Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Um konur, netið og feminískt klám

$
0
0

Um konur, netið og feminískt klám

 „Lögmál Internetsins“ er listi sem var settur saman á vefsvæðinu 4chan.org í kringum 2004. Samkvæmt lögmálum 34-36 er til klám um allt það efni sem hægt er að hugsa sér á netinu. Ef ekkert klám er til, þá mun það verða búið til. Ef þér tekst að finna klám um það, þá geturðu líka verið viss um að það sé til miklu skrýtnara klám annars staðar á netinu. Þessi lögmál eru augljóslega sett fram í gríni, en endurspegla samt þau almennu viðhorf að það sé gríðarlega mikið af klámi á netinu og að milljónir skoði net-klám á hverjum degi.

Margir líta þetta alvarlegum augum og ýmsir hópar, sem og stjórnvöld, lýsa ítrekað yfir áhyggjum af klámi á netinu, þá sérstaklega í tengslum við börn, ungt fólk, kynlífsvæðingu, klámvæðingu og kynbundið ofbeldi. Þessi grein fjallar ekki um þetta efni enda væri það að bera í bakkafullan lækinn. Þess í stað mun ég velta því upp hvort net-klám geti verið ein leið fyrir konur til að kanna tilfinningar, kynlífslanganir og kynhneigð.

Fjölmiðlafræðingurinn Feona Attwood hefur rannsakað klám og kynlífsfjölmiðlun um árabil. Í bókakaflanum Dirty Work: Researching Women and Sexual Representation fjallar um umræðuna um klám innan nútímasamfélagsins. Hún heldur því fram að allt klám sé sett undir sama hatt og sé oft lýst sem félags- og menningarlegu vandamáli. Þetta heftir alla umræðu því að útgangspunkturinn verður alltaf neikvæður um leið og orðið klám er sett fram. Þetta verður til þess að klámumræðan er í spennitreyju og aðeins viðtekin viðhorf fá að heyrast, önnur eru þögguð niður.

1229978_217760695050639_1101998905_n

Í almennri umræðu og mörgum rannsóknum á klámi eru kynjahlutverkin afar þröng, karlar eru álitnir gerendur (neytendur og/eða framleiðendur) en konur eru taldar passífar og jafnvel fórnarlömb.

Þetta þrönga sjónarhorn skilar sér inn í almennar orðræður um klám og gerir konum erfitt fyrir þegar þær ræða sína klámnotkun eða áhuga á klámi. Linda Williams (1991) heldur því fram að konur séu álitnar óáreiðanlegar þegar kemur að því að tjá sig um kynlífslanganir sínar eða klámnotkun þar sem þær eru sakaðar um að ganga erinda karlmanna og að tjá karllægar hugmyndir um klám og kynlíf.

Karen Ciclitira (2004) fann í rannsóknum sínum að það var erfitt fyrir konur að játa að þær horfðu á klám af því að þar með voru þær álitnar ókvenlegar eða andfeminískar. 

Clarissa Smith (2007) bendir á að hugmyndin um hið karllæga sjónarhorn (e.the male gaze) hafi náð nokkurri fótfestu í almennri umræðu og gerir það að verkum að áhugi kvenna á klámi og kynlífi sé oft álitinn óekta og ekki þeirra eigin, þ.e. að konur sjái einungis líkama og kynlíf, bæði sitt eigið og annarra, með augum gagnkynhneigðra karlmanna.

Oft er einnig vísað til þess að konur sem sýni opinberan áhuga á klámi og kynlífi séu eingöngu fórnarlömb nútíma kynlífs-/klámvæðingar og feðraveldisins og að framlag sé einungis tilraun til að falla inn í hópinn eða ásókn í vald.

Þöggunin er því tvöföld. Í fyrsta lagi er það ekki álitið kvenlegt að ræða eða hafa áhuga á klámi og konur sem brjóta þá reglu eru ekki teknar trúanlegar. Þetta gerir það að verkum að það eru fáar leiðir fyrir konur til að tjá lögmætan áhuga á klámi og kynlífi þar sem þær eru ekki álitnar virkir neytendur.

Tæknileg þróun Vefs 2.0 og sú samfélagsmiðlabylting sem hún hefur haft í för með sér hefur gert notendum kleift að taka upp myndir, myndbönd, tónlist og texta og deila með öðrum. Það hefur síðan komið í ljós að kynlíf í öllum sínum fjölbreytileika, sem og nekt, er það sem fólk sækir ekki síst í að framleiða, deila, skoða og hlaða niður á ferðum sínum á netinu.

Í kringum kynlíf og ýmiss konar blæti (e. fetish) hafa sprottið upp óteljandi sýndarsamfélög þar sem nafnlausir notendur koma saman. Þar finna þeir aðra með sama smekk, deila myndum, upplýsingum og skoðunum. Netið hefur líka hjálpað smærri og sértækari (e.niche) klám-framleiðendum að fóta sig, og allmargar konur framleiða nú og leikstýra klámi sem ætlað er konum, sumar samhliða því að bjóða upp á kynlífs- og blætis fræðslu og framleiða feminískt klám.  Kynlífsblogg  skrifuð af konum hafa einnig notið mikilla vinsælda og rannsóknir leiða í ljós að konur neyta kláms á netinu í auknum mæli.

Þessar konur hafa það að markmiði að opna umræðu um konur, kynlíf, losta og klám í þeim tilgangi að færa atbeina aftur til kvenna svo þær verði gerendur í sínu kynlífi án skammar eða þöggunar.

Fyrir marga/r er klám eina leiðin til að sjá og læra um kynlíf í öllum sínum fjölbreytileika og því telja þær að áríðandi sé að sem flestar tegundir og samsetningar séu til sýnis svo að fólk eigi auðveldara með að finna út hvað vekur með því tilfinningar og losta.

Í langflestum tilfellum er kynlífsfræðsla ekki upp á marga fiska, sýnir einungis brotabrot af kynlífshegðun og einblínir að mestu á kynsjúkdóma og getnaðarvarnir. Net-klám getur þannig hjálpað fólki að kanna kynlífsheima nafnlaust og án þess að eiga á hættu að vera dæmt fyrir hvar það finnur sig. Konurnar hér að ofan (og margar fleiri[1]) eru sammála um að leiðin sé ekki að banna eða sía klám á netinu heldur að gera betra klám þar sem allir fái að njóta sín og atbeini, frelsi, ástríða, gaman og jafnrétti sé í hávegum haft.

Heimildir

Attwood, F. (2010a)  Dirty Work: researching women and sexual representation. Í Ryan-Flood, R. og Gill, R. (2010) Secrecy and Silence in the Research Process: Feminist Reflections. London: Routledge

Attwood, F. (ed.)  (2010b)  Porn.com: making sense of online pornography. New York: Peter Lang

Ciclitira, K. (2004) Pornography, women and feminism: between pleasure and politics, Sexualities, 7 (3): 281-301.

Paasonen, S. (2011) Carnal Resonance: Affect and Online Pornography. Cambridge, MA: MIT Press

Smith, C. (2007) One for the Girls! The Pleasures and Practices of Pornography for Women Bristol: Intellect.

Williams, L. (1991) Hard Core: power, pleasure and the ´frenzy of the visible´. London: Pandora

Þar sem Kvennablaðið er vettvangur fyrir alla aldurshópa hef ég einungis linkað á vefsíður sem eru SFW (safe for work), ótalmargar aðrar síður er þar að finna ef rétt er leitað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283