Breski vegglistamaðurinn Pure Evil opnar sýningu í Gallerí Fold á Menningarnótt laugardaginn 23. ágúst kl. 11.
Sýningin nefnist Pure Evil – martröð en verkin eru öll úr martraðar seríu listamannsins þar sem hann notar þekkt andlit einstaklinga á borð við Andy Warhol, Audrey Hepburn og Elisabetu Taylor sem grunn í sínum eigin verkum.
Auk þess að opna sýninguna mun Pure Evil gefa 30 listaverk sem hann skilur eftir víðs vegar um miðborg Reykjavíkur. Þeir sem finna þau mega eiga þau og koma með þau í Gallerí Fold til að fá þau árituð. Vísbendingar um hvar verkin er að finna eru birtar Instagram síðu listamannsins (pureevilgallery) og á Facebook síðu Gallerís Foldar.
Þá mun Pure Evil mála listaverk á tvo húsveggi í Reykjavík og býður Reykvíkingum að fylgjast með. Nánari staðsetning verður gefin upp í Gallerí Fold og á Facebook síðu gallerísins á Menningarnótt.
Pure Evil hefur hefur á síðustu fimm árum sýnt um allan heim, þar á meðal í Kína, Rússlandi, Mongólíu, Brasilíu, Bandaríkjunum og víðsvegar um Evrópu. Fyrr á þessu ári sýndi hann martraðarseríuna hjá hinu frægra Saatchi galleríi í London. Listaverkin hans hafa einnig verið notuð í hönnun, m.a. hjá hinu þekkta fyrirtæki Royal Doulton í Bretlandi og á síðasta ári voru verkin hans notuð í sjónvarpsþættinum The Apprentice.