Eva Harðardóttir er doktorsnemi og uppeldis- og menntunarfræðingur sem vinnur að menntamálum hjá UNICEF í Malaví þessa dagana. Eva er mikið hörkukvendi í mínum augum og ég dáist að því sem hún er að gera. Hér spjallar Eva við mig fyrir Kvennablaðið!
Hvers vegna sóttir þú um starf hjá UNICEF og í hverju felst það?
Ég sá stöðuna auglýsta og ákvað að sækja um. Þegar í ljós kom að ég væri líkleg til að fá starfið ræddi ég það fram og aftur við manninn minn og við komumst að niðurstöðu um að þetta væri einstakt tækifæri fyrir okkur sem fjölskyldu til að upplifa nýja hluti og öðlast reynslu. Hlutverk mitt innan UNICEF í Malaví er að fylgja eftir og leiða ýmis verkefni sem eiga að efla og styðja við menntun barna og ungmenna í landinu.
Hvernig líkar þér starfið?
Starfið er mjög krefjandi en gefandi um leið. Ég vinn ýmist við stefnumótun, rannsóknir eða beina innleiðingu verkefna. Við leggjum áherslu á rétt allra barna til að njóta góðs af menntun og leggjum áherslu á börn sem hafa í gegnum tíðina verið útilokuð frá menntakerfinu af ýmsum ástæðum. Þar eru stúlkur í brennidepli enda hafa þær ekki notið sömu tækifæra til menntunar og drengir.
Því miður eru barnungar stúlkur í Malaví oft á tíðum giftar og ófrískar sem gerir þeim ókleift að sækja eða ljúka grunnmenntun. Ég trúi því jafn staðfastlega og Nelson Mandela, að menntun sé lykillinn að því að breyta lífi og lífsgæðum fólks.
Hvernig gengur lífið fyrir sig í Malaví og hvernig líkar ykkur?
Ég vinn frekar mikið, bæði langa vinnudaga auk vinnuferða um landið. En við fjölskyldan nýtum helgarnar vel og njótum þess að vera saman. Við höfum ferðast um landið og kynnst fleiri hliðum af Malaví en bara borginni. Vatnið er til dæmis algjör paradís og ekki nema í um klukkustundar akstursfjarlægð. Það var hluti af því sem við ætluðum okkur að gera hér, vera meira saman sem fjölskylda og lifa einfaldara og rólegra lífi.
Í Malaví líkar okkur mjög vel. Lífið er í öðrum takti og við söknum að sjálfsögðu fjölskyldunnar okkar og vina en við erum að upplifa svo margt spennandi og nýtt og komum heim reynslunni ríkari. Við erum sátt við lífið í dag og höfum ákveðið að taka eitt ár í einu. Framtíðin snýst einfaldlega um að skapa mér og fjölskyldunni hamingjusamt og innihaldsríkt líf. Ég veit að ég kem til með að vinna áfram á sviði menntunar og mannréttinda í þágu barna og ungmenna, en hvar í heiminum og nákvæmlega hvernig kemur bara í ljós.
Hver er munurinn á Malaví og Íslandi?
Landið er óneitanlega mjög ólíkt Íslandi enda eitt af fátækustu ríkjum heims og því nær ómögulegt að bera saman aðstæður eða umhverfi fólks. En fólkið hér er eins og flest fólk annarsstaðar í heiminum, bæði fallegt og vinalegt. Malavar eru einstaklega kurteisir og við lærðum fljótt að þú heilsar engum, ekki einu sinni afgreiðslufólki í búðum, nema að spyrja hvernig viðkomandi hafi það og hvernig fjölskyldan hans hafi það. Viðkomandi spyr þá sömuleiðis hvernig við og allt okkar fólk hafi það. Þetta fannst okkur skrýtið í fyrstu en nú finnst okkur þetta mjög notalegt.
Hvernig er því tekið að Lárus maðurinn þinn vinni heima meðan þú vinnur úti?
Áður en við fluttum voru flestir vinir okkar jákvæðir gagnvart því að Lárus yrði heimavinnandi en margir spurðu hvort hann ætlaði ekki að „gera eitthvað“ (þá væntanlega eitthvað annað en að sinna heimilinu og fjölskyldunni). Maðurinn minn er okkur mikil stoð og stytta og heldur utan um öll praktísk atriði sem snúa að heimilinu ásamt því að vinna í verkefnum tengdum körfuboltaskóla hér í Malaví, en hann er körfuboltaþjálfari og íþróttakennari.
Eftir að við fluttum komumst við að því að meirihluti kvenna sem hér starfa, og koma frá Norðurlöndunum, eiga heimavinnandi maka. Þetta fyrirkomulag þótti því fullkomlega eðlilegt innan alþjóðasamfélagsins. Í gegnum árin höfum við Lárus verið heima- og útivinnandi, sitt í hvoru lagi á sitthvorum tímunum.
Þannig að fyrir okkur er það einfaldlega hluti af lífinu að skiptast á að sjá um heimilið og stelpuna okkar. Við gerum okkur hinsvegar grein fyrir að jafnvægi í þessum efnum er best og hvorugt okkar græðir á því að sökkva sér alfarið í vinnu eða kúpla sig alveg út. Það þarf að finna meðalveg í þessu eins og öllu öðru.
Hver er lykillinn ad jafnrétti kvenna?
… úff ef það væri bara til einn töfralykill værum við komin svo miklu lengra! En ég trúi því að grunnurinn að hvers konar jafnrétti felist fyrst og fremst í menntun. Ekki bara fræðslu heldur raunverulegri menntun sem eflir, valdvæðir og hvetur bæði stúlkur og drengi til aukins þroska, ábyrgðar og athafna. Menntun sem mótar ekki bara einstaklinginn heldur samfélagið allt.
Jafnrétti kvenna hvar sem er í heiminum er nefnilega háð því að samfélagið sem þær búa í styðji við gildi og viðmið sem leitast í sífellu við að skapa jafnrétti og virðingu meðal fólks.
Hvað kom þér mest á óvart eftir að þú fluttir?
Þrátt fyrir ad hafa undirbúið mig ansi vel, lesið mér til og reynt að afla mér upplýsinga víðsvegar að, er alltaf einstök upplifun að lenda í Afríku og líta heiminn öðrum augum. Það hefur kannski ekki komið á óvart en engu að síður tekið á, að upplifa hversu stór hluti af fólkinu hér lifir við sára fátækt. Þegar lífið snýst kannski um það eitt að lifa daginn af virðist oft ekki vera rými til að vinna að jafnrétti, kvenréttindum eða réttindum barna. Því er æði margt í samfélaginu sem stíngur í hjartað og er langt frá þeim viðmiðum sem við eigum að venjast. En það er einmitt í þannig aðstæðum sem ég tel að við verðum að huga fyrst og fremst að jöfnum rétti fólks til að vera til, þroskast og dafna. Það er einmitt i erfiðustu aðstæðunum sem við verðum að hlúa hvað best að réttindum barna og kvenna.
Það kom okkur þægilega á óvart hversu yndislega glatt, þakklátt og hjálpsamt fólkið hér í Malaví er þrátt fyrir ótrúlega erfiðar aðstæður. Hjartalagið er afar stórt og okkur hefur verið tekið óskaplega vel af öllum hér – það er margt sem við getum lært af þessu frábæra fólki um seiglu, nægjusemi og náungakærleik.