Ragnar Þór Pétursson skrifar.
Nú er versnandi læsi barna og unglinga enn einu sinni orðið að umræðuefni. Og enn einu sinni er það dregið á flot að þessi staða sé þeim mun skuggalegri þar sem um sé að ræða „bókaþjóðina“ Íslendinga.
Það er svosem ekki endilega miklu við þessa umræðu að bæta. Hún er orðin frekar staglkennd. Tesan er þessi: óhóflega stór hluti „afurða“ skólakerfisins getur ekki lesið sér til gagns. Þar sem læsi er grundvallarforsenda alls náms og mikilvægur þáttur í persónulegu og opinberu lífi getur það ekki flokkast sem annað en merki um að skólakerfinu sé verulega áfátt.
Þá er vinsælt að kenna tölvum, foreldrum og lélegum kennurum um.
Ég nenni svosem ekki að fara að endurtaka allt sem ég hef skrifað um þetta mál. Ég geri ráð fyrir að áhugamenn um málefnið séu læsir og geti fundið það ef þeir hafa áhuga. Mig langar samt að eyða nokkrum orðum í þessa upphöfnu hugmynd um Íslendinga sem bókaþjóð.
Vissulega voru skrifaðar hér á landi merkilegar og góðar bækur. Ég held að sanngirninnar vegna getum við Íslendingar seint eignað okkur þær allra fyrstu. Þær byggðu á samnorrænum menningararfi sem átti kannski minnst undir innlögnum héðan. Meðferð okkar á þessum sömu bókum aldirnar á eftir er kannski raunhæfari mælikvarði á hið eiginlega inntak bókaþjóðarinnar íslensku fyrstu aldirnar.
Á átjándu öld stóð heimsmenningin í blóma furðulega nálægt okkur. Og vissulega brúkuðu Íslendingar bækur. Enda „bókaþjóð“. Gott ef húslestrar voru ekki enn stundaðir. Þá las einn fyrir alla hina. Ég hef aldrei áttað mig alminlega á því af hverju fólk las ekki bara sjálft. Kannski var lesturinn félagsleg athöfn. Kannski voru menn sínkir á bækur. Kannski voru menn að spara lýsið. Og kannski var húslesturinn afleiðing af því að tæplega helmingur Norðlendinga var ólæs og rúmlega helmingur Sunnlendinga.
Lengi voru það prestar sem skráðu hjá sér samviskusamlega hversu læs börn voru á aldrinum 13 – 16 ára. Í Laufási fermdust árið 1747 sex stúlkur. Ein þeirra var læs. Önnur kunni stafina. Hin kunnu ekki neitt. Árið áður hafði staðan þó verið töluvert betri. Þá gátu sex af ellefu fermingarbörnum lesið.
Sú ímynd hefur svo fylgt að upp frá þessu hraðbatni læsi á landinu og svo sé komið að á 19. öld séum við raunverulega orðin bókaþjóð. Það þótti raunar töluvert glæsilegur árangur að strax árið 1777 tókst að ferma heilan hóp barna sem öll þóttu sæmilega læs.
Það er samt pínulítið erfitt að átta sig á því hvenær nákvæmlega við urðum þessi bókaþjóð og hve lengi. Í upphafi 19. aldar voru 557 læsir af 853 íbúum Reykjavíkur eldri en 12 ára.
Hér verður að horfa til þess að lengst af voru ólæsar stúlkur miklu fleiri en ólæsir strákar. Það þótti beinlínis ekki sérlega kvenlegt að grufla í bókum. Hafi bókaþjóðin verið til lengst af ævitíma þjóðarinnar var hún næstum öll með eistu þar til frekar nýlega.
En bókaþjóðin hafði 19. öldina til að blása vindi í segl sín. Eitthvað var sá vindur lygn á stundum því til er greinargerð um farskóla á Suðurlandi frá því fyrir hundrað árum þar sem æðrast er yfir því að þetta árið, eins og mörg undangengin, hafi farskólaprófin staðfest það eitt að börnin hafi nálega ekkert lært í skólanum. Höfundur greinargerðarinnar vill skrifa það alfarið á heimilin enda séu börnin upp til hópa ólæs – og ólæs börn eigi ekkert erindi í skóla. Hann vill bregðast við þessu með því að meina ólæsum börnum aðgang að skólanum. Það fór raunar dálítið í taugarnar á menntamönnum hve prestar voru „nægjusamir“ með lestrarkennslu. Af því má skilja að prestar hafi ýkt mjög læsi barna fram að því. Ef það er rétt eru allar upplýsingar fram að þessu líklega byggðar á einhverri skreytni.
Allt ofangreint er þó brotakennt. Við vitum sáralítið um læsi frameftir öllu. Við vitum þó nóg til að vera búin að átta okkur á því að ímynd bókaþjóðarinnar er líklega ansi hreint fægð og fáguð. Fyrstu alminlegu upplýsingarnar sem við höfum eru frá 1930. Þá var haldið „almenna prófið“ í lestri og málfræði. Þá gerðu fræðslulögin ráð fyrir því að níu ára barn gæti ekki aðeins stautað sig fram úr texta heldur gæti það „lesið liðugt“. Það var enda mikilvæg forsenda frekara náms enda fóru börnin 10 ára að fást við mjög einhæft bóknám.
Niðurstöður prófsins voru þær að nokkru munaði að öll níu ára börn á landinu læsu liðugt. Raunar gerði það ekki nema u.þ.b. tuttugasta hvert barn. Og skólakerfið þótti skila á milli 7 og 8% nemenda ólæsum út í lífið. Með ólæsum er verið að meina að börnin gátu ekki tautað sig í gegnum 100 atkvæði á mínútu. Og var þó ekki verið að gera neina kröfu um lesskilning. Börnin þurftu bara að geta lesið hljóðin. Þegar við æðrumst nú yfir börnum sem ekki geta lesið „sér til gagns“ erum við að tala um börn sem mörg hefðu flogið gegnum almenna prófið á sínum tíma.
Þegar niðurstöðurnar komu voru þær reiðarslag og haft var á orði að nú hefði hin mikla bókaþjóð sem stærði sig af hundrað prósent læsi verið gripin illilega í bólinu.
Skólar héldu þó áfram að kenna eins og öll níu ára börn væru orðin liðug og læs. Fyrsta starfsár Austurbæjarskóla var þar nemandi, bráðger og skarpur. Hann vor svo rammur að afli að hann hafði hlotið æðstu verðlaun í glímu en hann þótti bæði glíma af miklu afli og afar fallega. Það er hverjum skóla pínulítil sæmd í því að fá að fóstra hæfileikafólk fyrir lífið. Þessi fyrsti vetur nemandans í skólanum var þó ekki að öllu leyti áfallalaus. Oft og ítrekað þurfti að draga glímumeistarann grátandi inn fyrir skóladyrnar vegna þess að hann hafði átt mjög erfitt með lestur og annað þótti útilokað en að flokka hann í bekk eftir því. Hann var því settur í þriðja bekk með börnum sem voru miklu yngri en hann. Honum þótti það svo skelfileg niðurlæging og særandi lífsreynsla að færa þurfti hann með valdi í skólann eins og áður sagði. Og grét þá vöðvastælti glímumaðurinn beisklega í stað þess að taka á móti. Að sjálfsögðu hafði hann ekki afl til að gera athugasemdir við það að hann væri flokkaður samkvæmt tignartali bókaþjóðarþjóðarinnar.
Niðurstaðan af þessu öllu saman er auðvitað sú að allt tal um bókaþjóð og almennt læsi er mjög líklega lítið annað en innantómt skrum og afskræming á sannleikanum. Hafi þjóðin einhvern tíma verið fullkomlega læs er það mjög nýlega. Við sem nú lifum búum svo vel að sjá á hverjum degi sýnishorn af ritfærni kynslóðanna á samskiptavefjum og í athugasemdakerfum vefmiðlanna. Ég ætla svosem ekki að fullyrða neitt stórkostlegt – en ég tel mig þó hafa séð nóg til að fullyrða að hafi lestrarkunnátta verið það góð á síðustu öld að það verðskuldi það að þjóðin kallist bókaþjóð – þá hefur furðulega margur af fyrri kynslóðum mátt þola dularfulla hrörnun hæfni sinnar.
Ég held raunar að það sem stendur eftir af bókaþjóðinni ef grannt er gáð sé að Íslendingar hafi á seinni hluta síðustu aldar verið frambærileg reyfara- og teiknimyndasöguþjóð. Sem í sjálfu sér er ekkert ómerkilegra en hvað annað. Það er alveg ljómandi gott ef fólk sækir sér afþreyingu í ritað mál. En hvatinn að því er auðvitað ánægjan af lestrinum. Svo lengi sem þjóðin hefur notið þess að lesa, hefur hún lesið. Og á tíðum lesið af kappi. Að minnsta kosti hlutar hennar.
Í dag er staðan sú að menn hafa greint niður í öreindir hverfandi lestrarkunnáttu barna, sérstaklega drengja. Kennararnir eru slakir. Heimilin nenna ekki að fylgja náminu eftir. Tölvurnar stela bæði tíma þeirra og sál.
Við þá sem hampa þessu viðhorfi langar mig bara að segja eitt:
Hvað á þrettán ára strákur á Íslandi svosem að vera að lesa sem réttlætir það að hann leggi á sig erfiðið við að verða fluglæs? Og hvernig stenst það sem honum stendur til boða samanburð við það sem á líklega hug hans allan?
Birt á bloggi Ragnars Þórs 30.ágúst 2014