Feðginin og fréttamennina Ómar Ragnarsson og Láru Ómarsdóttur þarf vart að kynna en þau hafa staðið vaktina undanfarnar vikur allt frá því að jörð tók að skjálfa í nágrenni Bárðarbungu.
Ferðastiklur, þættir þeirra feðgina sem sýndir voru í vor, nutu mikilla vinsælda og fyrir þá sem misstu af þeim þá eru allir þættirnir aðgengilegir á: www.ruv.is/ferdastiklur
Undanfarnar vikur hafa þau feðgin flogið í vél Ómars og fylgst með breytingum í landslaginu í kringum gosstöðvarnar. Við náðum í Láru þegar hún átti stund milli stríða og þá lá beinast við að spyrja hvernig það væri að vinna svo náið með pabba sínum.
Það er frábært að vinna með pabba, hann er sveigjanlegur, umburðarlyndur og þægilegur í samskiptum og svo er hann náttúrulega hafsjór af fróðleik.
Pabbi þinn er einn reyndasti flugmaður landsins, á frægar nauðlendingar að baki (hann lenti til dæmis á Esjunni) og þekkir landið eins og lófana á sér en ert þú einhvern tíma hrædd í flugvél með honum?
Ég hef aldrei nokkurn tíma fundið fyrir hræðslu á flugi með honum. Það er bara gaman og áhugavert að fylgjast með honum í lofti og svo segir hann svo skemmtilega frá landinu.
Ertu sjálf með flugpróf?
Nei, því miður er ég ekki með flugpróf, ég hef hreinlega aldrei haft efni á að læra að fljúga þó mig langi mikið til þess.
Þið hafið verið í miklu návígi við gosið undanfarna daga? Er það ekki mögnuð upplifun?
Það er nánast ólýsanleg upplifun að sjá náttúruna að verki. Þá áttar maður sig vel á því hve smár maðurinn er í heiminum. Eldgos eru mikið sjónarspil og hafa nánast dáleiðandi áhrif á þann sem horfir. Ég á svolítið erfitt með að lýsa þessari upplifun en hún er svo sannarlega mögnuð, svo mikið er víst.
Við kvöddum Láru og hlökkum til að fylgjast með fréttum frá þeim næstu daga og vikur meðan gosið lifir. Fleiri myndir af ferðum Láru og Ómars má finna á Facebook síðu Láru. Eins bendum við lesendum á blogg Ómars á mbl.is.