista. Sem lítil stelpa skottaðist ég inn og út af „hælinu“ eins og stofnunin var kölluð. Vistmennirnir voru vinir mínir og þekkti ég þá alla. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég komst að því að Helgi fleygur, Bóbó á Holtinu og Ingvar Georgsson voru svokallaðir ógæfumenn. Þessir menn og þær fáu konur sem dvöldu í Gunnarsholti á þessum árum voru sennilega þau síðustu sem kölluð voru Hlemmrónar. Veðurbarðir einstaklingar í gæruúlpum sem drukku spritt af stút og sátu á bekkjunum við Hlemm. Þessum hópi hafa síðar verið gefin önnur nöfn, s.s götufólk, ógæfufólk, pokakerlingar og úrhrök.
Umburðarlyndi gagnvart veikum einstaklingum er okkur flestum í blóð borið og flest okkar sýnum við sjúklingum fyllstu tillitssemi og kærleika ef við mætum þeim á lífsins leið. Af einhverjum ástæðum teljum við það hins vegar vera í okkar valdi að dæma og ákveða hvaða sjúklingar eiga kærleikann skilið og hverjir ekki.
Sem fullorðin manneskja hef ég haft mikil og góð kynni af ógæfufólki. Í mínum huga er ógæfa eitthvað sem dynur yfir. Ekki nokkur einstaklingur velur sér það hlutskipti að vera á götunni eða að hrekjast á milli stofnanna. Flestir þeir sem samfélagið skilgreinir sem ógæfufólk stríða við alkóhólisma og/eða geðraskanir sem hafa í för með sér félagsleg, andleg og líkamleg vandamál.
Ein var sú kona sem hafði mikil áhrif á mig og kenndi mér svo ótal margt um kærleikann og lífið. Ég kynntist henni árið 1998 og við urðum strax miklar vinkonur. Hún var með kolsvart sítt hár og seiðandi grá augu. Hún var með feimnislegt bros sem byrjaði einhversstaðar djúpt í augunum en færðist svo yfir andlitið eins og sól í heiði. Hún var gullfalleg. Þessi kona var talsvert eldri en ég og hafði meira eða minna alist upp á barnaheimilum eða fósturheimilum þar sem hún fékk ekki það atlæti sem öllum börnum ætti að vera tryggt.
Rótlaus, reið og hrædd fór hún inn í unglingsárin og fann huggun og skjól í undirheimum þar sem algleymi vímunnar var oft eina hvíldin frá þeim sársauka og þraut sem lífið var. Hún hætti ung í skóla og var varla læs. Hún eignaðist börn en þau hafði hún ekki tækifæri til að ala upp sjálf þó að hún elskaði þau ekkert minna en aðrar mæður sem búa við öryggi. Hún bjó á götunni en stundum fékk hún skjól hjá eldri mönnum sem kröfðu hana um kynlífsþjónustu fyrir. Hún var fastagestur á öllum helstu meðferðarstöðum, sjúkrahúsum og fangelsum sem til eru í landinu og náði aldrei bata frá sinni fíkn. Þegar líkaminn gaf sig endanlega fyrir nokkrum árum reyndist það því ekki vera í forgangi að senda sjúkrabíl á staðinn, og því kvaddi hún lífið í gámi út á Granda. Ég syrgi mína góðu vinkonu og er þakklát fyrir þær stundir sem ég átti með henni.
Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp með ógæfufólki, kynnst því af eigin raun og fengið að skilja að lífið sem mér var úthlutað er þakkarvert. Ég gleymi aldrei orðum vinkonu minnar þegar hún var mjög veik eitt sinn: „Það versta við fíknina er ekki geðveiki og dauði, heldur hitt að þurfa að lifa án þess að eiga líf, að fá ekki að deyja“.
Ég hef lært meira um lífið og tilveruna af samskiptum mínum við þá sem þurft hafa að berjast fyrir tilverurétti sínum heldur en ég hef lært af nokkurri blaðagrein.
Þegar ég horfði á myndband „blaðakonu“ sem gerði sér það að leik, og hafði gaman af, að þykjast vera ógæfumanneskja, var mér allri lokið. Hún er reyndar ekki sú fyrsta sem tekur sér þetta fyrir hendur, ég man ekki betur en einhverjir gárungar hafi á sínum tíma leikið slíkan leik. Það er skömm að því að þeim sem eru áberandi í þjóðfélaginu og jafnvel fyrirmyndir ungu fólki, skuli detta í hug að láta farða sig og klæða sem sjúklinga.
Hvort sem farið er í gerfi hjartveikra, krabbameinssjúkra eða þeirra sem þjást af garnaflækju. Ætli þeim tækist að finna út hvaða steríótýpur þessir hópar eru? Eða ætli þau fatti kannski að það að setja alla undir sama hatt, að gera lítið úr veiku fólki er algjörlega óviðeigandi og óverjandi hegðun?
Ef þú mætir konu með glóðurauga, í tötralegum fötum og einkennilega ljót, sýndu þá virðingu og kærleika. Þú veist ekkert hvað þessi kona hefur gengið í gegnum. Þú veist ekkert hvort konan er illa innrætt, veik, eða bara kjánaleg blaðakona. Hver sem hún er á hún alla okkar samúð og kærleika skilið.