Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ríkisútvarpið er krabbamein

$
0
0

Ríkisútvarpið getur ekki greitt skuldir sínar. Þá er þetta fyrst orðið útvarp allra landsmanna, peningalaust og með allt niðrum sig eins og hlustendurnir. Það er ekki óskiljanlegt afhverju RÚV hefur fjárhagstöðu öryrkja. Markhópurinn er aldrað fólk og það er alltaf að deyja.

Dyggustu hlustendurnir eru farnir yfir móðuna miklu eða að syngja sitt síðasta og þeir nýlega öldruðu hafa þróað með sér hæfileikann til að skipta um stöð á fjarstýringu. Sumir yfir fimmtugt kunna meira segja að fara á netið hjálparlaust.

gamla

Ég hef verið bara smágutti þegar ég varð afhuga ríkismiðlinum. Barnaefnið sem Stöð 2 bauð upp á var svo miklu skemmtilegra en þetta þurra austantjalds barnaefni sem Ríkisútvarpið bauð upp á. Meðan það var litríkt og spennandi, allt að gerast, á Stöð 2, var aldrei neitt að gerast í barnaefninu á Stöð 1 sem leit út fyrir að vera teiknað af fólki sem sérhæfir sig í skýringarmyndum fyrir bækur um plöntur og grös.

Maður var því ekki gamall þegar það rann upp fyrir manni að Ríkisútvarpið væri leiðinlegt. Það er hægt að fyrirgefa mönnum allt nema að vera leiðinlegir.

Ég er samt ekki að segja að RÚV hafi ekki átt og eigi ekki góða spretti. Jú jú, það hefur einstaka sinnum sýnt eitthvað sem ég hef áhuga á en það er eins og með forsætisráðherrann okkar, hann brosir einstaka sinnum. Bara ekki nógu oft til að ég nenni að horfa á hann.

Sumir segja að manni eigi að þykja vænt um Ríkisútvarpið. Þetta sé stofnunin okkar, hún geymi gríðarleg menningarverðmæti, sinni mikilvægu öryggishlutverki og sé nauðsynlegur þáttur í íslensku mannlífi. Það er kjaftæði.

Þetta er óþolandi peningasuga sem stendur ekki undir sér, menningarverðmætin eru að skemmast útaf hirðuleysi í rykföllnum geymslum og eina hlutverkið núorðið virðist vera það að tryggja ömurlegum listamönnum sínar nokkrar mínútur af útsendingartíma.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar, vill selja Rás 2 og fá þannig peninga í ríkiskassann. Ekki veit ég hver myndi vilja kaupa miðaldra fólk að tala um uppáhalds tónlistina sína. Fyrir mér er það álíka áhugavert og hlusta á grænmetisætur segja frá því hvað þær dreymdi í nótt. En það fyndna er að þetta er sá hluti Ríkisútvarpsins sem virðist standa undir sér. Enda ríkisstyrktur og á auglýsingamarkaði. Það vantar bara að tilkynnt sé um bankanúmer og kennitölu fyrir þá sem vilja styrkja stöðina fjárhagslega og þá er Rás 2 kominn með allar mögulegar leiðir sem hægt er að ná sér í peninga sem hægt er að hugsa sér.

Útvarp Saga sinnir svo nákvæmlega sama hlutverki og Rás 1 en fyrir miklu minna fé. Útvarpstjóri ætti að reka stjórnendur sína og ráða Arnþrúði Karlsdóttur til að reka rásina. Þá væri það gert sómasamlega.

En eins og staðan er í dag þá þurfa allir að greiða sérstakan skatt til að halda úti fjölmiðli sem fáir hafa gaman af. Gamla fólkið hlustar á útvarpsrásirnar og þeir sem eiga ekki efni á Stöð 2 horfa á sjónvarpsrásina.

Áhugaverða efnið sem RÚV á er ekki aðgengilegt neinum því stofnunin kann ekki á internetið og ríkisstyrkt samkeppnin torveldar öðrum reksturinn á sínum miðlum. Ríkisútvarpið er krabbamein á fjölmiðlamarkaði. Veikir allt, veldur gríðarlegri skuldasöfnun og drepur þig svo úr leiðindum.

Eina leiðin til að rétta við fjármál stofnunarinnar er að hún fari að hamstra Víkingalottómiða í von um að fá stóra vinninginn. Með smá gríðarlegri heppni væri þannig hægt að bjarga rekstrinum, sem maður á varla orð yfir hvernig hefur endað svona.

Búinn er til nýr skattur, nefskattur sem tryggja á fjárhag stofnunarinnar en síðan seilast pólitíkusar í peningana sem verður til þess að stofnunin fær bara brot af því fé sem hún átti með réttu að fá. Það er náttúrulega bara svik, ekki við stofnunina heldur eigendur hennar sem erum við skattgreiðendur.

AR-111039885

Það er ekkert mál að lækka gjöld á auðmenn og afnema skatta á stóreignafólk og sægreifa en þegar grunnstoðir samfélagsins vantar aura þá eru þeir ekki til. Maður bara áttar sig ekkert á þessu. – Vegna þess – að RÚV sinnir ýmsu sem einkafyrirtækin hafa vanrækt í viðleitni sinni við að Ameríkuvæða alla umræðu og málefni.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur breyst í Fox News með beinar úsendingar af stormum í vatnsglasi, æsifréttamennsku til að fá okkur upp á háa C og tryggja áhorf því við þorum ekki öðru en að horfa af ótta við að heimurinn sé að farast.

Fréttamenn og yfirmenn 365 heyja nú grímulausa baráttu í þágu mannanna sem settu hér allt á hausinn. Spilltar löggur sem seldu gögn til fjármálafyrirtækja eru sóttar til að vitna um hver miklum órétti bankamenn eru beittir af saksóknara, slegið er upp forsíðufréttum að sérstakur saksóknari sé raðklúðrari og umfjöllunin er öll eins og auðmenn hafi bara lent óvart í aðstæðum sem settu landið á hausinn.

Ef ekki væri fyrir fréttastofu RÚV gætu sumir haldið að helstu glæpamenn þjóðarinnar væru efnahagsbrotadeild og sérstakur saksóknari.

Svo maður tali nú ekki um öfluga fréttaskýringar Kastljóssins sem oft á tíðum hafa verið gríðarlega mikilvægar á meðan Ísland í dag fylgir kvöldfréttum Stöðvar 2 og við fáum Sindra Sindrason í heimsókn hjá poppstjörnu eða umfjöllun um einhvern sem er duglegur að auglýsa hjá miðlinum. Svo maður tali nú ekki um þegar fyrrum yfirmaður 365 miðla fékk Hönnu Birnu í viðtal í miðju lekamáli og liggur við fléttaði á henni hárið og naglaði á henni tásurnar á meðan hann spurði hana hvernig hún hefði það.

Raunveruleikaþættir og hæfileikakeppnir, sem eru ekkert annað en peningaplokk til að fá áskrifendur Séð og Heyrt til að kjósa í rándýrri símakosningu, eru vinsælasta efni hinna sjónvarpsstöðvanna. Við fáum fitubollur í megrun og þrjá mismunandi matreiðsluþætti á sama kvöldinu, í bland við erlenda þætti sem eru á Netflix þar sem maður er ekki látinn bíða mánuðum saman eftir einhverjum endi.

Það er greinilegt að markmið miðlanna eru mismunandi. RÚV er með margverðlauna þætti um lífið í landinu og menningu á meðan aðrir eru með Ásdísi Rán í ræktinni og framsóknarmennina sem eiga Eyjan.is í stjórnmálaútskýringum á sunnudögum.

Í huga margra er svo útvarpsfólkið á bæði Rás 1 og 2 ómissandi vinir heima í stofu eða í bílnum á leið til vinnu. Íslensk tónlist er í hávegum höfð á meðan margar aðrar útvarpstöðvar spila aðallega efni sem er gæðavottað af dansvænum skemmtistöðum niðri í bæ. Við fáum skemmtiefni og fróðleik í bland á ríkismiðlinum meðan aðrir eru meira í símaötum, megrunum og slúðri um kvikmyndastjörnur.

Það er óskiljanlegt hvernig komið er fyrir stofnun sem skipar svona virkilega stóran sess í huga þjóðarinnar. Það er alltaf sama sagan með þessa stjórnmálamenn, þeir svoleiðis valta yfir allt og alla að jafnvel flaggskip menningar og tungumáls þjóðarinnar, nær ekki endum saman.

Hugmyndin um að selja Rás 2 er svo fjarstæðukennd að auðvitað hljómar hún æðislega í huga Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns.

Erum við ekki búin að læra það að ef Framsókn segir að það sé góð hugmynd, þá er það glötuð hugmynd?

Síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur hún ráðist ítrekað á Ríkisútvarpið, henni finnst það vera í bullandi stjórnarandstöðu en áttar sig ekki á því að meirihluti þjóðarinnar vill að stjórnmálamönnum sé veitt aðhald, að þeir stjórni ekki umfjölluninni, viðtölum og áherslum. Það aðhald er ég ekki að sjá á öðrum miðlum þrátt fyrir beinar útsendingar og alvörugefin svip Þórbjörns Þórðarssonar fréttmanns í klæðskerasniðnum jakkafötum.

Nú boða menn enn frekari niðurskurð hjá stofnuninni, stofnun sem er svo heiðarleg í umfjöllun sinni um íslensk stjórnmál að Ólafur Ragnar forseti þorir ekki að tala við hana.

Stofnun eins og RÚV, sem Framsóknarflokkurinn vill draga tennurnar úr, Stjörnuleitarmiðlarnir sem byggja X-Factor sinn á fáfræði almennings vilja burt og forsetinn er skíthræddur við, er stofnun sem við eigum að standa vörð um.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283