Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Jólagjöfin sem passar ekki undir tré

$
0
0

Þóra Ingólfsdóttir forstöðumaður Hljóðbókasafns skrifar:

Þóra Ingólfsdóttir

Þóra Ingólfsdóttir

Kristín Sigurðardóttir skrifar grein í Kvennablaðið í dag þar sem hún spyr hvenær hún megi njóta bókmennta með eyrunum, og óskar um leið eftir aðgangi að Hljóðbókasafni Íslands í jólagjöf. Þessu langar mig að svara þessu því óskin er fróm og falleg og það væri alveg dásamlegt ef Hljóðbókasafnið gæti útbúið gjafakort handa þeim fjölmörgu sem hafa spurt sömu spurningar í gegnum árin.

Við á Hljóðbókasafni Íslands svörum nefnilega í sífellu þessari spurningu, bara í mismunandi myndum. Kjarni spurningarinnar er yfirleitt á þessa leið: Hvernig stendur á því ferlega óréttlæti að almenningur hefur ekki aðgang að hinum mikla fjársjóði Hljóðbókasafnsins burtséð frá hverskonar fötlun? Mönnum er jafnvel misboðið og finnst eins og það sé verið að hafa eitthvað af þeim. Sumir láta jafnvel skína í þá trú að þessi regla sé byggð á geðþóttaákvörðun fúlla starfsmanna sem vilji barasta ekki lána bækurnar. Þessi mikli fjársjóður er jú til hvort sem er.

Ég sem forstöðumaður safnsins hef velt því fram og aftur fyrir mér í gegnum þessi sjö ár sem ég hef sinnt starfinu, hvernig sé í raun hægt að svara þessu þannig að spyrjandinn hlusti á svarið, því svarið er aldrei það sem hann vill heyra, hann virðist oft búinn að ákveða hvaða svar hann vill í samræmi við það sem nefnt er hér að ofan. Það þýðir ekkert að fara að setja stút á munninn og telja upp lög og reglur númer þetta og hitt, þá bara skellur allt í lás. Og ég skil það vel, það er svona stjórnmálamannasvar sem ekki er nokkur leið að skilja. Semsagt ekkert svar, og alls ekki það svar við viljum. Einhverju sinni datt mér í hug að spyrja til baka:

Hvers vegna má ég ekki leggja í stæði fyrir fatlaða? Þau eru þarna hvort sem er, og búið að eyða peningum í að búa þau til. Þetta er sáralítið notað. Eins finnst mér bara sanngjarnt og réttlátt að ég fái að nota hjólastólalyftuna, frekar en að vera að nota fæturna eins og asni. Og þó að megi kannski brosa yfir slíkum hugleiðingum þá liggur nú þarna samt sem áður mergurinn málsins.

Hljóðbókasafnið er ríkisstofnun sem gegnir afar mikilvægu hlutverki sem snýr að mannréttindum fatlaðra. Safnið er skítblankt og verður bara blankara eftir því sem lánþegahópurinn margfaldast með hverju árinu. Þessir sem geta ekki náð sér í bók á næsta bókasafni eða valið af hlaðborðinu í bókabúðinni. Þessir sem þurfa að reiða sig á Hljóðbókasafnið og það úrval sem þar er. Því miður er það ekki nema um fjórðungur af því sem kemur út á ári hverju.

En við erum þó heppin því íslensk höfundalög hafa að geyma 19. grein, sem leyfir safninu að búa til hljóðbækur handa þessum hópi án frekari málalenginga varðandi höfunda og útgefendur. Sumir rithöfundar eru æfir yfir þessari undanþágu og það er svo vel hægt að skilja það en það sem vegur mun þyngra að mínu mati eru almenn mannréttindi og jafnræði. Ef þessi undanþága væri ekki í gildi er hætt við að heldur fátæklegt yrði um að litast á bókakosti safnsins. Á sama tíma er safnið undir sívökulu eftirliti hagsmunaðila höfundarréttar og útgefenda.

Til dæmis er ekki ólíklegt að þessi grein sem hér er svarað og sú fallega ósk sem þar er borin upp verði vatn á myllu þeirra sem vildu helst bara loka safninu því „það eru jú svo margir að svindla og þetta skemmir alveg opinn hljóðbókamarkað á Íslandi, já og kannski bara bókamarkaðinn eins og hann leggur sig.“

Auðvitað er dásamlegt að njóta góðra bókmennta með eyrunum við ýmis störf. Það skilja allir sem hafa á annað borð gaman af því að hlusta á góðar sögur. Og safnið hefur eins og réttilega er nefnt, lagt sig í líma við að fá sem flesta höfunda til að lesa eigin verk, það eykur mjög gildi bókakostsins. Í fullkomnum heimi ætti ekki að vera til neitt hljóðbókasafn heldur ættu allar bækur að koma út jöfnum höndum á prenti og hljóði. Allra hagsmuna yrði vandlega gætt og hljóðbækurnar myndu einfaldlega lánast út í gegnum almenningsbókasöfn. Auðvitað gegn alvöru greiðslu til höfunda, útgefenda og lesara. Það þyrfti vissulega nóga peninga en við erum jú að tala um hinn fullkomna heim.

Að þessu sögðu ætti að vera ljóst að því miður þá er ekki hægt að verða við hinni frómu og fallegu ósk. Gjöfin bara passar ekki undir tréð. Til þess er pakkinn allt of þvældur og undinn og með allskonar hornum og einhver gæti jafnvel orðið reiður ef þú opnar hann.

En ég vona að þú fáir marga góða harða pakka og það er vonandi huggun harmi gegn að lesblindu börnin á heimilinu geta líka lesið þessar bækur – með eyrunum.

Ljósmynd af Flickr


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283