Reynir Traustason ritstjóri DV svarar á Facebook síðu sinni þeim sögusögnum sem hann hefur legið undir. Reynir vísar því á bug að hann hafi þegið mútur af hendi Guðmundar Kristjánssonar sem kenndur er við Brim. Kvennablaðið hefur sett inn hlekki í texta Reynis. Hér er færsla Reynis í heild sinni.
„Óhróður bæjarstjórans í Vestmannaeyjum um mútur Guðmundar Kristjánssonar útgerðarmanns í Brim er með eindæmum. Hann gefur til kynna að blaðamenn DV hafi skrifað í þágu Guðmundar vegna þess að hann hafi veitt lán til mín til hlutafjárkaupa í DV. Síðan er vitnað til nokkurra frétta sem eiga að staðfesta áburðinn.
Það er rétt að félag í eigu Guðmundar lánaði mér til kaupa á hlutafé rétt eins og Gísli Guðmundsson, kenndur við B&L, veitti slíkt lán sem síðan fór inn í einkahlutafélagið Ólafstún.
Lagt var upp með það gagnvart Guðmundi að hann myndi gerast hluthafi þegar félagið glímdi við hreina neyð. Eftir umhugsun hafnaði hann því en bauðst til að veita mér lán sem ég tók til að nýta kauprétt á hlutabréfum úr samþykktri aukningu. Mér var ljóst að fjárfestingin var ótrygg vegna stöðu félagsins. Þessi samningur var gerður á síðasta ári.
Þessar skuldbindingar mínar eru hluti af neyðaraðgerðum sem gerðar voru til bjargar félaginu. Auk þess er ég persónulega ábyrgðarmaður á 6 milljóna víxli sem DV ehf. gaf út. Þess utan er ég í ábyrgð upp á rúmar tvær milljónir vegna yfirdráttar fyrirtækisins. Af þessu sést að ég hafði mikla persónulega hagsmuni af því að félagið færi ekki illa.
Á undanförnum árum hef ég lagt undir allt sem ég gat til að halda DV á floti. En í samhengi við áburð bæjarstjórans er rétt að taka fram að blaðamenn DV hafa ekki haft hugmynd um persónuleg fjármál mín. Ég hef reyndar talið æskilegt að svo væri ekki.
Fréttir DV af Vinnslustöðinni í Eyjum og af Guðmundi í Brim hafa verið skrifaðar út frá sömu sjónarmiðum og allar aðrar fréttir blaðsins. Engin leið er heldur að túlka það sem svo að þær séu litaðar af einu eða öðru. Og flestar eru þær skrifaðar áður en umrædd lánveiting átti sér stað.
Og til gamans er rétt að benda á að Bein lína DV með Guðmundi var löngu fyrr og þá í því ljósi að flotinn var allur í höfn að mótmæla veiðigjöldum. Guðmundur mætti þar sem útgerðarmaður og svaraði sem slíkur. Hann hefur aldrei reynt að stýra umfjöllun DV eða brengla umfjöllun blaðsins.“