Út fyrir óendanleika alheimsins hársbreidd utan snertingar
austan við Eden, sunnan Sumarlandsins,
norðan Heljar og vestan Valhallar
svífur sá hluti hans sem hann langaði til að verða,
ætlaði að verða, hafði á tilfinningunni að hann gæti orðið,
taldi jafnvel stundum að hann væri að verða
en varð aldrei
og kista vegur salt fyrir ofan fulla gröf af myrkri,
nætursöltuðu myrkri.
Eftir 20.000 fiskmáltíðir
500 lítra af rauðvíni
111 lambaskrokka
40 hektara grænmetis;
Eftir margvíslegan aukabita,
eftir flest lyf á lyfjaskránni,
og kannabis, róró og amfetamín
eins og pyngjan leyfði án þess að lenda í handrukkurum;
eftir andlegt og líkamlegt sjoppufæði;
eftir útvarpshlustun og sjónvarpsgláp
sem leiddi til heyrnartaps og ranghugmynda
og loks geðveiki og dauða
hverfur kistan ofan í gröf fulla af myrkri,
nætursöltuðu myrkri þar sem synda gullfiskar.