Kvennablaðið hafði samband við Guðmund Kristjánsson í Brim og lagði fyrir hann örfáar spurningar vegna ólgu þeirrar sem upp er komin vegna ásakana Elliða Vignissonar á hendur Reyni Traustasyni.
Reynir sagði frá því í dag að hann persónulega hefði fengið 15 milljón króna lán frá Guðmundi til kaupa á hlutabréfum í DV. Áður hafði Guðmundi boðist að verða hluthafi en hafnað því boði.
Við byrjuðum á því að spyrja Guðmund hvaða hag hann hefði af því að lána Reyni Traustasyni fimmtán milljónir.
„Ég skal alveg segja þér hvernig þetta var. Það var þannig að 2012 þá var allur íslenski flotinn í landi vegna deilna um veiðigjöldin. Ég fór á beina línu hjá DV og á eftir settist ég á kaffistofu DV og ræddi við starfsfólkið. Ég fékk alveg nýja sýn á blaðið og starfsfólk þess í þessari heimsókn. Þetta var ungt fólk fullt af eldmóði og atorku og alveg fordómalaust.“
Guðmundur hreifst mjög af andanum innan DV eins og fram hefur komið en svo kom að því að Reynir bauð honum að gerast hluthafi í DV.
„Þegar Reynir kom til mín og spyr : Viltu gerast hluthafi?“ – þar sem útgerðarmenn séu hluthafar í Morgunblaðinu og heildsalar í 365, og hvort ég vilji ekki eignast hlut í DV, þá sagði ég strax nei, ég væri oft ósammála honum og umfjöllun DV. Á hinn bóginn þegar Reynir hringdi í mig og sagðist vera með fleiri hluthafa þá var ég reiðubúin að vera með og lána honum.“
Er ekki óskynsamlegt að lána fé til fjölmiðlarekstrar? Varstu tilbúinn að tapa þessu fé ef illa gengi?
„Ég er vanur rekstarmaður. Reynir var með rekstraráætlun um það að reksturinn gæti gengið. Vísir hefur gengið, Mogginn líka.“
En ert það þú persónulega sem lánaðir Reyni féð?
-Nei.
Er það útgerðarfélagið Brim Seafood sem lánaði féð?
-Nei.
Þannig að ef illa fer hjá Reyni og 15 milljóna krafan tapast þá fær Brim Seafood það ekki frádrættarbært frá skatti?
– Nei nei nei. Lánið tengist Brim Seafood ekki á nokkurn hátt.
Hvaða félag í þinni eigu lánaði Reyni fé?
– Það er fasteignafélag, einkahlutafélag í minni eigu.
Hefur þú eða þín fyrirtæki stutt DV með öðrum hætti en þessu 15 milljón króna láni til Reynis?
– Við höfum auglýst í DV en við auglýsum samhliða í öðrum fjölmiðlum líka.