Afturköllun kosninga (e: recall election) er það fyrirbæri kallað þegar kjósendur geta látið setja af kjörinn fulltrúa með beinni kosningu áður en kjörtímabili lýkur. Slík afturköllun, framkvæmd á grundvelli undirskriftasöfnunar sem nægilega margir kjósendur hafa undirritað, á sér sögu allt frá vöggu lýðræðisins í Aþenu og tíðkast á nokkrum stöðum í heiminum: í sex kantónum í Sviss, í Bandaríkjunum, í einu fylki Kanada: Bresku Kolumbíu, og í Venezúela.
Afturköllun kosninga áður en kjörtímabili lýkur getur verið nauðsynleg ef viðkomandi kjörinn fulltrúi verður skyndilega óhæfur til starfans af einhverjum ástæðum, og almenningur með sæmilega óskerta dómgreind er almennt sammála um óhæfið, en sjálfur fulltrúinn neitar að víkja, axla ábyrgð eða að viðurkenna neinar rangfærslur eða dómgreindarleysi.
Eitt skýrasta dæmið hér í Kanada um nauðsyn þessarar lagasetningar er dæmið um borgarstjórann í Toronto, Rob Ford.
Í kosningabaráttunni til borgarstjórnar 2010 lofaði mótframbjóðandinn, Rocco Rossi, að fara fram á það við fylkisstjórnina að setja lög til að afturkalla kosningu eða reka borgarstjóra eða fulltrúa. Eins kaldhæðnislega og það hljómar var Rob Ford helsti stuðningsmaður hugmyndarinnar sem hann þó fylgdi ekki eftir. Illu heilli!
Hann er búinn að vanvirða embætti borgarstjóra til hins ýtrasta, hefur orðið sér og kjósendum sínum til skammar á heimsvísu með fádæma ruddaskap, lygum og ofneyslu á eiturlyfjum. Hann harðneitaði að fara frá og það eina sem borgarstjórnin gat gert var að svipta hann öllu framkvæmdarvaldi, án þess þó að geta borið hann út af skrifstofunni. Hann fær því enn að bulla í fjölmiðlum, klippa á borða og nú síðast að kalla á alla fjölmiðla til að sýna þeim hræðilega stafsetta sprengjuhótun sem á að hafa verið send honum og bróður hans.
Kosningar til borgarstjórnar í Toronto verða nú í haust.
Í Bresku Kolumbíu hafa þessi lög verið í gildi frá 1995. Alls 24 afturkallanir hafa verið skráðar á tímabilinu en engin hefur gengið í gegn. Í einu tilfelli sagði viðkomandi af sér sjálfur í afturköllunarferlinu.
Þetta má auðvitað hvorki vera léttvæg lagaheimild né auðveld í framkvæmd. Á hinn bóginn veita lögin aðhald og geta virkað eins og „afturkall sem síðasta úrræði“ (proceed of last resort) þegar viðkomandi kjörinn fulltrúi hefur e.t.v. misst ráð og rænu eða gengur gersamlega fram af almenningi vegna augljóss dómgreindarskorts, sem engar skrifaðar eða óskrifaðar siðvenjur eða siðareglur ná til.