Margir hafa væntanlega heyrt Grétu Salóme syngja þennan fallega sálm nú um hátíðirnar en myndbandið hefur verið í sýningu á sjónvarpsstöðvunum. Þetta er ákaflega fallegur sálmur og flutningur Grétu Salóme er sérlega fágaður. Útsetning lagsins er einnig hennar verk. Kvennablaðið forvitnaðist um hvernig það kom til að hún réðst í að taka upp þennan sálm. Við gefum Grétu Salóme orðið:
Þetta lag er jólasálmur frá Norður-Noregi og ég heyrði hann þegar mamma sendi mér hann á facebook þegar ég var úti á landi að syngja fyrir jólin í tónleikaröðinni, Jólin eru alls staðar. Sálmurinn greip mig við fyrstu hlustun og mér fannst eitthvað svo hátíðlegt og fallegt við hann. Ég vissi um leið og ég heyrði hann að ég yrði að gera texta við hann og taka upp fyrir jólin.
Ég var þess vegna með heyrnartólin á mér í rútunni á milli tónleikastaða að útsetja og semja texta til að koma þessu saman. Það var svo Erlendur Sveinsson í Majestic Productions sem tók upp og 99 sá um eftirvinnslu. Þetta var tekið upp í Sýrlandi í Vatnagörðum viku fyrir jól og Þorvaldur Bjarni stjórnaði upptökum.
Hér er svo myndbandið!