Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Uppreisn æru?

$
0
0

Hver gerir ekki mistök? Við höfum öll gerst sek um að hafa breytt rangt einhvern tímann á lífsleiðinni og sjáum allflest eftir því. Sama hvað er, stolið nammi úr kaupfélaginu, gengið yfir á rauðu ljósi eða tilkynnt veikindi til yfirmanns þegar maður í raun er skítþunnur eftir gott djamm á fimmtudegi.

Ég er ekki að segja að það hafi gerst nýlega … alls, alls ekki.

Þetta eru allt aðstæður sem við getum sammerkt okkur með í daglegu lífi og er frekar undantekning frekar en regla. Hins vegar í mínum „ungdómi“ þá gerðist þetta bara og mögulega man einhver eftir því hvað gerðist, en gat í raun ekkert gert með það nema festa í minni og ræða það. Með munninum og orðum, við annað fólk.

Begga vinkona man reyndar allt. Allt það góða, en hún man líka svakalega mikið af hinu slæma sem ég gerði. Ekki bara hið slæma, heldur þetta svakalega vandræðalega. En ég er svo heppin að þetta geymist bara í minni hennar og einhverra fárra annarra og er aldrei rifjað upp nema í teitum og í aðstæðum sem hreinlega bjóða upp á það og þá bara í góðra vina hópi.

Enginn gat fest augnablikið á filmu og hent inn á facebook eða instagram. Enginn gat tweetað eða sent fréttaskot á DV á núll-einni enda flest af þessu ekki til þegar ég var að læra og þroskast.

Ég er ekki að tala um eitthvað stórvægilegt, eða meiri háttar brot sem varða við lög, ég er að tala um verknaði eða gjörninga sem mögulega særa þriðja aðila eða gera mann að stórfelldu fífli eða asna. Allt sem á að vera yfirstíganlegt.

Í dag er þetta breytt. Fólk lendir í því að vera tekið fyrir miskunnarlaust vegna þess að það er hægt að miðla mistökum þess jafn snöggt og þau gerast og það er ekkert sem getur tekið það til baka. Það sem birtist á internetinu er þar að eilífu.

Ég var að vafra á facebook á föstudagskvöldi þegar ég rak augun í mynd sem einhver piltur hafði deilt. Myndin var af stúlku sem hélt á hundinum sínum. Fyrirsögnina mátti skilja svo að hundurinn væri ekki í góðum málum verandi í eigu stúlkunnar. Ég sá að töluvert af ungum krökkum var búið að læka myndina svo ég fór að grennslast fyrir um þetta en gat ekki skilið af hverju svona var komið. Pilturinn ungi var ekki tengdur viðkomandi stúlku vinaböndum á facebook svo ég spurði af hverju honum fyndist að hundurinn ætti ekki að vera í höndum stúlkunnar.

Hann svaraði fljótt og það ekki í orðum, heldur með myndum þar sem stelpan hélt á ketti bæði í hnakkadrambið og rófu. Myndin hafði greinilega verið tekin í gassagangi og klárlega send í einkaskilaboðum, sem réttlætir þó gjörninginn ekki.

Jæja, hugsaði mér, á að jarða þessa stelpu fyrir augnabliks heimsku og velti fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef öll mín mistök hefðu verið sett á facebook eða twitter. Ætti ég mér viðreisnar von? Væri fólk enn að dæma mig? Er þetta bara í lagi? Að auki voru einhverjir krakkar búnir að búa til youtube myndband þar sem þau tættu stúlkuna í sig og átti klárlega að vera eitthvað fyndið.

Málið er að þetta var bara ekkert fyndið, þetta er hrottalegt einelti.

"ég hef aldrei tekið Læðubósann upp á rófunni, enda hætti ég slíkum tilraunum á barnsaldri. Sem betur fer er ekki til mynd af mér á internetinu með Brand í krumlunni"

„ég hef aldrei tekið Læðubósann upp á rófunni, enda hætti ég slíkum tilraunum á barnsaldri. Sem betur fer er ekki til mynd af mér á internetinu með Brand í krumlunni“

Ég tók Brand gamla upp á rófunni þegar ég var krakki að alast upp í Hrafnkelsdal. Forvitnin varð skynseminni yfirsterkari og það gæti verið, ég ætla hvorki að játa né neita, að Brandur hafi fengið að fljúga fram af baggastæðu, af því ég og frændi minn vorum að pæla hvort það væri satt að kettir lentu alltaf á fótunum. Það eru ekki til eilífðarmyndir af því á internetinu sem betur fer og ég myndi aldrei í lífinu gera þetta í dag.

Nú er ég ekki að réttlæta meðferðina á dýrinu, ég er einvörðungu að velta fyrir mér hvort það sé liðin tíð að fólk fái að læra af mistökum sínum og þau gleymist með tíð og tíma eins og eðlilegt er?

Er réttlætanlegt að 12, 13, 14 ára krakkar með facebook og youtubeaðgang fái að taka jafnaldra sína félagslega af lífi fyrir svona? Er ekki frekar að kenna börnunum sínum að fara réttar boðleiðir með að deila áhyggjum sínum yfir svona gjörningum með foreldrum og leita ráða hvernig eigi að bregðast við?

Krakkarnir átta sig ekkert á rangindum sínum og ég skal veðja við ykkur öll sem eitt að þau hafa ábyggilega einhvern tímann gert eitthvað af sér sem þau myndu aldrei vilja að yrði gert opinbert.

Hvað veit ég? Ég er bara kona á Héraði sem hefur gert fullt af mistökum og hef blessunarlega fengið að læra af þeim án þess að alþjóð viti og dómstóll götunnar taki mig af lífi. Ég á mér enn þá viðreisnar von, eða því sem næst.

Þess má geta að ég hafði samband við foreldra. Myndin var tekin af facebookinu og youtube-myndbandinu hefur verið eytt.

Einn pilturinn stakk meira að segja upp á því að birta skjáskot af því sem þau voru að segja og gera. Honum fannst ekki vitlaust að aðrir fengju að sjá hversu röng þessi hegðun var.

Mér finnst það stórmannlegt og ber vitni um að hann hafi tekið þroskað á málinu og muni stíga varlega til jarðar á samfélagsmiðlum í framtíðinni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283