Sko, ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að játa það en a) mér þykir lifur góð b) á þessum árstíma er hún sirka vikulega í matinn hjá mér og c) það er ekki af því að hún er svo ódýr. Mér finnst hún bara skemmtilegt hráefni. Þannig að þegar ég set hér lifraruppskrift (alltsvo núna) er það ekki framlag mitt til umræðunnar um matarkostnað. Þetta er bara kvöldmaturinn minn einn daginn í síðustu viku.
Sonurinn kemur oft í mat þessa dagana en þetta kvöld kom hann ekki og ég notaði tækifærið og hafði tvennt sem hann borðar ekki: lifur og sveppi (bölvuð matvendni í drengnum). Þótt ég væri ein eldaði ég skammt sem hefði dugað fyrir fjóra, borðaði vel og tók svo afganginn með í vinnuna daginn eftir. Það var þó allt of mikið í hádegismatinn svo ég deildi því með nokkrum vinnufélögum sem sumir fá aldrei lifur heima hjá sér en þykir hún góð.
Ég var að reyna að taka saman kostnaðinn við máltíðina og sýnist hann hafa verið í kringum 1200 krónur. (Rifsberin sem ég skreytti með eru reyndar ekki með í því en þetta var smáafgangur, ætli það bætist ekki 100-150 krónur við ef þau væru talin.) Ef ég reikna mér fjórðung af því í kvöldmatinn eru það 300 krónur – að vísu dálítið yfir viðmiðinu hans Bjarna Ben en þó ekkert að ráði. En ég vil að vísu helst ekki hafa lifur oftar en vikulega (og í nesti daginn eftir) svo að ég þarf að finna til fleira af sama tagi. Reyndar stóð ég mig vel í kvöld, gerði biximat handa mér og syninum úr afganginum af lambalærinu sem var um helgina svo að kvöldmaturinn kostaði ekki krónu …
Ég byrjaði á að setja upp kartöflur (meðalstórar Gullauga) og sjóða þær þar til þær voru meyrar. Þá skar ég þær í tvennt (þær stærstu í fernt), hitaði dálitla olíu á pönnu og steikti kartöflurnar við góðan hita þar til þær höfðu tekið lit.
Ég byrjaði á því að saxa einn vænan rauðlauk fremur smátt, skera 250 g af sveppum í sneiðar og saxa einn hvítlauksgeira mjög smátt. Svo hitaði ég 1 msk af olíu á pönnu og lét lauk, hvítlauk og sveppi krauma í henni við meðalhita þar til laukurinn var farinn að mýkjast og sveppirnir að taka svolítinn lit.
Þá kryddaði ég þetta með 1 tsk af nýmöluðu kóríanderfræi, 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, nýmöluðu pipar og salti og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót en tók þetta þá af pönnunni með gataspaða og setti á disk.
Ég var með eina lambalifur, 600-650 grömm, sem ég hreinsaði og skar á ská í þunnar sneiðar, um eða innan við 1 cm. Ef maður á ekki góðan, beittan hníf eða treystir sér ekki til að skera nógu þunnt getur verið gott að hálffrysta lifrina (eða sneiða hana áður en hún þiðnar til fulls ef maður er með frosna, en ég geri það nú aldrei).
Svo setti ég 3 msk af heilhveiti á disk og kryddaði þær með 1 tsk af paprikudufti, vænni klípu af cayennepipar, pipar og salti og blandaði þessu saman.
Velti lifrarsneiðunum upp úr hveitiblöndunni og þrýsti þeim vel niður.
Þegar ég var búin að taka laukblönduna af pönnunni bætti ég 1 msk af olíu og 1 1/2 msk af smjöri á hana. Steikti svo lifrina við fremur háan hita í svona 1 1/2 mínútu.
Þá sneri ég þeim og steikti í 1 1/2 mínútu á hinni hliðinni. Tók sneiðarnar svo af pönnunni, setti á disk og setti lok yfir til að halda þeim heitum.
Ég setti sveppablönduna aftur á pönnuna. Hellti svo 3 1/2 msk af balsamediki yfir og lét sjóða rösklega í 1-2 mínútur. Bætti við smáskvettu af vatni og sauð aðeins áfram.
Ég dreifði svo blönduðum salatblöðum á fat. Kartöflurnar, sem ég hafði verið að steikja um leið og hitt á annarri pönnu, voru farnar að brúnast og ég setti þær á miðjuna á fatinu.
Svo raðaði ég lifrarsneiðunum ofan á, hellti laukblöndunni yfir og af því að ég átti eina grein af rifsberjum sem hafði orðið afgangs hjá mér af einhverju öðru skreytti ég með henni. En það fellur nú ekki undir neysluviðmiðin.
Sko, mér finnst þetta bara alveg ansi hreint gott. Og ég get eldað ansi marga mismunandi lifrarrétti. En kannski ekki alveg nógu marga til að fjármálaráðuneytið verði sátt. Svo að á morgun verð ég að láta mér detta eitthvað annað í hug.
*
Lambalifur með balsamsveppum
1 vænn rauðlaukur
250 g sveppir
1 hvítlauksgeiri
2 msk olía
1 tsk kóríanderfræ
1/2 tsk timjan
pipar
salt
1 lambalifur
3 msk heilhveiti
1 tsk paprika
væn klípa af cayennepipar
1 1/2 msk smjör
3½ msk balsamedik
kartöflur
salatblöð