Fjölskyldur þeirra sem spila tölvuleiki kannast eflaust við hversu erfitt það getur verið að ná fólki frá tölvunni. Stundum er þetta smávægilegt vandamál en getur í sumum tilfellum tekið verulega á taugarnar og ógnað heimilisfriðnum. Sem spilari, sem hefur alið upp eitt stykki spilara og er gift spilara, ásamt því að hafa rannsakað tölvuleiki, hef ég stundum ráðlagt fólki sem spyr mig hvernig best sé að tækla þetta vandamál og hérna eru nokkur ráð:
1. Tölvuleikir geta skipt fólk miklu máli. Þetta er grundvallaratriði, vegna þess að fólk sem ekki spilar tölvuleiki lítur fyrst og fremst á þá sem afþreyingu sem ætti að vera hægt að leggja frá sér hvenær sem er. Tölvuleikir eru yfirleitt ekki álitnir alvöru áhugamál eins og golf eða fótbolti og því finnst fólki að það ætti ekki að skipta máli hvenær og hvernig maður hættir að spila.
Engum dytti í hug að labba inn á fótboltaæfingu/leik og rífa leikmann útaf vegna þess að nú þarf að fara í heimsókn/IKEA/jólaboð/ o.s.frv. en fólki finnst sjálfsagt að tölvuleikjaspilari slökkvi um leið og eitthvað annað kemur upp. Margt fólk nýtur þess í botn að spila góðan leik, það spilar með góðum vinum og er mjög fært á sínu sviði – að ætlast til að það stökkvi til um leið og öðrum dettur í hug getur flokkast undir tilætlunarsemi. Tölvuleikjaspilun ætti að skilja eins og önnur áhugamál.
2. Tölvuleikir eru mismunandi. Sumir leikir eru hannaðir á þann hátt að hægt er að leggja þá niður um leið og manni dettur í hug og það hefur engin áhrif á framgang leiksins. Aðrir leikir eru hannaðir á þann hátt að það þarf að vista leikinn áður en hægt er að slökkva og stundum er einungis hægt að vista á ákveðnum stöðum. Ef slökkt er á leiknum áður en búið er að vista, tapast ávinningur sem hefur náðst í þeirri ferð.
Leikirnir eru líka af mismunandi tegundum, það eru til söguleikir, þar sem spilarinn gegnir aðalhlutverki í spennandi sögu, skotleikir þar sem spilað er í leikjum (e. match eða campaign), sýndarveraldaleikir þar sem settur er upp bóndabær, hús blóm ræktuð og margar fleiri tegundir. Ég myndi mæla með því að foreldrar og makar sem spila ekki tölvuleiki, kynni sér hvers konar leiki er verið að spila á heimilinu, og að þau sem spila geri sér grein fyrir því hversu lengi þau ætla/þurfa að spila í hvert skipti.
Ef grípa á í leik í hálftíma áður en leggja á af stað í heimsókn er ekki skynsamlegt að fara í League of Legends þar sem hver leikur getur tekið mun meira en hálftíma, og ekki byrja á nýjum spennandi söguleik þar sem oft þarf að spila í a.m.k. klukkutíma til að komast almennilega af stað. Foreldrar geta þá mælt með að barn/unglingur spili frekar Animal Crossing sem hægt er að leggja frá sér um leið og hálftíminn er liðinn.
3. Tölvuleikir eru oft spilaðir með öðru fólki, í hópum (e. group) eða liðum (e. team). Þetta á við Internetleiki hvers konar og hér þarf að hafa í huga að oft fer hluti af spilatímanum í undirbúning. Þegar búið er að hóa öllum saman, ræða strategíu og verkaskiptingu o.þ.h. þá er loksins hægt að byrja að spila.
Að slökkva á leik án útskýringa er álitið mikill dónaskapur og leikmenn sem það gera ítrekað geta lent í vandræðum við að finna félaga til að spila með. Þetta getur valdið leiðindum og töfum því oft þarf að finna einhvern í staðinn svo ekki sé minnst á að nú er liðið án leikmanns sem getur haft í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir þau sem eftir sitja. Hérna er gullna reglan sú að gera ráð fyrir góðum tíma þegar sest er niður til að spila leiki af þessu tagi.
Þegar foreldrar og ungmenni semja um tölvutíma er gott að hafa í huga að það er skynsamlegt að semja um tíma í klukkustundum og það á sérstaklega við um herkænskuleiki (e. MOBAs) eins og League of Legends, Smite, Dota ofl. Betra er að semja um að spila megi tvo leiki (e. matches) frekar en tvær klukkustundir, af því að það er erfitt að hætta í miðri herferð vegna þess að sumir leikir hegna þeim sem hætta fyrir með mínusstigum sem skaða orðspor spilarans og hann kemur félögum sínum í vandræði
Þetta eru bara nokkrir punktar til að hafa í huga og auðvitað eru góð samskipti og gagnkvæm virðing það mikilvægasta í þessu sambandi. Síðan mæli ég líka með því að fjölskyldan spili saman, allavega til að kynnast leikjunum aðeins og kannski verður það að framtíðar fjölskylduáhugamáli. Góða skemmtun!
Ljósmynd af Flickr.