Lögreglunni á Hvollsvelli var tilkynnt um meiriháttar utanvegaakstur um helgina. Um er að ræða svæði við Löðmundarvatn, skammt frá Landmannahelli en landvörður á svæðinu kom að þessu. Talið er að þetta hafi átt sér stað á milli 19. og 21. ágúst. Miklar skemmdir eru á grónu landi eins og sést á meðfylgjandi myndum.
En hversu alvarlegar eru þessar skemmdir og hversu langan tíma tekur það jarðveginn að jafna sig eftir slíkt skemmdarverk? Við spurðumst fyrir hjá garðyrkjumanninum Hafsteini Hafliðasyni sem sagði að líklega tæki það mörg ár að þarna gréri alveg um heilt. Það færi svolítið eftir þeirri aðferð sem notuð væri við lagfæringarnar.
„Væri ég fenginn til, mynd ég reyna að lyfta jöðrum hjólfaranna með stungugaffli til að reyna að fella þá aftur saman. Jafnvel gæti þurft að fara með stungugaffal til að lyfta upp þjöppuninni. Ef vel tekst til ætti þetta að falla saman og gróa á svosem tveim til þrem árum eftir árferði – og væntanlega (vonandi) friði til þess.
Hafsteinn sagðist aðeins hafa framkvæmt slíkar aðferðir á láglendisgrasflötum en með góðum árangri. „Ég veit ekki hvort sömu lögmál gilda á hálendinu á ótömdu landi. En ég geri ráð fyrir því“, sagði Hafsteinn að lokum.
Í lögum um Náttúruvernd stendur eftirfarandi í 17. Grein. Smellið á myndina af texta til að fá stærri mynd.
Viðurlög við utanvegaakstri geta verið þung og viðkomandi gæti átt yfir höfði sér að missa ökutæki sitt og vera settur í tugthúsið fyrir brotin. Smellið á myndina af texta til að fá stærri mynd.
Lögreglan á Hvolsvelli lýsir eftir vitnum að þessu. Ef einhver hefur upplýsingar um þetta er hann beðinn um að hafa samband við Lögregluna á Hvolsvelli í síma 488-4110 eða senda upplýsingar á hvolsvollur@logreglan.is