Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Spáum í lífrænt

$
0
0

Nýlega birtist umfangsmikil samanburðarrannsókn í British Journal of Nutrition sem fjallaði um muninn á lífrænt ræktuðum landbúnaðarafurðum og öðrum. 343 ritrýndar rannsóknir voru til skoðunar sem gerir samantektina mjög yfirgripsmikla. Niðurstöðurnar eru ekki beint óvæntar en engu síður áhugaverðar.

Mikill munur mældist á magni andoxunarefna en niðurstöðurnar voru þær að lífrænt ræktað innihéldi að jafnaði allt frá 19% upp í 65% meira magn hinna ýmsu andoxunarefna umfram það sem ekki var lífrænt ræktað. Þetta verða að teljast góð meðmæli með lífrænu þar sem andoxunarefni verja okkur fyrir hrörnun og ýmsum sjúkdómum með því að koma jafnvægi á óstöðugar sameindir í líkamanum.

Einnig kom fram að mælingar á leifum skordýra- og illgresiseiturs sem og þungmálmsins cadmium sýndu margfalt lægri tölur í lífrænu deildinni. Þetta kemur ekkert stórlega á óvart þar sem notkun téðra eiturefna auk kemísks áburðar er ekki viðhöfð, né leyfð, við lífræna ræktun.

Niðurstöður um næringargildi töldust ekki sýna áreiðanlegan mun en margir telja fullvíst að lífrænt ræktað sé mun ríkara af steinefnum. Það virðist rökrétt. Við lífræna ræktun er t.d. notast við húsdýra- og þörungaáburð sem í er að finna breiða flóru steinefna. Í lífrænni ræktun er jarðvegurinn ekki ofreyndur og hann fær að hvílast reglulega. Við venjulega ræktun er notaður tilbúinn áburður sem aðeins inniheldur fáein næringarefni til að plantan vaxi sem hraðast en jarðvegurinn getur verið næsta næringarsnauður þar fyrir utan.

Hér er hlekkur á rannsóknina:Newcastle-study-organic-7112014

Fyrir mér er það bara heilbrigð skynsemi að grænmeti og aðrar landbúnaðarafurðir, sem hafa verið ræktaðar í heilbrigðum jarðvegi, á sjálfbæran hátt án þess á þær sé ítrekað úðað eitri, hljóti að vera betri fyrir okkur. Ég er ekki sannfærð um margt í lífinu en ég er sannfærð um að eitur er ekki hollt og að við skuldum móður jörð og okkur sjálfum það að nota sjálfbærar, náttúruvænar aðferðir við landbúnað.

Þess ber að geta að íslenskt grænmeti, hvort sem það er lífrænt ræktað eða ekki, er að því er ég best veit ekki spreyjað með eitri. Þetta með jarðveginn á þó við hér sem annars staðar.

Ég kaupi ekki eingöngu lífrænt ræktað en ég geri eins mikið af því og ég get og vel alltaf íslenskt sé það í boði. Sumt kaupi ég aðeins lífrænt, svo sem epli sem tróna ítrekað á toppnum sem sá ávöxtur sem inniheldur mest magn skordýra- og illgresiseiturs. Sellerí og flest ber eru þar einnig ofarlega á blaði ásamt fleiru. Annað er síður líklegt til að innihalda eiturleifar. Í þeim flokki eru sem dæmi laukur, avocado og ananas. Sláið „dirty dozen“ og „clean fifteen“ inn í næstu leitarvél til að kynna ykkur hvaða tegundir er mikilvægast að fá lífrænt ræktaðar.

Þetta er bara toppurinn á ísjakanum í lífrænu umræðunni, ég mun áreiðanlega skrifa meira um málið síðar. :)

Ást og friður
Ösp

 

Ljósmynd efst í grein af Flickr.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283